Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 338/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 61. gr.  

Málari — Verktaki — Tekjuuppgjör — Tekjutímabil — Tekjuuppgjör rekstrar — Tekjuuppgjörsaðferð

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1986. Er kæruefnið sú ákvörðun skattstjóra að heimila ekki kæranda að miða tekjufærslu sína við innborganir samkvæmt ákvæðum 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Taldi skattstjóri að kærandi, sem er málaraverktaki, að starfsemi hans væri þess eðlis að honum væri óheimilt að nota ákvæði nefndrar lagagreinar við tekjuframtal sitt. Þá væri hlutdeild vinnuþáttar í seldri þjónustu kæranda undir 70%. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurði skattstjóra verði hnekkt. Er mótmælt „þeirri staðhæfingu skattstjórans að túlka beri ákvæði 61. gr. skattalaganna þannig að kostnaðarverð vinnuliðar og þau gjöld sem honum tengjast séu hafðir til viðmiðunar, en ekki útsöluverð... “. Þá er þeirri skoðun skattstjóra mótmælt að starfsemi kæranda geti ekki fallið undir hugtakið „þjónusta“ í skilningi umræddrar lagagreinar.

Með bréfi dags. 12. mars 1987 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Gerð er krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra að niðurstöðu til. Ekki verður séð að 61. gr. laga nr. 75/1981 sé ætlað að taka til þess rekstrar sem hér um ræðir, hvorki er varðar eðli hans né umfang.“

Á það þykir bera að fallast með skattstjóra og ríkisskattstjóra að starfsemi kæranda sé eigi þess eðlis að honum sé heimilt að nota 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, við tekjuframtal sitt. Er því kröfu kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja