Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 38/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 60/1984 — IV. kafli   Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 51. gr. 2. mgr.  

Vaxtagjöld — Frádráttarbærni vaxtagjalda — Verðbætur, greiddar — Verðbætur gjaldfallnar — íbúðarhúsnæði — Verkamannabústaður — Íbúðarsala — Íbúðarlán — Byggingarsjóður ríkisins — Húsnæðisstofnun ríkisins — Uppfærsla lána — Verkamannabústaður, uppgjör eignarhluta

Málavextir eru þeir, að meðal vaxtagjalda til frádráttar tekjum í skattframtali sínu árið 1985 færði kærandi 273.181 kr. vegna skuldar við Byggingarsjóð ríkisins. Kærandi seldi íbúð í Reykjavík, stjórn verkamannabústaða í Reykjavík þann 13. júlí 1984, en íbúð þessi laut ákvæðum laga um verkamannabústaði.

Með bréfi, dags. 19. júlí 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda, að umræddur vaxtagjaldaliður 273.181 kr. hefði verið felldur niður. Um væri að ræða verðbætur af láni frá Bygging¬arsjóði ríkisins, sem til væru komnar vegna uppgjörs við sölu íbúðar í Reykjavík, til stjórnar verkamannabústaða. Teldist hér ekki vera um gjaldfallnar verðbætur að ræða í skilningi 51. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 8. gr. sömu laga.

Í kæru til skattstjóra, dags. 14. ágúst 1985, mótmælti umboðsmaður kæranda skilningi skattstjóra og breytingu hans. Fylgdi kærunni ljósrit af uppgjörsblaði, dags. 27. nóvember 1984, vegna sölu íbúðarinnar. Umboðsmaðurinn tók fram, að endursöluverð íbúðarinnar hefði verið 974.250 kr., en frá þeirri fjárhæð hafi m.a. verið dregnar verðbætur að fjárhæð 485.657 kr., sbr. uppgjörið. Í reynd hafi hér verið um að ræða gjaldfallnar verðbætur, sem kærandi greiddi. Hann fengi aðeins útborgaðar 462.190 kr. Upphaflega hefði lánið frá byggingarsjóðnum numið 26.403 kr., en með verðbótum hefði það verið komið í 785.241 kr. og hefði því hækkað um 758.838 kr. Endurgreiddar verðbætur hafi hins vegar reynst nema 273.181 kr. í skattframtali hefðu því gjaldfallnar og greiddar verðbætur átt að nema 485.657 kr. en ekki 273.181 kr., sem óskað var eftir, að leiðrétt yrði. Þá bendi umboðsmaðurinn á það, að láni byggingarsjóðsins hefði verið aflýst af hinni seldu eign, sem væri enn frekari sönnun fyrir greiðslu verðbótanna. Ef hins vegar svo hefði verið litið á, að verðbæturnar væru ekki gjaldfallnar, hefði kærandi átt að fá 485.657 kr. meira fyrir íbúðina. Lán Byggingarsjóðs ríkisins væri sannanlega greitt upp með fullum verðbótum eins og uppgjörið bæri með sér. Þá vísaði umboðsmaður kæranda til 1. tl. 51. gr. laga nr. 75/1981 og úrskurðar ríkisskattanefndar varðandi verðbætur vegna sölu íbúðar frá 30. desember 1983.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar í kæruúrskurði, dags. 9. október 1985, og hafnaði kröfum kæranda með skírskotun til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 747/1982, þar sem ekki væri litið á uppfærslu lána vegna sölu íbúðar til stjórnar verkamannabústaða sem gjaldfallnar verðbætur í skilningi 51. gr. laga nr. 75/1981.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 31. október 1985, og krefst þess, að álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1985 verði lækkuð með skírskotun til rökstuðnings í kæru til skattstjóra, dags. 14. ágúst 1985.

Með bréfi, dags. 6. janúar 1986, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi seldi á árinu 1984 íbúð, sem háð er ákvæðum laga um verkamannabústaði, sbr. nú IV. kafla laga nr. 60/1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins. Uppfærsla láns þess, sem um ræðir í máli þessu og gerð er í sambandi við uppgjör og útreikning á verðmæti eignarhluta kæranda í íbúðinni, sbr. 51. gr. laga nr. 60/1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins, skoðast ekki sem gjaldfallnar verðbætur í skilningi 51. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja