Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 503/1986

Gjaldár 1985

Atvinnuleysistryggingagjald — Atvinnuleysistryggingasjóður — Atvinnuleysistryggingagjaldsstofn — Lögskráning — Lögskráningarstjóri — Álagningaryfirvald — Sjómennska — Sjómaður — Gjaldskyldar vinnuvikur

Kærð er álagning atvinnuleysistryggingariðgjalda gjaldárið 1985. Er kæruefnið sú ákvörðun skattstjóra að leggja hin kærðu iðgjöld á kæranda vegna vinnuvikna sjómanna hans sem umfram voru lögskráningardaga þeirra. Taldist skattstjóra svo til að vinnuvikur þessar næmu 192 vikum. Kærandi krefst þess að iðgjöldin verði eingöngu miðuð við 15 vinnuvikur sem hafi verið vegna vinnu þegar skip kæranda var í slipp og geti ekki talist vera vegna sjómannsstarfa.

Með bréfi dags. 21. júlí 1986 krefst ríkisskattstjóri þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt lögum nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingar, ber kæranda að greiða iðgjald til Atvinnuleysistryggingarsjóðs vegna starfsmanna sinna þ.á m. þeirra er gegna sjómannsstörfum. Samkvæmt ákvæðum 12. gr. laganna ber skattstjóra að leggja iðgjöld þessi á en þó með þeirri undantekningu að iðgjöld af lögskráðum sjómönnum skulu lögð á og innheimt fyrirfram af lögskráningarstjórum. Af málflutningi kæranda verður helst ráðið að hann telji sjómannsstörf undanþegin álagningu nefndra iðgjalda en svo er ekki. Svo sem mál þetta liggur fyrir þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra að niðurstöðu til þ.á m. um útreikning iðgjalda á fjölda vinnuvikna sjómanna sem lögskráningarstjóri hafði ekki þegar lagt á.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja