Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 511/1987

Gjaldárið 1986

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 5. tl. — 84. gr.  

Dánarbú — Sjálfstæður skattaðili — Eignarskattsstofn — Eignarskattsreikningur

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1986. Er kæran af hálfu gjaldanda, sem er dánarbú, svohljóðandi:

„Með kæru dags. 30.12.1986 var álagning eignarskatts og eignarskattsauka kærð til ríkisskattanefndar. Með úrskurði nr. 4/1987 var kærunni vísað til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi úrskurður var kveðinn upp þ. 23. febr. og segir í úrskurði að innsent framtal sé lagt til grundvallar.

Jafnframt segir í úrskurðinum að eignarskattsstofn og eignarskattsauki sé kr. 1.055.500. Skatturinn er skv. því kr. 10.027 (0,95%) og kr. 2.639 (0,25%).

Skv. ákvörðun skattyfirvalda var eignarskattsstofn 1986 kr. 1.248.000 og eignarskattsauki 0,25% af eign umfram kr. 2.176.000 og 67 ára og eldri undanskildir eignarskattsauka. Verður því ekki betur séð að úrskurður skattstjóra sé alrangur, því eign samkvæmt framtali er minni en eignarskattsstofn, hvað þá að lagður sé á eignarskattsauki, sem á aðeins að leggjast á eign umfram kr. 2.176.000 svo og það, að framteljandi var fæddur árið 1900. Með vísan til framanritaðs er úrskurður skattstjóra frá 23. f.m. því kærður og gerð sú krafa að álagður eignarskattur og eignarskattsauki verði felldur niður.“ Með bréfi dags. 30. maí 1987 gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Um er að ræða skattlagningu á dánarbúi en þau teljast til skattskyldra lögaðila skv. 5. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75 1981 og skattleggjast sem slíkir.Gerð er því krafa um að hin kærða álagning standi óbreytt.“

Með vísan til þess sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, sbr. og 84. gr. nefndra laga, er eigi fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja