Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 478/1988

Gjaldár 1986

Lög nr. 75/1981 —11. gr. — 13. gr. — 27. gr.  

Söluhagnaður fyrnanlegrar fasteignar — Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Atvinnuhúsnæði — Dreifing tekjufærslu skattskylds söluhagnaðar — Fresttími

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 23. mars 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda, að áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1986 hefðu verið endurákvörðuð vegna tekjufærslu hagnaðar af sölu fasteignarinnar X, sbr. bréf skattstjóra, dags. 13. febrúar 1987. Í síðastnefndu bréfi kom fram, að með kaupsamningi, dags. 26. júlí 1983, hefði kærandi selt eignarhlut sinn í fasteigninni X. Skv. ákvæðum 11. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hefði skattskyldur söluhagnaður á söludegi numið 1.278.057 kr. Kærandi hefði farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðarins í samræmi við ákvæði 13. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem kaup annarrar fasteignar væru ráðgerð. Skattlagningu hefði því verið frestað um tvenn áramót. Þar sem kaup á annarri fasteign, er heimilt væri að fyrna skv. 32. gr. laga nr. 75/1981, hefðu ekki átt sér stað fyrir árslok 1985 kæmi nefndur söluhagnaður til skattlagningar gjaldárið 1986 að viðbættu 10% álagi skv. 3. ml. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981. Þá bæri að framreikna fjárhæð söluhagnaðarins skv. 2. mgr. nefndrar lagagreinar. Hinn skattskyldi söluhagnaður næmi í árslok 1985 2.292.398 kr.

Með kæru, dags. 21. apríl 1987, fór umboðsmaður kæranda fram á, að hagnaði af sölu umræddrar fasteignar yrði dreift til skattlagningar á hámark þess árafjölda, sem heimilað væri í 27. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af söluandvirði eignarinnar hefði 81% verið greitt með skuldabréfum til 10 ára og væri skilyrði nefndrar lagagreinar því uppfyllt. Með kærunni fylgdi ljósrit kaupsamnings, dags. 26. júlí 1983. Með kæruúrskurði, dags. 6. október 1987, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda þegar af þeirri ástæðu, að kærandi hefði nýtt sér frestunarákvæði 13. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en skv. 3. mgr. 27. gr. sömu laga kæmi heimild þeirrar lagagreinar til dreifingar á söluhagnaði til skattlagningar í stað annarra heimilda laganna til frestunar á skattlagningu söluhagnaðar.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. nóvember 1987. Þar kemur fram, að vegna veikinda og skilnaðar hafi kærandi ekki fest kaup á annarri fasteign og ekkert stæði því í vegi að beita ákvæðum 27. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um dreifingu söluhagnaðar og endurreikna skatta kæranda til samræmi við það.

Með bréfi, dags. 27. maí 1988, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærandi hefur nýtt sér heimild 13. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til frestunar á skattlagningu skattskylds söluhagnaðar um tvenn áramót. Að því óbreyttu er honum eigi heimil umkrafin dreifing á hluta skattskylds söluhagnaðar til skattlagningar skv. 27. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Að þessu virtu og þar sem fjárhæð hins skattskylda söluhagnaðar er ágreiningslaus þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja