Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 481/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 38. gr. — 55. gr. — 55. gr. A — 100. gr. 2. mgr.  

Fjárfestingarsjóður — Álag á tekjufært fjárfestingarsjóðstillag — Fjárfestingarsjóðstillag — Ráðstöfun fjárfestingarsjóðstillags — Framreikningur fjárfestingarsjóðstillags — Fyrning á móti tekjufærslu fjárfestingarsjóðstillags — Fyrning, sérstök — Sérstök fyrning — Almenn fyrning — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Kæruheimild ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 28. júlí 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans árið 1987, að tekjur væru hækkaðar um 62.627 kr., er væri 10% álag á ráðstöfun fjárfestingarsjóðs umfram heimildir, sbr. 55. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Tillagið, er um væri að ræða, væri tillag frá tekjum ársins 1984 og bæri því að reikna álag fyrir tvö ár.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessari breytingu mótmælt í kæru, dags. 19. ágúst 1987 og til þess vísað, að samkvæmt framtali (Rl.03) væri búið að gera ráð fyrir umræddu atriði og það því tvítalið.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 12. október 1987, og hafnaði kröfu kæranda og hækkaði hið umdeilda álag í 147.558 kr. á svofelldum forsendum:

„Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. A laga nr. 75/1981, sbr. a-lið 12. gr. laga nr. 8/1984, skal telja þann hluta fjárfestingarsjóðs, sem ekki hefur verið notaður í samræmi við 55. gr. sömu laga, til tekna á ráðstöfunarári, að meðtöldum framreikningi skv. 26. gr. sbr. 3. mgr. 54. gr. laganna. Á þá fjárhæð skal bætt 10% álagi fyrir hvert ár frá og með næsta ári eftir að tillagið var dregið frá tekjum og til og með því ári sem fjárhæðin telst til skattskyldra tekna.

Af gögnum málsins er ljóst að sá hluti fjárfestingarsjóðs sem leystur hefur verið upp (kr. 1.137.664,-) eru tillög áranna 1983 og 1984. Þ.e. skv. framtali 1984 kr. 194.396,- og kr. 442.055,- skv. framtali 1985 framreiknað. Óheimil ráðstöfun er kr. 625.825,- sem er 55.01% heildarupplausnar fjárfestingarsjóðs. Þar sem frá frádrætti tillags 1983 til ráðstöfunar þess 1986 eru 3 ár ber að reikna 30% á þann hluta ráðstöfunar þess sem umfram er heimild, sbr. áður tilvitnuð ákvæði. Álag á þann hluta verður kr. 67.183,-, þ.e. 30% af 55,01% tillags og verðbreytingar, sem samtals eru 407.109,-. Á sama hátt ber að reikna 20% álag á þann hluta ráðstöfunar tillags ársins 1984, sem umfram er heimild, þ.e. kr. 80.375,- eða 20% af 55,01% tillags og verðbreytingar, sem samtals eru kr. 730.556,-. Álag samtals ætti því að vera kr. 147.558,-.

Til skattlagningar, eftir hina umþrættu breytingu skattstjóra, hafa einungis komið kr. 125.254,- í álag. Tekjur eiga því að hækka um kr. 22.304,-, og verður sú leiðrétting gerð nú.“

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 20. október 1987, mótmælir umboðsmaður kæranda þeirri hækkun, sem skattstjóri ákvarðaði í fyrrnefndum kæruúrskurði. Hann telur þá aðferð skattstjóra að reikna óheimila ráðstöfun fjárfestingarsjóðs hlutfallslega milli þeirra ára, sem fjárfestingarsjóður er leystur upp fyrir, ekki fá staðist. Álagi verði ekki beitt fyrir bæði árin þ.e. 1983 og 1984. Séu fjárfestingarsjóðir tveggja ára leystir upp í einu lagi, hljóti það að teljast rökrétt, að aukaafskrift gangi fyrst á móti eldri sjóðnum og síðan þeim yngri. Skv. þessu er þess krafist af hálfu kæranda, að ekkert álag verði reiknað vegna tillags tekjuársins 1983. Á fylgiskjali með kærunni hefur umboðsmaðurinn rökstutt kröfu sína tölulega, þ.e. álagið verði 125.255 kr. eins og skattstjóri ákvað upphaflega með bréfi sínu, dags. 28. júlí 1987.

Með bréfi, dags. 6. júní 1988, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af kröfugerð umboðsmanns kæranda er fallist á kröfu hans að öðru leyti en því að gerður er fyrirvari um þá aðferð kæranda varðandi fyrningu á kaupverði viðkomandi véla. Það er krafa ríkisskattstjóra að vélamar verði fyrst fyrndar almennri fyrningu skv. 38. gr. laga nr. 75/1981, áður en notuð er hin sérstaka fyrning skv. 1. tl. 1. mgr. 55. gr. laganna.“

Skattstjóri hefur byggt á fyrningarfærslum kæranda og enginn ágreiningur var um þær við meðferð málsins á skattstjórastigi. Kröfu ríkisskattstjóra um leiðréttingu á fyrningum þykir bera að vísa frá, enda liðinn sá frestur, er ríkisskattstjóri hefur til þess að neyta heimildar 2. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981. Fallist er á kröfu kæranda um ákvörðun álags þess, er um getur í 1. mgr. 55. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. a lið 12. gr. laga nr. 8/1984, um breyting á þeim lögum, og verður álagsfjárhæð 125.255 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja