Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 74/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 73/1980 — 38. gr. c. og d. liðir — 40. gr. — 41. gr.  

Aðstöðugjald — Iðnaður — Verktakastarfsemi — Aðstöðugjaldsstig — Aðstöðugjaldstilkynning — Atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands

Kærð er álagning aðstöðugjalds til S-hrepps, gjaldárið 1986. Er kæra umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar svohljóðandi:

„Skattstjóri austurlandsumdæmis hefur í bréfi sínu dags. 19. mars s.l. úrskurðað að atvinnugrein nr. 410 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands þ.e. „Bygging og viðgerð mannvirkja, sem atvinnurekstur aðila“ falli ekki undir C-lið 38. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Forsendur eru þær, að verktakastarfsemi er ekki sérstaklega tilgreind í álagningarflokk og fellur því í 1.3% gjaldstig.

Þessum úrskurði er mótmælt þar sem forsendur eru rangar. Engu máli skiptir hvort rekstraraðili kallar sig verktaka eða ekki, því sjálf atvinnugreinin sem hann stundar fellur undir iðnað og á því hámark gjaldstigs að vera 1.0%. Það er augljóst að verktakastarfsemi er ekki til sem sérstök atvinnugrein og því ekki skráð í atvinnuvegaflokkun Hagstofunnar.

Það er því krafa umbjóðanda míns að þér fallist á að lækka gjaldstig aðstöðugjaldsins úr 1.3% í 1.0%, sem gildir um starfsemi umbjóðanda míns.“

Með bréfi, dags. 25. nóvember 1987, krefst ríkisskattstjóri þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Í gjaldskrárstiga S-hrepps vegna álagningar aðstöðugjalds gjaldárið 1986 er svofelld skipting:

0,33% Rekstur fiskiskipa.

0,65% Fiskvinnsla.

1,00% Iðnrekstur og allur annar gjaldskyldur atvinnurekstur, ótalinn annars staðar. 1,30% Landbúnaður.

Samkvæmt gjaldskrárstiga þessum er aðstöðugjaldsstig 1% af rekstri kæranda í nefndu sveitarfélagi á rekstrarárinu 1985. Er þegar af þessari ástæðu fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja