Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 697/1988

Gjaldár 1987

Lög nr. 32/1978 — 107. gr. Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 8. tl.  

Arður — Arðsfrádráttur — Hlutafélag — Arðsúthlutun — Eigið fé — Yfirfæranlegt rekstrartap — Skattalegt tap — Ójafnað tap

Kærður er úrskurður skattstjóra dags. 19. nóvember 1987 vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1987. Er kæran til ríkisskattanefndar, dags. 10. desember 1987, svohljóðandi:

„Með bréfi dags. 21.07. 1987 var mótmælt þeirri ætlan skattstjóra að strika út úr gjaldahlið rekstrarreiknings úthlutun arðs kr. 600.000 og lækka yfirfæranlegt tap sem því nemur.

Með tilvitnun í úrskurð skattstjóra til félagsins dags. 19.11. 1987, þar sem segir m.a.:

„Tekjuskattslögin nr. 75/1981 hljóta að byggja skilgreiningu sína á því hvað telst arður hjá hlutafélagi á ákvæðum laga nr. 32/1978 um hlutafélög. Með því að lesa ákvæði beggja þessara laga saman er augljóst að greiðsla félagsins á kr. 600.000 til hluthafa getur ekki talist arðgreiðsla, eins og hlutafélagalög skilgreina slíka greiðslu. Með vísan til þess verður að synja kröfu félagsins.“

Í 107. grein laga nr. 32/1978 um hlutafélög, segir að jafna verði tap fyrri ára, áður en til arðgreiðslu geti komið. Ætla má að tilgangur hlutafélagalaganna um að jafna verði tap fyrri ára sé að koma í veg fyrir að úthlutað verði arði, sem hlutfalli af ofmetnu hlutafé. Meðan aðrir liðir eigin fjár en hlutafé eru jákvæðir, þá er augljóslega frekar um vanmat en ofmat að ræða í hlutafénu. Samkvæmt efnahagsreikningi félagsins 31.12. 1986 er annað eigið fé en hlutafé jákvætt um kr. 25.429.636. Félagið brýtur því á engan hátt í bága við þetta ákvæði 107. gr. laga nr. 32/1978 um hlutafélög. Við teljum að í fyrrnefndri grein sé á engan hátt verið að fjalla um það tap, sem verður til vegna skattalegra ívilnana enda hefur það tap engin áhrif á stöðu hlutafjár. Ef lög nr. 32/1978 um hlutafélög eru öll lesin í samhengi þá virðist vera átt við ójafnað tap skv. B.4.2.2. 2. mgr. 99. gr. þeirra laga þegar fjallað er um ójafnað tap, það er ójafnað tap sem bókfært er í efnahagsreikningi.

Veigamikið atriði fyrir því að skattalegt tap skerði ekki frádráttarbærni úthlutaðs arðs, er að ákvæði um það er kippt út við setningu laga nr. 8/1984 um tekju- og eignarskatt. Í fyrri lögum um tekju- og eignarskatt var takmörkun á frádráttarbærni úthlutaðs arðs ef fyrir var skattalegt yfirfæranlegt tap.

Félagið getur ekki fallist á að fyrrnefnd úthlutun arðs geti ekki talist arðgreiðsla samkvæmt skilgreiningu hlutafélagalaga, og krefst þess að skattframtal 1987 standi óbreytt.“

Með bréfi, dags. 25. október 1988, féllst ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda á kröfu kæranda.

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja