Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 539/1986

Gjaldár 1984—1985

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.  

Vaxtagjöld — Íbúðarhúsnæði — Eigin not — Sifjalið

Hina kærðu ákvörðun byggði skattstjóri á því að vaxtagjöld hefðu verið offærð til frádráttar tekjum í skattframtölum kærenda árin 1984 og 1985. Taldi skattstjóri að vaxtagjöld af skuldum vegna kaupa á eignarhluta í íbúðarhúsnæði í Reykjavík væru ekki frádráttarbær skv. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með því að eigi hefði verið um að ræða eigin not á því húsnæði í skilningi þess lagaákvæðis.

Þess er krafist að ákvörðun skattstjóra verði felld úr gildi og er meginröksemd fyrir þeirri kröfu svohljóðandi í kærunni til ríkisskattanefndar: „Íbúðarhúsnæðið er sannanlega til eigin nota, eingöngu. Það er ekki leigt út og ekki heldur lánað til annarra en fjölskyldumeðlima. Þetta er helmingur af tiltölulega lítilli risíbúð og ekki með nokkru móti hægt að leigja hana út þó fyrir því væri vilji þar sem eignin er óskipt. Það getur ekki ráðið neinum úrslitum um þetta atriði, þ.e. að íbúðarhúsnæðið sé til eigin nota, þó eigandi þess sé búsettur úti á landi og eigi sitt hús þar. Það verður að teljast eigin afnot þegar gjaldandi og kona hans nota íbúðarhlutann eingöngu sjálf þegar þau eru í Reykjavík, sem í þeirra tilviki er oft vegna starfa gjaldanda og félagsstarfa og fría þeirra. Einnig verða það að teljast eigin afnot þegar gjaldandi lætur dóttur sína dvelja í íbúðinni á meðan hún er við nám í Reykjavík, en hún er fædd 4. október 1964 og var því 17 ára menntaskólanemi á framfæri foreldra sinna þegar íbúðin var keypt.

Með bréfi dags. 13. ágúst 1986 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Gerð er krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra. Ríkisskattstjóri lítur svo á að orðasambandið „til eigin nota í 1. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 beri að túlka þröngt þannig að ef barn íbúðareiganda hefur viðkomandi íbúð til eigin nota og ekki sé um tímabundna dvöl eiganda annars staðar að ræða séu vaxtagjöld af skuldum ekki frádráttarbær.

Þegar litið er til skýringa kærenda á notkun íbúðarhúsnæðis þess sem um ræðir í máli þessu þykir verða að fallast á það að þeim beri frádráttur vegna vaxtagjalda af þeim skuldum sem tilfærð voru til öflunar umrædds íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Er því fallist á kröfur kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja