Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 9/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. og C-liður 9. tl. — 16. gr. 1., 2., 3. og 7. mgr. — 28. gr. 4. tl.  

Eignaauki — Eigin vinna — Eignaauki vegna eigin vinnu við íbúðarhúsnæði — Skattskyld eigin vinna við íbúðarhúsnæði — Eigin vinna við íbúðarhúsnæði — Skattfrjáls eignaauki — Eignaauki, skattfrjáls — Skattfrelsi — Skattskyldar tekjur — Launatekjur — Reiknað endurgjald — Söluhagnaður — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður ófyrnanlegrar fasteignar — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Söluhagnaður, frestun skattlagningar — Frestun skattlagningar söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði — Útreikningur söluhagnaðar — Söluhagnaður, útreikningur — Stofnverð — Stofnverð íbúðarhúsnæðis — Húsbyggingarskýrsla — Sönnun — Vanreifun — Frávísun — Frávísun vegna vanreifunar — Teknategund — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði færður til lækkunar stofnverðs annars íbúðarhúsnæðis

Málavextir eru þeir, að kærendur töldu ekki fram innan tilskilins framtalsfrests árið 1988 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988.

Af hálfu kærenda var álagningin kærð með kæru, dags. 16. ágúst 1988. Kom fram, að dráttur á framtalsskilum stafaði m.a. af veikindum kæranda, en skattframtal yrði sent innan tíðar. Með bréfi, dags. 26. september 1988, sendu kærendur skattstjóra skattframtal sitt árið 1988. Bárust gögn þessi 5. október 1988.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 31. október 1988, og féllst á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1988 með breytingum varðandi skattlagningu eigin vinnu við húsbyggingu og varðandi meðferð söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði. Um þessar breytingar snýst ágreiningurinn í máli þessu svo sem hér segir:

1. Eigin vinna. Kærandi, A, hafði með höndum byggingu íbúðarhúsnæðis að X, Reykjavík, og fylgdi húsbyggingarskýrsla vegna framkvæmda þessara skattframtalinu. Þetta íbúðarhúsnæði seldi hann með kaupsamningi, dags. 31. ágúst 1987, sbr. greinargerðir um þá sölu á R3.02. Meðal kostnaðarliða við bygginguna var tilfærð „önnur vinna“ 398.800 kr. í A-lið húsbyggingarskýrslunnar. Var hér um að ræða vinnu kærenda við húsbygginguna, sbr. launamiða, 170.800 kr. af hálfu kæranda, A, og 228.000 kr. af hálfu kæranda, B. Þessar greiðslur tekjufærðu kærendur sem laun í tekjuhliðum skattframtalsins. Skattstjóri færði þessa liði 398.800 kr. til skattlagningar í reit 77 í skattframtalinu sem tekjur samkvæmt 9. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um þetta segir svo í kæruúrskurði skattstjóra:

„Eigin vinna við byggingu íbúðarhúsnæðis er aðeins skattskyld skv. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ef um er að ræða reiknað endurgjald vegna atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi, þ.e. að húsnæðið sé byggt í því skyni að selja það með hagnaði. Eigi verður af framtalsgögnum kærenda ráðið að íbúðarhúsnæði það sem þeir byggðu að X, Reykjavík, á árunum 1986 til 1988 hafi verið byggt í hagnaðarskyni. Eru innsendir launamiðar vegna verktakagreiðslna kærenda til sjálfra sín strikaðir út og eigin vinna að fjárhæð kr. 398.800,- færð í reit 77 á bls. 4 á framtali, aðrar C-tekjur, skv. 9. tl. C-liðar 7. gr. áðurgreindra laga. Ákvæði 2. gr. laga nr. 46/1987 um niðurfellingu tekjuskatts og útsvars af launum tekjuársins 1987 nær ekki til eigin vinnu við íbúðarhúsnæðið.“

Af hálfu umboðsmanns kærenda er þess krafist fyrir ríkisskattanefnd, sbr. kröfugerð í bréfi, dags. 30. janúar 1989, að vinnuframlag kærenda við byggingu íbúðarhúsnæðisins að X verði ekki skattlagt, enda framkvæmt við öflun eigin húsnæðis og bygging húsnæðisins ekki gerð í hagnaðarskyni. Kostnaðarhækkanir og breyttar forsendur hafi valdið því, að húseignin var seld síðla árs 1987. Við gerð skattframtals kvaðst umboðsmaður kærenda hafa leitað aðstoðar starfsmanna Skattstofu Reykjavíkur m.a. um það hvort og hvernig telja ætti slíkt vinnuframlag fram. Hefði honum verið tjáð, að vegna sölu byggingarinnar væri rétt að tilgreina þetta vinnuframlag sem laun til kærenda, enda kæmi það að jöfnu, þar sem tekjuskattur yrði ekki innheimtur vegna ársins 1987. Hins vegar hefði það síðan gerst, að vinnuframlagið væri hvorki talið sem launatekjur né nyti skattfrelsis sem eigin vinna við öflun íbúðarhúsnæðis heldur skattlagt.

2. Söluhagnaður. Svo sem fram hefur komið seldi kærandi, A, íbúðarhúsnæði að X, Reykjavík, með kaupsamningi, dags. 31. ágúst 1987. Var húseignin, sem er tvíbýlishús, seld í smíðum, miðað við fokheldisástand. Söluverð að frádregnum sölulaunum nam 6.958.000 kr. Greinargerðir um sölu þessa R3.02 fylgdu skattframtalinu. Ekki gerði kærandi grein fyrir útreikningi söluhagnaðar, en fór fram á, að álagningu skatts á söluhagnað yrði frestað til ársins 1989. Þá kemur fram, að kærandi keypti íbúðarhúsnæði að H, Reykjavík, með kaupsamningi, dags. 9. nóvember 1987, og nam kaupverðið 3.600.000 kr. Skattstjóri taldi söluhagnað af X nema 1.360.386 kr. Þann söluhagnað færði hann til lækkunar á stofnverði H. Segir svo um þetta í hinum kærða úrskurði:

„Samkvæmt framtalsgögnum kærenda fór sala íbúðarhúsnæðis þeirra að X, Reykjavík, fram á árinu 1987 og er því loku fyrir það skotið að unnt sé að fallast á beiðni kærenda um að fresta álagningu skatts á hagnað af þeirri sölu til ársins 1989. Taka ber fram að þar sem kærendur afhentu kaupendum húsnæðið í mars eða apríl 1988 en skiluðu skattframtali sínu ekki fyrr en í október 1988 höfðu þeir tækifæri til að koma að upplýsingum um vantalinn byggingarkostnað í árslok 1987. Eftir atvikum þykir rétt að færa þann söluhagnað sem ráða má af framtalsgögnum 1987 og 1988 eða kr. 1.360.386,- til lækkunar stofnverðs íbúðarhúsnæðis að H, Reykjavík, sem kærendur keyptu á árinu 1987 skv. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981.“

Kröfugerð kæranda fyrir ríkisskattanefnd er sú, að „söluhagnaður“ 1.360.386 kr. verði ekki færður til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis að H, Reykjavík, og jafnframt er því haldið fram, að um sölutap hafi verið að ræða. Segir svo í bréfi umboðsmanns kæranda um þetta:

„Að „söluhagnaður“ skv. úrskurði Skattstofu Reykjavíkur kr. 1.360.386,- vegna sölu byggingarinnar X verði ekki færður til lækkunar stofnkostnaði íbúðarinnar H, sem keypt var eftir sölu X.

Mér er óskiljanlegt hvernig unnt er að tala um vantalin byggingarkostnað í árslok 1987 og síðan útreikning söluhagnaðar. Fram kemur á skattframtali mínu að byggingu og afhendingu X er ekki lokið um áramót 1987, en húsinu átti ég að skila fokheldu. Því er furðulegt að í úrskurði Skattstofunnar er talað um söluhagnað af framkvæmd sem framtalið ber með sér að ekki er lokið við.

Allur kostnaður ársins 1987 var vandlega framtalinn, en engin tilraun gerð til að meta kostnað tilfallin næsta árs (1988) enda um framtal ársins 1987 að ræða. Vanefndir byggingarmanna orsökuðu verulegt tjón bæði með hækkun áætlaðs kostnaðar og lækkun söluverðs vegna sekta fyrir seina afhendingu, sem ekki fór fram fyrr en í lok apríl 1988.

Nú er unnið að gerð skattframtals ársins 1988. Við bráðabirgðauppgjör kemur í ljós að byggingarkostnaður þessa árs er nær kr. 1.900.000.-. Því er um verulegt tap að ræða, í stað söluhagnaðar. Fer ég því fram á að ákvörðun um áðurnefndan söluhagnað verði frestað þar til skattframtal vegna ársins 1988 hefur borist. Þar mun koma fram lokauppgjör vegna byggingar og sölu hússins X.“

Með bréfi, dags. 8. desember 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Um 1. tl. Ekki er ágreiningur um það, að umrædd íbúðarhúsbygging hefði verið til eigin afnota. Af hálfu kærenda er því haldið fram, að um hafi verið að ræða aukavinnu þeirra við byggingu íbúðarhúsnæðis til eigin afnota, er nauðir hafi rekið til þess að selja vegna mikils byggingarkostnaðar og breyttra forsendna. Þótt hin tilgreinda vinna kærenda þyki nokkuð í hærra lagi, þykir mega á það fallast, að virtum þeim upplýsingum, er framtalsgögn hafa að geyma og máli skipta í þessu sambandi, að hér sé um slíkan eignaauka að ræða, er eigi teljist til tekna samkvæmt 4. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er því fallist á kröfu kærenda um þetta kæruatriði. Af þessari niðurstöðu leiðir, að nefndur eignaauki telst eigi til stofnverðs hinnar seldu eignar við ákvörðun söluhagnaðar, sbr. 7. mgr. 16. gr. og niðurlagsákvæði nefnds 4. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981.

Um 2. tl. Kærandi keypti íbúðarhúsnæði að H, Reykjavík, 9. nóv. 1987, eins og fyrr segir. Hugsanlegan söluhagnað vegna húseignarinnar að X, Reykjavík, bar honum því að færa til lækkunar á stofnverði hins keypta húsnæðis, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981. Í málinu er ágreiningur um það, hvort yfirleitt hafi verið um nokkurn söluhagnað að ræða. Reyndar er því haldið fram af kæranda hálfu að um sölutap hafi verið að ræða vegna kostnaðar, sem á hafi fallið á árinu 1988. Ekki hefur þó af hans hálfu verið gerð grein fyrir þessum kostnaði í málinu. Skattstjóri byggði útreikning sinn á söluhagnaði á fyrirliggjandi gögnum þar á meðal húsbyggingarskýrslu pr. 31.12.1987 að meðtalinni fyrrnefndri eigin aukavinnu. Skv. upplýsingum skattstofu liggur skattframtal árið 1989 eigi fyrir. Því er hvorki þar né í kröfugerð kæranda í þessu máli að finna fullnægjandi upplýsingar um þann byggingarkostnað, sem vísað er til af hálfu kæranda. Að svo vöxnu þykir eigi hjá því komist að vísa þessu kæruatriði frá að svo stöddu vegna vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja