Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 706/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 - 91. gr. — 93. gr. — 95. gr. — 96. gr. — 99. gr. — 106. gr.  

Framtalsfrestur — Viðbótarframtalsfrestur — Frestveiting skattstjóra — Framtalsskil — Breytingarheimild skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Álag

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1986 og er kæra umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar svohljóðandi:

„Málavextir eru þeir að Félag löggiltra endurskoðenda sendir félagsmönnum tilkynningu, dags. 15. maí 1986, um að samkomulag hafi verið gert við skattstjóra allra skattumdæma um að einstaklingar, sem stunda atvinnurekstur, verði ekki beittir viðurlögum verði framtölum skilað á ákveðnum dögum í júní 1986. Í Reykjavík var dagsetningin 5. júní. Almennt var talið að þetta samkomulag jafngilti viðbótarframtalsfresti og sú aðferð sem höfð var við frestveitinguna, þ.e.a.s. að senda R.O. lista um frestþurfi, styður það álit. Framtal ofanritaðs var sent skattstofu Reykjavíkur í þessum fresti og er stimplað móttökustimpli skattstofunnar 5. júní 1986.

Við skattálagningu fær S. tilkynningu á álagningarseðli sínum, að skattframtal hennar hafi ekki borist skattstjóra í framtalsfresti og byggist álagningin því á áætlun skattstjóra á gjaldstofnum ásamt 25% álagi, samkvæmt skattalögum.

Þessari málsmeðferð var mótmælt, með skattkæru dags. 26. ágúst 1986 og þess krafist að skattframtal verði lagt til grundvallar endurálagningu.

Úrskurður skattstjóra er, eins og að framan segir, dagsettur 13. apríl 1987, u.þ.b. 8 mánuðum eftir lok kærufrests. í staflið 1. segir: „Skattframtal dags. 9. júní 1986 móttekið á skattstofu 5. júní 1986 er tekið sem kæra skv. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981.“ Í forsendum úrskurðar eru síðan talinn upp hluti af þeim annmörkum sem skattstjóri álítur að séu á framtalinu. Niðurstaða úrskurðarins er þessi:

„Innsent skattframtal kæranda sem barst skattstjóra 5. júní 1986 er með tilvísun til framanritaðs ekki í samræmi við 91. gr. laga nr. 75/1981, auk þess að vera í þeim mæli ótraust og ófullnægjandi heimild um atvinnurekstur kærenda, tekjur og eignir og önnur atriði, að því verður ekki byggð rétt álagning gjalda og er því hafnað.

Ekkí er fallist á niðurfellingu 25% álags á áætlaða gjaldstofna, þar eð ekki verður talið að ákvæði 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 um niðurfellingu álags, geti eðli máls samkvæmt átt við álag sem beitt er á áætlaða gjaldstofna skv. 1. ml. 1. mgr. greinarinnar, vegna þess að fullnægjandi skattframtal hefur ekki verið lagt fram.

Áætlaðir gjaldstofnar og álag á þá standi óbreytt.“

Þessum úrskurði mótmæli ég, með eftirfarandi rökum:

Framtal barst skattstofu innan tilskilins frests og er því rangt að leggja á skv. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981.

Sé álagning aftur á móti byggð á þeirri grein er ekki heimilt að beita 25% álagi skv. 1. ml. 1. mgr. 106. gr. nefndra laga.

Skv. 2. ml. úrskurðar skattstjóra er skattframtali hafnað vegna annmarka, sem forsendur úrskurðarins eru reyndar allar byggðar á, eins og álagningin sé byggð á 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981. Samt er framteljanda ekki gefinn kostur á að skýra meint vafaatriði, eða henni tilkynntar breytingar.

2. mgr. úrskurðar skattstjórans virðist mér einnig benda til þess að vafamál sé hvort lagt er á skv. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, sbr. niðurlagsorð hennar, „vegna þess að fullnægjandi skattframtal hefur ekki verið lagt fram.“

Með tilliti til ofanritaðs lít ég svo á að álagning hafi verið ranglega framkvæmd og framteljandi sviptur lögmæltum rétti til skýringa. Því krefst ég þess að úrskurði skattstjóra verði hnekkt og endurálagning byggð á skattframtali óbreyttu.“

Með bréfi dags. 12. október 1987 gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Því er haldið fram af hálfu umboðsmanns kæranda að skattframtali 1986 hafi verið skilað innan framlengds framtalsfrests sem var 5. júní 1986. Skattstjóri telur hins vegar að svo hafi ekki verið og fékk framtalið meðferð sem kæra skv. 99. gr. laga 75/1981. Ekki verður með óyggjandi hætti séð hvort framtalinu hafi verið veitt móttaka á Skattstofu Reykjavíkur þann 5. eða 10. júní, báðar stimplanir bera með sér þær dagsetningar. Vegna þess vafa verður að líta framhjá greindri móttökustimplun og miða við dagsetningu framtals eins og umboðsmaður (bróðir) kæranda skráði hana eigin hendi þegar hann fyrir hönd kæranda undirritaði skattframtal hans, en það er dags. 6/9/86 og má skilja þessa skráningu tvennum skilningi, þ.e. að átt sé við 6. sept. 1986 eða 9. júní 1986. Allt að einu er sýnt að leggja verður aðra dagsetninguna til grundvallar. Verður að telja að lögfull sönnun sé fram komin á því að framtal kæranda hafi borist of seint, þ.e. jafnvel eftir hinn framlengda frest sem ómótmælt er að skattstjóri hafi veitt einstaka framteljendum. Ríkisskattstjóri lítur svo á að skattstjóra hafi verið rétt að taka innsent framtal sem kæru skv. 99. gr. nefndra laga. Þegar af þeirri ástæðu er þess krafist að kröfum umboðsmanns kæranda verði hafnað og ítrekuð krafan um staðfestingu á úrskurði skattstjóra.

Þar sem umboðsmaður kæranda svarar í engu athugasemdum og ábendingum skattstjóra í hinum kærða úrskurði, er litið svo á að þeim sé ómótmælt. Því er þess krafist til vara, komist ríkisskattanefnd að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð skattstjóra hafi verið áfátt þrátt fyrir ofangreind rök, að hafnað verði þeirri kröfu umboðsmanns kæranda að framtal kæranda verði lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda 1986.“

Ómótmælt er að fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 hafi skattstjóri veitt kæranda viðbótarfrest til framtalsskila og sá frestur hafi verið veittur til 5. júní 1986. Í hinum kærða úrskurði er á því byggt að skattframtal kæranda árið 1986 hafi borist skattstjóra þann 5. júní 1986. Svo sem hér stendur á þykir verða við það að miða að skattframtalið hafi borist skattstjóra í veittum viðbótarframtalsfresti nefnt ár. Bar skattstjóra því að skora á kæranda að bæta úr þeim annmörkum sem skattstjóri taldi vera á framtalinu áður en hann hafnaði því og áætla síðan kæranda skattstofna til álagningar gjalda yrði hann ekki við þeirri áskorun, sbr. 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Eigi gætti skattstjóri þessara reglna. Af þeim ástæðum verður að fallast á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja