Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 364/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 — 90. gr. 4. mgr.   Lög nr. 73/1980 — 22. gr. 2. mgr. — 24. gr. — 33. gr.  

Lögheimili — Heimilisfesti — Skattlagningarstaður — Skattlagningarstaður útsvars — Hagstofa Íslands — Kæruheimild sveitarfélags — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Lögheimilissveitarfélag — Þjóðskrá — Íbúaskrá — Andmælareglan — Málsmeðferð áfátt

Málavextir eru þeir, að í bréfi oddvita X-hrepps, dags. 6. maí 1987, til skattstjóra kvaðst oddviti vilja upplýsa það að gefnu tilefni, að S. og kona hans, H. hefðu átt lögheimili í X-hreppi frá 1982 þar til Hagstofa Íslands hefði úrskurðað um lögheimilisflutning þeirra til A. með bréfi, dags. 8. september 1986, að undangengnum ítrekuðum kærum bæjarstjórnar A., sem hreppsnefnd X-hrepps hefði jafnan mótmælt. Nefndur S. ætti hluta af jörðinni K. og hefði þar heimili og aðstöðu. Hann hefði í fjölda ára haft fast starf í X-hreppi og haft þar allar sínar tekjur. Þá hefði H. einnig haft fast starf í hreppnum um árabil. Með því að S. hefði átt lögheimili í X-hreppi 1. desember 1985 hefði skattstjóri lagt á hann útsvar í hreppnum gjaldárið 1986 vegna útsvarsskyldra tekna tekjuárið 1985, sem rétt væri og skylt skv. IV. kafla laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Kvaðst oddviti votta og staðfesta, að S. hefði greitt útsvar sitt að fullu til hreppsins, áður en Hagstofa Íslands gaf út úrskurð um lögheimilisflutning þeirra hjóna hinn 8. september 1986. A. hefði ekki gert kröfu í útsvar S. frá fyrra ári, enda yrði ekki af hálfu X-hrepps fallist á réttmæti slíkrar kröfu, ef fram kæmi. Þá vék oddviti að þýðingu íbúafjölda skv. íbúaskrá 1. desember næst á undan gjaldári varðandi útgjöld og tekjur hreppsins. Einnig tók oddviti fram, að bæði S. og H. hefðu verið á kjörskrá í X-hreppi við sveitarstjórnarkosningarnar 1986 svo sem ljósrit úr kjörskrá, sem bréfinu fylgdi, bæri með sér. Engin kjörskrárkæra hefði komið þeirra vegna frá A. og engar athugasemdir.

Skattstjóri tók ofangreint bréf oddvita sem kæru og kvað upp kæruúrskurð hinn 19. maí 1987. Tekur skattstjóri fram, að ekki verði glögg kröfugerð ráðin af kærunni. Þó mætti af henni ráða, að mótmælt væri ákvörðun skattstjóra, sbr. úrskurð hans, dags. 14. apríl 1987, um niðurfellingu gjalda nefndra hjóna, S. og H. Rökstuðningur oddvita lyti að lögheimili þessara gjaldenda. Umfjöllun um það væri utan valdsviðs skattstjóra. Með vísan til þess væri kærunni vísað frá.

Með kæru, dags. 13. júní 1987, hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar af hálfu X-hrepps. Af hálfu oddvita kemur fram í kærunni, að fyrrgreindur S., hafi leitað til hans vegna máls þessa og hafi hann því sem oddviti neytt kæruréttar til skattstjóra. Er þess krafist, að útsvarsálagning á S. og H. gjaldárið 1986 standi óhögguð, þ.e. upphafleg álagning til X-hrepps.

Með bréfi, dags. 25. nóvember 1987, krefst ríkisskattstjóri þess f.h. gjaldkrefjenda, að kæruúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Í máli þessu er ágreiningur um það, hvort útsvör S. og H. gjaldárið 1986 skuli greidd til X-hrepps eða A., en út af þessu álitaefni hefur X-hreppur neytt kæruréttar síns samkvæmt 33. gr., sbr. 24. gr., laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1986 byggði skattstjóri á því, að nefndir gjaldendur væru útsvarsskyldir í X-hreppi, enda lá þá fyrir, að lögheimili þeirra 1. desember 1985 var þar í hreppnum, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Í bréfi sínu, dags. 14. nóvember 1986, til kærenda boðaði skattstjóri m.a. breytingu þá á skattlagningarstað útsvars, sem hann framkvæmdi með endurákvörðun sinni, dags. 14. apríl 1987, á áður álögðum opinberum gjöldum kærenda gjaldárið 1986 ásamt þar greindum skatthækkunum vegna breytinga á skattstofnum. Breytingu sína á skattlagningarstað útsvars styður skattstjóri við tilkynningu Þjóðskrár um breytingu á íbúaskrá X-hrepps 1. desember 1985, þar sem lögheimili umræddra gjaldenda sé flutt úr hreppnum út á A. Í málinu liggja fyrir gögn Þjóðskrár Hagstofu Íslands um þetta, dags. 8. september 1986. Skattstjóri hefur álitið, sbr. hinn kærða úrskurð, að málatilbúnaður kæranda, oddvita X-hrepps, lyti að lögheimilisákvörðun gjaldenda og hefur vísað kæru hans frá á þeim grundvelli. Þetta fær eigi staðist, enda byggir oddviti á því að skráð lögheimili gjaldenda þessara 1. desember 1985 hafi verið í X-hreppi. Skattstjóra bar að afla sjónarmiða kæranda og A. áður en hann haggaði fyrri ákvörðun og taka málið að því búnu til efnislegrar úrlausnar eða vísa því til úrskurðar ríkisskattstjóra teldi hann þann vafa vera fyrir hendi, sem um ræðir í 4. mgr. 90. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 24. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Svo sem málsmeðferð skattstjóra hefur verið háttað og mál þetta liggur fyrir þykir bera að ómerkja hina kærðu breytingu skattstjóra á skattlagningarstað útsvarsskyldra tekna.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja