Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 104/1989

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. — 70. gr. 2. og 3. mgr. — 71. gr. 1. tl  

Heimilisfesti — Dvalartími — Aðsetursskipti — Ótakmörkuð skattskylda — Lögheimili — Útreikningsaðferð tekjuskatts — Skattlagningarreglur

Kærandi fluttist til landsins á árinu 1986 frá Svíþjóð. Ágreiningsefnið í máli þessu varðar ákvörðun dvalarmánaða kæranda hérlendis á árinu 1986 til útreiknings tekjuskatts, sbr. 2. og 3. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri miðaði við 4 dvalarmánuði hérlendis, sbr. tilkynningu um aðsetursskipti, dags. 3. september 1986, er liggur fyrir í málinu. í tilkynningunni eru aðsetursskiptin dagsett 1. september 1986.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 15. febrúar 1988, kemur fram af hálfu kæranda, að formleg aðsetursskipti hafi verið 1. september 1986, en í raun hafi kærandi flust til landsins á árinu 1985. Í byrjun ársins 1986 hafi hann unnið hjá A h.f., u.þ.b. 5 mánuði. Unnt sé að leggja fram skilríki frá A h.f., ef á þyrfti að halda. Síðar á árinu 1986 hafi kærandi unnið hjá B. Þá liggi það í augum uppi, að kærandi hafi ekki getað haft 400.000 kr. í laun á 4 mánuðum 1986.

Með bréfi, dags. 1. febrúar 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið, sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Kærandi þykir út af fyrir sig eigi hafa sýnt fram á annað tímamark aðsetursskipta en fram kemur í fyrirliggjandi tilkynningu þar um. Skattstjóri hefur byggt á því, að tekjur kæranda hafi fallið til á 4 síðustu mánuðum ársins 1986. Það þykir eigi fá staðist. Skv. launauppgjöfum hefur kærandi haft launatekjur hjá A h.f. 243.078 kr. vegna 18 vikna vinnu og 154.360 kr. auk fæðis- og verkfærapeninga hjá B h.f. vegna 16 vikna vinnu. Eftir öllum atvikum og að virtum skýringum kæranda, sbr. og 1. tl. 71. gr. laga nr. 75/1981, þykir bera að beita útreikningsaðferð 2. og 3. mgr. 70. gr. sömu laga um nefndar tekjufjárhæðir hvora um sig og miða við 4 mánuði í síðara tilvikinu en 5 í hinu fyrra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja