Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 289/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 14. gr. — 95. gr. 1. mgr. — 96. gr. 1. og 3. mgr. — 99. gr. 1. mgr. — 100. gr.-  

Söluhagnaður ófyrnanlegra eigna — Ákvörðun söluhagnaðar — Síðbúin kæra — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan — ómerking

I.

Málavextir eru þeir, að með kaupsamningi, dags. 29. mars 1985, seldi kærandi ásamt sameigendum sínum lóð að S-götu, Reykjavík, fyrirtækinu B. s.f. Skattframtali kæranda árið 1986 fylgdi sérstakt fylgiskjal R3.02 vegna sölu eignar þessarar, dags. 9. febrúar 1986, svo og sérstök greinargerð vegna sölunnar. Þar var frá því skýrt, að fasteignin S-gata, Reykjavík, hefði um margra ára skeið verið eign erfingja A., B. og C. allt til þess að húsið hefði verið gefið Reykjavikurborg árið 1983 og flutt í Árbæjarsafn sama ár. Hefðu eigendur viljað stuðla að varðveislu hússins, en það hefði verið reist um miðja síðustu öld. í greinargerðinni var svofelld grein gerð fyrir uppgjörsaðferð og útreikningi söluhagnaðar vegna sölu þessarar:

„Fasteignarmat hússins í árslok 1979 var kr. 11.275.000. Framreiknað með verðbreytingarstuðli Ríkisskattstjóra samsvarar þetta kr. 1.154.053. Lóðarmat lóðarinnar í árslok 1979 var kr. 48.107.000. Framreiknað með sama verðbreytingarstuðli er verðmæti lóðarinnar á söludegi kr. 4.923.991. Samtals nemur því verðmæti húss og lóðar kr. 6.078.044.

Þess er hér með óskað, að við skattlagningu 1985 verði tekið tillit til þess, að húsið stóð til skamms tíma á lóðinni og að hugsanlegur hagnaður af sölunni teljist ekki skattskyldur er fasteignamati þess nemur, enda litið svo á, að um sölu á húsinu hafi verið að ræða, og að eigendum verði ekki hegnt fyrir að gefa Reykjavíkurborg þessi menningarverðmæti.

Á meðfylgjandi skattframtali er hlutdeild undirritaðs reiknuð út frá eftirfarandi:

Söluverð 29/3 1985 Kr. 7.029.000
Sölulaun Kr. 105.000

Kr. 6.924.000

Fasteigna- og lóðarmat
framreiknað með
verðbreytingarstuðli
frá 1979 Kr. 6.078.044

Kr. 845.956“

Þá var gerð grein fyrir skiptingu framangreinds söluhagnaðar 845.956 kr. eftir eignarhlutföllum milli seljenda, þ.e. kæranda og sameigenda hennar. Hlutur kæranda í söluhagnaðinum nam 75.544 kr. Fjárhæð þessa færði kærandi sér til tekna í reit 76 í skattframtali sínu árið 1986.

II.

Næst gerðist það í málinu, að hinn 23. júlí 1986 tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hennar árið 1986, að tekjur hefðu verið hækkaðar um 103.057 kr. „sem er söluhagnaður af yðar hluta lóðar S-götu, Reykjavík, sem er skattskyldur samkvæmt ákvæðum 14. gr. laga nr. 75/1981,“ eins og segir í bréfinu. Með kæru, dags. 28. ágúst 1986, mótmælti kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 og boðaði jafnframt, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Með kæruúrskurði, dags. 28. október 1986, vísaði skattstjóri kærunni frá með því að boðaður rökstuðningur hefði ekki borist, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

III.

Með kæru, dags. 27. nóvember 1986, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og gerir þá kröfu, að fyrrnefnd tekjuhækkun skattstjóra 103.057 kr. verði felld niður og byggt verði á þeirri fjárhæð söluhagnaðar, sem tilfærð hafi verið í skattframtali, þ.e.a.s. 75.544 kr. Svofelld rök færir kærandi fyrir kröfu sinni: „Húsfriðunarnefnd Reykjavíkur lagðist gegn því að húsið yrði rifið. Tóku eigendur fasteignarinnar þá það ráð að bjóða Reykjavíkurborg húsið að gjöf. Borgin þáði gjöfina og var húsið flutt upp í Árbæ árið 1983. Lóðin var svo seld 29/3 1985. Fylgir skilagrein um söluna hér með. - Þar sem við gáfum húsið til þess að geta hagnýtt okkur lóðina að fullu höfum við dregið framreiknað fasteignamatsverð þess frá söluhagnaði okkar, enda fengum við enga greiðslu fyrir þann hluta eignarinnar.“ Þá fylgdi kærunni uppgjör og útreikningur söluhagnaðar, sbr. og fyrrnefnda greinargerð, er fylgdi skattframtalinu. Af hálfu kæranda er því og varpað fram, hvort hugsanlegt sé, að frádráttur skv. 9. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 119/1984, geti komið honum til góða í þessu máli, þar sem slíks frádráttar vegna starfsloka hafi hann á sínum tíma ekki notið.

IV.

Með bréfi, dags. 12. mars 1987, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin.“

V.

Kæran til ríkisskattanefndar, sem dagsett er hinn 27. nóvember 1986, er póststimpluð mánudaginn 1. desember 1986. Eftir atvikum þykir rétt að taka kæruna til efnismeðferðar. Er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hrundið, en efniskröfur hefur hann eigi gert í málinu. Svo sem rakið hefur verið gerði kærandi grein fyrir skattskyldum hagnaði af umræddri sölu í sérstöku fylgiskjali með skattframtali sínu og færði sér til tekna hlutdeild sína í hagnaði þessum. Skattstjóri hækkaði fjárhæð skattskylds söluhagnaðar með bréfi sínu, dags. 23. júlí 1986, og breytti skattframtalinu að þessu leyti. Með þessa breytingu fór skattstjóri eftir ákvæðum 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Telja verður að skattstjóra hafi borið að fara eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. nefndra laga við hina kærðu breytingu. í því sambandi þykir rétt að fram komi, að efni hefðu verið til þess að afla gagna hjá kæranda um þær ráðstafanir, sem í málinu greinir. M.a. verður eigi annað ráðið af fylgiskjali með skattframtalinu (kaup og sala eigna R3.02) en að greiðsla fyrir eignina sé „yfirtaka á hlutdeild í húsi er verið er að reisa á lóðinni“, eins og greinir í skjali þessu. Atriði, er mikilvæg kunna að reynast, eru því eigi upplýst. Svo sem málsmeðferð skattstjóra hefur verið háttað og málið liggur fyrir þykir því eigi verða komist hjá því að ómerkja hina kærðu breytingu. Að svo stöddu verður því eigi tekin efnisafstaða til krafna kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja