Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 139/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 3. gr. — 70. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml  

Skattskylda — Ótakmörkuð skattskylda — Takmörkuð skattskylda — Heimilisfesti - Dvalartími — Hagstofa Íslands — Þjóðskrá — Flutningsvottorð — Frávísun vegna vanreifunar — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Sönnun

Málavextir eru þeir, að við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985 byggði skattstjóri á því, að kærandi hefði verið heimilisfastur hér á landi hluta tekjuársins 1984. Beitti skattstjóri því ákvæðum 2. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í tilfelli kæranda og miðaði við 7 mánaða dvalartíma hér á landi.

Af hálfu kæranda var álagningin kærð með kæru, dags. 22. ágúst 1985 og boðað, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Fylgdi kærunni flutningsvottorð, þar sem fram kom, að kærandi hefði flust frá Danmörku til Íslands þann 1. júní 1983. Með úrskurði, dags. 21. október 1985, vísaði skattstjóri kærunni frá með því að boðaður rökstuðningur hefði ekki borist, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Frávísunarúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. nóvember 1985. Er þess getið, að álagning skattstjóra sé byggð á röngum upplýsingum frá Hagstofu Íslands, þar sem talið sé, að kærandi hafi flust til landsins s.l. sumar, þegar hann hafi flust milli lögsagnarumdæma hér á landi, þ.e.a.s. frá Seltjarnarnesi til Reykjavíkur. Vísað er til staðfestingar Hagstofu Íslands, sem fyrir liggur í málinu, á því að kærandi hafi flust til Íslands þann 1. júní 1983.

Með bréfi, dags. 10. febrúar 1986, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu: „Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum er fallist á leiðréttingu á álagningu opinberra gjalda þar sem kærandi virðist vera skattskyldur skv. 1. gr. laga nr. 75/1981 en ekki 3. gr. sömu laga.

Í tilefni af kröfugerð ríkisskattstjóra skal tekið fram, að eigi er neinn ágreiningur um það, að kærandi sé skattskyldur samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, heldur er mótmælt þeirri ákvörðun skattstjóra að telja kæranda hafa verið heimilisfastan hér á landi einungis hluta tekjuársins 1984 og beita í því sambandi ákvæðum 2. mgr. 70. gr. nefndra laga við álagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1985. Með skírskotun til fyrirliggjandi gagns um flutning kæranda til landsins er krafa hans tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja