Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 144/1988

Gjaldár 1987

Tekjuuppgjör — Tekjuuppgjörsaðferð — Þjónusta — Vinnuþáttur — Trésmíði — Trésmiður — Frávísun — Kærufrestur — Kæra síðbúin

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 28. júlí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda um hækkun hreinna tekna af atvinnurekstri úr 118.715 kr. í 274.872 kr. á þeim grundvelli, að hann uppfyllti ekki skilyrði 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, varðandi tekjuuppgjör. Kærandi hafði með höndum sjálfstæða starfsemi við trésmíðar.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessi breyting kærð með kæru, dags. 8. september 1987. Umboðsmaðurinn gat þess, að sökum sumarleyfis hans og síðan kæranda hefði ekki tekist að kæra innan tilskilins kærufrests. Um efnisatriði málsins sagði svo í kærunni:

„Kærð er ákvörðun skattstjóra um tekjufærslu viðskiptakrafna á skattframtali 1987. Orðalag 61. gr. laga nr. 75/1981 er á þarm veg, að ætla má að heimild til að miða tekjuuppgjör við innborganir í stað unnar og bókfærðrar þjónustu nái til heillar stéttar í stað einstaklinga innan stéttarinnar eða því valdi löggjafinn orðalagið „almennt yfir 70%“.

Skjólstæðingur minn er trésmiður og ég hygg að vinnuþáttur seldrar þjónustu hjá þeirri stétt manna sé almennt yfir 70% af seldri þjónustu.

Krafa mín er því að viðskiptakröfur í árslok 1986 kr. 156.157,- séu ekki tekjufærðar á skattframtali 1987.“

Með kæruúrskurði, dags. 23. október 1987, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni. Kærufrestur hefði runnið út laugardaginn 29. ágúst 1987, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og auglýsingu skattstjóra um lok álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1987, er birst hefði í Lögbirtingablaði 31. júlí 1987.

Frávísunarúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. nóvember 1987, og er þess krafist, að kæran frá 8. september 1987 hljóti efnismeðferð.

Með bréfi, dags. 9. febrúar 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Eftir atvikum þykir mega taka kæruna til efnismeðferðar. Eigi þykir hafa verið sýnt fram á það af hálfu kæranda, að starfsemi hans sé slík, að honum sé heimilt að nota ákvæði 1. ml. 61. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, við tekjuframtal sitt. Er kröfum kæranda því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja