Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 462/1988

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 96. gr. — 99. gr. —103. gr. — 106. gr.  

Skattskyldar tekjur — Greiðsla ferðakostnaðar — Launatekjur — Álag vegna vantalins skattstofns — Málsmeðferð ríkisskattstjóra — Vanhæfi

Málavextir eru þeir, að hinn 6. október 1987, endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1984 vegna tekjufærslu á greiðslu frá X h.f. 20.984 kr. auk 25% álags skv. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um væri að ræða greiðslu ferðakostnaðar kæranda og eiginkonu hans til Luxemborgar á árinu 1983. Taldi ríkisskattstjóri greiðslu þessa skattskylda sem endurgjald í skilningi 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Vísaði ríkisskattstjóri til bréfs síns, dags. 11. ágúst 1987, og svarbréfs kæranda, dags. 6. september 1987.

Í kæru til ríkisskattstjóra, dags. 3. nóvember 1987, krafðist umboðsmaður kæranda þess aðallega, að umrædd greiðsla yrði ekki talin kæranda til tekna en til vara, að álagi yrði ekki beitt. Kom fram, að greiðslan væri endurgjald fyrir hluta af yfirvinnu og viðurkenning fyrir vel unnin störf í þágu vinnuveitanda. Var vísað til þess, að slíkar viðurkenningar tíðkuðust í einu eða öðru formi hjá fjölmörgum fyrirtækjum. Hjá nafngreindu flugfélagi tíðkaðist, að starfsfólk fengi farseðla og ýmiss hlunnindi vegna ferðalaga erlendis án þess að til skattlagningar hefði komið. Þá notuðu opinberir starfsmenn embættisferðir til þess að halda áfram í sumarleyfi sín. Slíkt væri aldrei skattlagt. Þá var gerð grein fyrir ferðinni af kæranda hálfu.

Með kæruúrskurði, dags. 9. nóvember 1987, hafnaði ríkisskattstjóri kröfum kæranda bæði aðalkröfu og varakröfu. Ekki yrði talið, að þau atriði, sem tilgreind væru af hálfu umboðsmanns kæranda gætu leitt til þess, að fallið yrði frá skattlagningu umræddrar greiðslu, enda þættu ótvíræð lagaákvæði ekki geta leitt til annarrar niðurstöðu en þeirrar að tekjufæra greiðsluna. Varðandi varakröfu kæranda um niðurfellingu álags þá tók ríkisskattstjóri fram, að til þess væri að líta, að kærandi hefði enga grein gert fyrir umræddri greiðslu í skattframtali sínu eða á hana minnst, fyrr en honum hefði verið gerð fyrirspurn varðandi hana í ágúst 1987. Þættu því ekki ástæður til þess að falla frá beitingu álags.

Með kæru, dags. 24. nóvember 1987, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra til ríkisskattanefndar. Gerir hann sömu kröfur og áður, aðallega um niðurfellingu fyrrnefndrar tekjufærslu en til vara, að álagi verði ekki beitt. Fundið er að því, að sami starfsmaður ríkisskattstjóra hafi endurákvarðað gjöld kæranda þann 6. október 1987 og tekið kæru kæranda til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 9. nóvember 1987. Vísað er til rökstuðnings í kæru til ríkisskattstjóra, dags. 3. nóvember 1987.

Með bréfi, dags. 27. júní 1988, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að kæruúrskurður hans verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eigi verður talið, að neinir þeir annmarkar bagi hinar kærðu breytingar ríkisskattstjóra, er valdið geti ómerkingu þeirra. Að því virtu og málavöxtum að öðru leyti þykir bera að staðfesta hinn kærða úrskurð ríkisskattstjóra með skírskotun til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja