Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 491/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 13. gr. — 32. gr. — 33. gr. — 44. gr. 1. mgr. — 55. gr. 1. mgr.  

Fyrning — Fyrning fasteignar — Fyrningartími — Fyrning skattskylds hluta söluhagnaðar af fyrnanlegum eignum — Fyrirframfyrning — Fyrnanleg eign — Almenn fyrning — Fyrning, almenn — Fyrningar sérstakar á móti tekjufærslu fjárfestingarsjóðstillags — Atvinnuhúsnæði — Eigin vinna — Sérstök fyrning — Sérstök fyrirframfyrning

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1985. Er kröfugerð umboðsmanns kæranda fyrir ríkisskattanefnd svohljóðandi:

„Málavextir eru þeir að ofanritaður keypti á árinu 1984 iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði. Húsið fékk hann afhent seint á árinu 1984. Ekki var um aðrar tekjur vegna reksturs hússins að ræða á árinu 1984 en „eigin vinnu v/iðnaðarhúss, kr. 200.000, sbr. rekstrarreikning. Í framtali 1985 var óskað eftir heimild til að fyrna iðnaðarhúsnæðið um frestaðan söluhagnað vegna ársins 1982, sbr. 13. gr. laga nr. 75/1981. Með bréfi dags. 7. febrúar sl. var ofanrituðum tilkynnt að fyrirhugað væri að taka skattframtal 1985 til endurálagningar og fella niður fyrningu á móti framreiknuðum söluhagnaði. Þessari afstöðu var andmælt í bréfi dags. 12. febrúar sl., svo og úrskurði skattstjóra dags. 20. mars sl. með bréfi dags. 18. apríl sl. Á sömu forsendum og áður viljum við nú mótmæla úrskurði skattstjóra dags. 12. maí sl.

Í úrskurði skattstjóra er m.a. vitnað til þeirrar meginreglu að fyrning eigna hefjist fyrst á því ári sem þær eru nýttar við öflun tekna sbr. 33. gr. laga nr. 75/1981. Ennfremur er vísað til 32. gr. laganna þar sem segir „Fyrnanlegar eignir eru varanlegir rekstrarfjármunir sem notaðir eru til öflunar tekna í atvinnurekstri eða í sjálfstæðri starfsemi og rýma að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur. Varla verður véfengt að umrætt iðnaðarhúsnæði sé fyrnanleg eign skv. 32. gr.

Ekki er því sjónarmiði andmælt sem meginreglu að fyrning eigna hefjist fyrst á því ári sem þær eru nýttar við öflun tekna, sbr. 33. gr. Slíkt á vitaskuld við um hinar almennu fyrningar. Hins vegar er um frávik að ræða frá þessari meginreglu þegar um sérstakar fyrningar er að ræða, svo sem:

* Söluhagnaðarfyrningu, sbr. 13. gr. og 1. mgr. 44. gr.

* Fyrirframfyrningu, sbr. 2. mgr. 44. gr.

* Sérstakar fyrningar vegna upplausnar fjárfestingarsjóðs, sbr. 2. tl. 1. mgr. 55. gr.

Hvorki 1. mgr. 13. gr. laganna né 1. ml. 1. mgr. 44. gr. gerir kröfu til þess að skilyrðum 33. gr. sé fullnægt. Rekstur iðnaðarhússins hófst vitaskuld á árinu 1984 þótt ekki hafi verið um að ræða innkomnar leigutekjur á því ári, enda voru lögð opinber gjöld á ofanritaðan vegna þessa rekstrar á gjaldárinu 1985. Rétt er að benda á þann yfirlýsta tilgang með setningu laganna, að með heimild til frestunar skattgreiðslu vegna söluhagnaðar enda sé sölu hagnaðurinn notaður til fyrningar annarra fyrnanlegra eigna, sé leitast við að hafa flutning eigna milli atvinnugreina sem greiðastan. Með tilliti til þessara atriða svo og áður framkominna röksemda vil ég ítreka þá kröfu mína að fyrning á móti söluhagnaði, sbr. skattframtal 1985, fái að standa óbreytt.

Með bréfi dags. 21. júlí 1986 krefst ríkisskattstjóri þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Svo sem mál þetta liggur fyrir verður eigi talið að umrætt iðnaðarhúsnæði hafi verið tekið í notkun í skilningi laga um tekjuskatt og eignarskatt. Þrátt fyrir það þykir 13. gr. laganna eigi verða skýrð eða skilin svo að loku sé skotið fyrir það að þar greind heimild til fyrningar verði nýtt í tilviki kæranda. Og með því að skattframtal kæranda 1985 er að öðru leyti eigi vefengt er fallist á kröfu hans í málinu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja