Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 571/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl.  

Vaxtagjöld — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Íbúðareign — Íbúðarsala

Málavextir eru þeir, að kærendur seldu íbúð sína í Reykjavík árið 1985. Að lokinni álagningu opinberra gjalda 1987, sendu kærendur ríkisskattstjóra endurgert skattframtal 1987, mótt. af honum 21. október 1987. Var skattframtalið frábrugðið fyrra skattframtali sem sætt hafði álagningu af skattstjóra að því er varðaði skuldir og vaxtagjöld, en samkvæmt hinu endurgerða framtali námu vaxtagjöld til frádráttar tekjum 448.308 kr. Ríkisskattstjóri gat ekki fallist á að vaxtagjöldin væru frádráttarbær frá tekjum, sbr. Úrskurð hans í málinu, dags. 25. febrúar 1988. Þar sem kærendur hefðu ekki átt íbúð árið 1986 væru skilyrði vaxtafrádráttar ekki lengur fyrir hendi skv. 1. tl. E-liðs 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurði ríkisskattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til ríkisskattanefndar. Eru kröfur hans og röksemdir sem hér segir:

„Umbjóðendur okkar keyptu íbúð til eigin nota á árinu 1983 og voru íbúðarkaupin að verulegu leyti fjármögnuð með lánum. Lentu þeir í verulegum greiðsluerfiðleikum sem að lokum leiddi til þess að íbúð þeirra var seld á árinu 1985. Á söluári fengu umbjóðendur okkar greiddar kr. 500.000 og eftirstöðvar kr. 997.913 voru greiddar á árinu 1986. Í skattframtali 1986 kemur fram að eftirstöðvar lána sem tekin voru til öflunar íbúðarhúsnæðis og kaupandi yfirtók ekki við sölu íbúðarinnar voru kr. 1.177.682 í árslok 1985, þessi lán greiddu umbjóðendur okkar niður á árinu 1986. Sérstaklega var leitast við að tilgreina einvörðungu vexti af lánum sem örugglega mátti tengja íbúðarkaupunum, enda er ekki ágreiningur um að framangreind lán voru tekin til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, því að í úrskurði ríkisskattstjóra frá 14. desember 1987 féllst hann á vaxtafrádrátt vegna þessara lána í skattframtölum 1985 og 1986.

Ágreiningurinn snýst um það hvort réttur til vaxtafrádráttar falli niður eftir að íbúðarhúsnæði er selt eður ei.

Við leyfum okkur að vitna í 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 sbr. 51. gr. sömu laga en þar segir að frá tekjum manna, skv. II kafla sömu laga, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi má draga vaxtagjöld, afföll og gengistöp skv. 2. mgr. 51. gr. að því marki sem þau eru umfram vaxtatekjur sbr. 3. — 5. tl. 1. mgr. 8. gr., allt að 292.600 hjá hverjum manni en 585.200 hjá hjónum, enda séu gjöld þessi af skuldum sem sannanlega eru notaðar til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða endurbóta á því.

Af þessu virðist okkur að frádráttur þessi sé fremur bundinn við vexti af lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota en af eignarhaldi.

Með hliðsjón af framangreindu leyfum við okkur að kæra úrskurð ríkisskattstjóra og förum fram á að vaxtagjöld á árinu 1986, kr. 448.308 verði frádráttarbær í framtali 1987 samkvæmt 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981.“

Með bréfi, dags. 14. júlí 1988, krefst ríkisskattstjóri þess, að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærendur þykja eigi hafa sýnt fram á, að hin umkröfðu vaxtagjöld séu frádráttarbær skv. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Er kröfum kærenda því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja