Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 813/1987

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 —106. gr. 2. mgr. og 3. mgr.  

Vantaldar tekjur — Vanframtalinn skattstofn — Álag — Álag á vantalinn skattstofn — Útreikningur álags

Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að bæta 25% álagi á vantalinn skattstofn vegna vanframtalinna launatekna frá M. að fjárhæð 161.920 kr., sbr. heimildarákvæði 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu umboðsmanns kæranda er þess krafist í kæru til ríkisskattanefndar, dags 6. maí 1987, að álagið verði niður fellt. í bréfi til skattstjóra, dags. 3. desember 1986, kemur fram af hálfu kæranda, að gleymsku hans sé um að kenna, að umræddar tekjur hefðu ekki verið taldar fram. Launagreiðandi hefði ekki sent launamiða. Þá er þar bent á, að fyrirsjáanlegt hefði verið við framtalsgerðina, að hann fengi engan tekjuskatt. Umræddar launatekjur hefðu því skattlagst í lægsta skattþrepi og væntanlega aðeins að hluta.

Með bréfi, dags. 18. nóvember 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að virtum málsatvikum þykja fyrirliggjandi skýringar kæranda eigi geta gefið tilefni til niðurfellingar álags skv. heimildarákvæðum 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er kæruúrskurður skattstjóra því staðfestur. Tekið skal fram, að krafa kæranda um að gjöld skuli ekki reiknast af tekjuviðbótinni að fullu, þar sem skattafsláttur hefði ekki verið nýttur til fulls, á eigi við rök að styðjast, enda veldur hið kærða álag hækkun skattstofna sem slíkra þ.m.t. tekjuskattsstofns.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja