Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 629/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 3. tl. — 30. gr. 3. mgr.  

Ritstörf — Ritlaun — Frádráttarbær kostnaður — Vanreifun — Frávísun

Málavextir eru þeir, að skattstjóri gerði m.a. þá breytingu á skattframtali kæranda 1986 að fella niður sem frádráttarlið á rekstrarreikningi, sem fylgdi framtalinu, kr. 56.598. Hafði kærandi fært fjárhæð þessa til frádráttar tekjum af ritstörfum og var um að ræða annars vegar 75% rekstrarkostnaðar af húseign á Akureyri og hins vegar 50% af ferða- og dvalarkostnaði vegna ferðar kæranda til útlanda. Að mati skattstjóra taldist kostnaður þessi ekki beinn kostnaður við öflun tekna af ritstörfum. Þá væru tilgreindir gjaldaliðir ekki nauðsynleg forsenda fyrir öflun teknanna og hefðu fallið til, þó þeirra hefði ekki verið aflað og heimiluðust því ekki til frádráttar tekjum af ritstörfum. Þá færði skattstjóri tekjur af ritstörfum kr. 77.990 í reit T-6 á skattframtali, þar eð umræddar tekjur féllu undir ákvæði 3. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 19. janúar 1987, sagði umboðsmaður kæranda m.a.:

„Skattstjóri telur, að greindur kostnaður sé ekki beinn kostnaður við öflun tekna af ritstörfum. Því viljum við mótmæla. Við teljum að vísu líklegt, að greindur kostnaður hefði fallið til, þótt L. hefði ekki stundað ritstörf. Það liggur hinsvegar ekkert fyrir um, að L. hefði stundað ritstörf eða haft af þeim tekjur, ef ekki hefði verið lagt í hinn umdeilda kostnað. Framteljandi lætur þess getið í framtali og leggur þar við drengskap sinn, að hin tekjuaflandi ritverk hafi orðið til á Akureyri og Kanaríeyjum. Hefur skattstjóri ekki hrundið því með neinum rökum.“

Af hálfu ríkisskattstjóra var með bréfi, dags. 23. september 1987, gerð sú krafa, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á, að honum beri hinir umkröfðu kostnaðarliðir til frádráttar þeim tekjum sem í málinu greinir, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er tæki til hugsanlegs kostnaðar kæranda á móti þessum tekjum, en annan kostnað en umrædda liði hefur kærandi ekki fært á móti tekjunum. Að svo vöxnu þykir rétt að vísa kærunni frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja