Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 191/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 46/1987 — 2. gr.   Lög nr. 75/1981 — 3. gr. 2. tl. og 5. tl. — 71. gr. 2. tl. 1. mgr. og 3. tl. 1. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1 .ml.  

Takmörkuð skattskylda — Eftirlaun — Húsaleigutekjur — Húsaleiga — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Lögskýring — Lögskýringargögn — Kærufrestur — Kæra síðbúin — Kæranleg skattákvörðun

Kærandi er búsettur erlendis í X. Gjaldárið 1988 bar hann takmarkaða skattskyldu hér á landi vegna leigutekna af íbúð að G-götu, og eftirlauna frá D., sbr. 2. og 5. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Vegna skattskyldu þessarar var skilað skattframtali árið 1988 vegna kæranda innan tilskilins framtalsfrests. Þar voru leigutekjur af íbúðinni tilgreindar 70.000 kr. og fasteignagjöld til frádráttar 15.013 kr. eða hreinar leigutekjur 54.987 kr. Fjárhæð eftirlaunanna nam 115.702 kr. Við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 lagði skattstjóri útsvar að fjárhæð 17.410 kr. á kæranda vegna þessara tekna. Tekjuskattur var ákveðinn 50.393 kr., þ.e. 18% af hreinum leigutekjum og 35% af eftirlaunagreiðslum, sbr. 1. mgr. 2. tl. og 1. mgr. 3. tl. 71. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Enginn eignarskattur var lagður á kæranda. Skv. framtalsgögnum hafði hann selt nefnda íbúð með kaupsamningi 21. september 1987.

Álagningunni var mótmælt af hálfu umboðsmanns kæranda með kæru, dags. 27. ágúst 1988. Inntak kröfugerðar umboðsmannsins var það, að athugað yrði, hvort niðurfellingarákvæði 2. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, tækju ekki til tekjuskatts og útsvars kæranda og eiginkonu hans, A., vegna lífeyristeknanna. Ekki virtist sanngjarnt, að lífeyrisgreiðslur ellilífeyrisþega yrðu skattlagðar með þessum hætti.

Með kæruúrskurði, dags. 24. október 1988, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni. Skv. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, væri kærufrestur til skattstjóra 30 dagar frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu skv. 98. gr. laganna væri lokið. Slík auglýsing, dags. 29. júlí 1988, hefði birst í 88. tbl. Lögbirtingablaðs, dags. 29. júlí 1988. Kærufrestur hefði samkvæmt þessu runnið út laugardaginn 27. ágúst 1988. Á miðnætti þess dags hefði póstkassi skattstofu verið tæmdur. Kærubréfið, sem dagsett væri 27. ágúst 1988, hefði verið í póstkassanum 29. ágúst 1988. Væri kæran því of seint fram færð og sætti frávísun.

Af hálfu kæranda hefur frávísunarúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. nóvember 1988. Krefst umboðsmaðurinn þess, að kæran fái efnismeðferð. Segir svo í kærunni:

„Eins og ljósrit af úrskurði skattstjórans bera með sér fjallar skattstjóri B-umdæmis alls ekki efnislega um skattkæru vegna ofangreindra aðila, heldur vísar kærunum frá og telur þær of seint fram komnar. Svo ótrúlegt sem það annars virðist, lítur út fyrir að skattstjórinn hafi látið einn eða fleiri starfsmenn sína halda vörð um póstkassa skattstofu B-umdæmis, laugardagskvöldið 27. ágúst 1988, sem var síðasti dagur í kærufresti 1988 sbr. auglýsingu skattstjóra. Þar sem fulltrúi skattstjóra, einn eða fleiri fundu ekki umrædda kæru í póstkassanum þetta laugardagskvöld, er kærunum vísað frá.

Kærur vegna þessara aðila munu hafa komið í póstkassa skattstofu B-umdæmis sunnudaginn 28. ágúst 1988.

Alkunna er, að opinberir starfsmenn, þ.e. starfsmenn skattstofanna hafa árum saman bent á og hvatt þá aðila, sem unnið hafa við framtalsgerð og gerð skattauppgjöra að nota helgarnar, þ.e. að vinna laugardaga og sunnudaga. Það hafa þeir líka gjarnan gert vegna gífurlegs álags.

Með þetta í huga virðist sem vinnubrögð skattstjóra B-umdæmis við lok kærufrests, þ.e. að láta starfsmenn sína vinna næturvinnu á helgum og venjulegum frídögum til þess eins að geta vísað frá erindum aðila og þar með gert þeim erfiðara um vik að fá eðlilega meðferð á löglegum erindum sínum, vera í ósamræmi við öll eðlileg vinnubrögð og samskipti. Er hér með vísað til skattkæra dags. 27. ágúst 1988, vegna ofangreindra aðila, sem fylgja hjálagt í ljósritum og beðið um að þær verði efnislega teknar til meðferðar.“

Með bréfi, dags. 22. desember 1988, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Tekið skal fram, að eigi verður séð, að skattstjóri hafi kveðið upp úrskurð varðandi A., sbr. kæru til hans, dags. 27. ágúst 1988, er kæranlegur sé til ríkisskattanefndar. Að svo vöxnu þykir bera að vísa kærunni frá að því er hana varðar. Kæran er tekin til efnismeðferðar að því er varðar kæranda, C. Skv. berum orðum tekur 2. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, aðeins til þeirra, sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Það og lögskýringargögn, sbr. athugasemdir við þessa grein í frv. til nefndra laga, eru því í vegi, að lagagreinin verði skýrð svo, að hún taki til tilviks kæranda, sem skattskyldur er skv. 3. gr. laga nr. 75/1981. Verður því eigi hjá því komist að hafna kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja