Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 848/1987

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 106. gr.  

Álag — Vanframtalinn skattstofn — Offærður frádráttarliður

Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að bæta 25% álagi á vantalda skattstofna vegna niðurfellingar á frádrætti á móti fatapeningum, sbr. endurákvörðun skattstjóra, dags. 5. mars 1986, á áður álögðum opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1986 og kæruúrskurð skattstjóra, dags. 7. apríl 1987.

Með kæru til ríkisskattanefndar, dags. 6. maí 1987, sbr. bréf, dags. 15. maí 1987, er þess farið á leit, að fyrrnefnt álag verði fellt niður á þeim forsendum, að greint hafi verið frá umræddum frádrætti í skattframtali og að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við frádráttarliðinn fyrir álagningu.

Með bréfi, dags. 18. nóvember 1987, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Ágreiningslaust er, að umræddur liður sé ófrádráttarbær. Að virtum málavöxtum, m.a. því að slíkur frádráttur, sem hér um ræðir, hafði verið felldur niður af skattstjóra fyrir frumálagningu gjaldárið 1985, þykja eigi framkomin næg efni til niðurfellingar hins kærða álags. Er kæruúrskurður skattstjóra því staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja