Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 739/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 15. gr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Bifreiðasala — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Skattfrelsi — Bifreiðaviðskipti — Gróðaskyn — Kærufrestur — Sönnun — Frávísun

Málavextir eru þeir, að kærandi keypti og flutti inn á árinu 1984 frá Þýskalandi bifreið í hlutum af gerðinni Mercedes-Benz 380 SE. Kostnaðarverð bifreiðarinnar nam 628.017 kr. skv. sundurliðun kæranda í fylgiskjali með skattframtalinu, þar sem gerð var og grein fyrir þessum bifreiðakaupum. Þar var þess jafnframt getið, að bifreiðin hefði á árinu 1984 verið seld fyrir 900.000 kr. Ekki færði kærandi sér til tekna söluhagnað af þessari bifreið.

Skattstjóri taldi söluhagnað af bifreiðinni 271.983 kr. hins vegar skattsskyldan með skírskotun til 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda hefði af hálfu kæranda ekki verið gert líklegt, að 2. mgr. nefndrar lagagreinar ætti við í tilviki hans. Kærandi hafði borið fyrir sig skattfrelsisákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Í því sambandi var af hans hálfu bent á, að bifreiðin hefði eingöngu verið flutt inn sem einkabifreið. Hins vegar hafi hún reynst dýrari en kærandi hefði reiknað með og hann því neyðst til að selja hana. Þá var á það bent, að þetta hefði verið eina bifreiðin, sem kærandi hefði keypt á árinu 1984. Á þessum grundvelli mótmælti umboðsmaður kæranda í kæru til skattstjóra, dags. 16. júní 1986, endurákvörðun hans á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1985, dags. 16. maí 1986, að því leyti sem hún byggðist á tekjufærslu nefnds söluhagnaðar 271.983 kr. Með kæruúrskurði, dags. 23. júní 1986, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni með því að kærufrestur hefði runnið út hinn 14. júní 1986, sbr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessum frávísunarúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. júlí 1986. Er þess krafist, að tekjufærsla nefnds söluhagnaðar 271.983 kr. verði niður felld með vísan til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eru færð fyrir þessu þau rök, sem fyrr getur. Jafnframt er þess getið, að þetta séu einu bifreiðaviðskipti kæranda frá árinu 1981 og hann hafi fullar atvinnutekjur í iðngrein sinni.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags. 16. desember 1986, svofelldar kröfur gerðar í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Telji ríkisskattanefnd að taka beri kæruna til efnislegrar afgreiðslu er gerð krafa um að henni verði synjað, enda verður að telja að sala á innfluttri Mercedes-Benz bifreið á árinu 1984 hafi verið byrjun á kaupum og sölum á bifreiðum í hagnaðarskyni, sbr. skattframtal kærandans 1986.

Eftir atvikum þykir mega taka kæruna til efnismeðferðar. Svo sem málsatvikum er háttað þykir kærandi eigi hafa sýnt nægilega fram á, að hann geti notið skattfrelsisákvæða 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Rétt þykir að vísa kærunni frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja