Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 474/1987

Gjaldár 1981—1984

Lög nr. 75/1981 — 53. gr. 2. og 3. mgr.   Lög nr. 32/1978  

Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Hlutafélag — Lánveiting — Lán hlutafélags veitt framkvæmdastjóra þess — Eignir við útreikning verðbreytingarfærslu — Sönnun — Vanreifun — Frávísun — Endurákvörðun skattstjóra

Kærð er endurákvörðun ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum kæranda, sem er hlutafélag, gjaldárin 1981, 1982, 1983 og 1984. Er kröfugerð umboðsmanns kæranda fyrir ríkisskattanefnd svohljóðandi:

„Kærður er úrskurður ríkisskattstjóra frá 18. júlí sl. með vísan til úrskurðar frá 23. maí sl. Ríkisskattstjóri endurákvarðar umbjóðanda mínum gjöld vegna gjaldáranna 1981,2,3 og 4 á þeirri forsendu að lán til framkvæmdastjóra félagsins sé ekki eign skv. 3. mgr. sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt, og geti þar af leiðandi ekki myndað stofn til verðbreytingarfærslu skv. þeirri grein. Rökstuðningur ríkisskattstjóra byggist á því að um „fjármunatilfærslu" sé að ræða sem brjóti í bága við lög nr. 32/1978 um hlutafélög. Virðist ríkisskattstjóri eiga við að ekki muni koma til endurgreiðslu lánsins og þar með geti það ekki lengur talist peningaleg eign hjá umbjóðanda mínum. Þessar hugmyndir ríkisskattstjóra eiga ekki við nein rök að styðjast. Það er óumdeilt að framkvæmdastjóri félagsins hefur fengið lánað fé hjá umbjóðanda mínum og kemur til með að endurgreiða það lán þó ekki hafi verið gerðir skriflegir samningar um endurgreiðslu. Þegar lánið var veitt framkvæmdastjóra félagsins var umsamið að líta svo á að um fyrirframgreiðslu launa væri að ræða og endurgreiðsla byggðist á vinnuframlagi framkvæmdastjóra félagsins.

Af framansögðu má ljóst vera að hér er ekki um að ræða fjármuna tilfærslu eins og ríkisskattstjóri vill halda fram, heldur um lán til framkvæmdastjóra félagsins sem verður endurgreitt. Í 3. magr. (sic) 53. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt segir að „Til eigna skattaðila við útreikning skv. 2. mgr. teljast allar óverðtryggðar eignir, o.s.frv.“. Það er því alveg ljóst að umrætt lán til framkvæmdastjóra félagsins er stofn til verðbreytingarfærslu hjá félaginu.

Það er krafa umbjóðanda míns að úrskurður ríkisskattstjóra verði úr gildi felldur og álagning viðkomandi ára standi óbreytt.“

Með bréfi dags. 10. október 1986 krefst ríkisskattstjóri staðfestingar hins kærða úrskurðar með vísan til forsendna hans.

Lánveiting sú sem um getur í máli þessu þykir með þeim ólíkindum að krefjast verður þess að kærandi geri rækilegri grein fyrir kröfu sinni en hann hefur gert. Verður máli þessu því vísað frá vegna vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja