Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 207/1989

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 25. gr. — 53. gr. — 76. gr. — 99. gr. 1. mgr. 1 .ml.  

Rekstrarskuldir — Atvinnurekstrareign — Bújörð — Kaup bújarðar — Kaupsamningur — Kaupverð — Kaupverð, skipting — Skipting kaupverðs — Fasteignamatsverð — Skipting eftirstöðva kaupverðs á einstakar eignir — Verðbreytingarfærsla — Íbúðarhúsnæði — Kærufrestur — Kæra síðbúin — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Málsmeðferð áfátt — Úrskurðarmeðferð skattstjóra

Málavextir eru þeir, að kærandi keypti jörðina X. í A-hreppi á árinu 1986. Var kaupverð hennar 7.400.000 kr. Kaupverðið greiddist svo: a) Útborgunarhluti 4.970.000 kr., þar af með andvirði íbúðar 2.500.000 kr. b) Yfirteknar skuldir 1.180.394,20. c) Með útgáfu kaupanda á skuldabréfi 1.249.605,80 kr. í skuldahlið skattframtals síns árið 1987 færði kærandi ógreiddar eftirstöðvar útborgunar í árslok 1986 560.000 kr. svo og fjárhæð nefnds skuldabréfs 1.249.605 kr.

Með bréfi, dags. 25. nóvember 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda, að hann hefði í hyggju að færa framtalda skuld við seljanda jarðarinnar, B., alls 1.809.605 kr. af persónuframtali og í landbúnaðarskýrslu. Skuldin væri vegna kaupa á X., lands, bústofns, húsa og véla. Kaupverð íbúðarhúss á jörðinni teldist 2.867.200 kr. og þar af væri yfirtekin skuld 443.875 kr. Eldri íbúð kæranda hefði gengið upp í kaupin á 2.500.000 kr. þannig að ljóst væri, að íbúðin væri að fullu greidd og skuldirnar tilheyrðu rekstrinum. Breyting þessi hefði ekki áhrif á gjöld gjaldársins 1987 en hefði áhrif á verðbreytingarfærslu og meðferð vaxta á framtali næsta árs.

Í svarbréfi sínu, dags. 3. desember 1987, mótmælti umboðsmaður kæranda fyrirhugaðri færslu einkaskulda af framtali yfir á efnahagsreikning. Ekki væri að finna í kaupsamningi skýringar á, að söluverð íbúðarhúsnæðis gengi upp í kaup á íbúðarhúsnæði á X. Með bréfi, dags. 8. desember 1987, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinnar boðuðu breytingar. Tók skattstjóri fram, að það, að ekki væri sérgreint í kaupsamningi hvaða greiðsla gengi til greiðslu á hverri eign gæti ekki orðið til þess, að allar greiðslur gengju fyrst til greiðslu atvinnurekstrareigna, en að íbúðarhúsið greiddist alfarið af síðustu greiðslum. Eðlilegt yrði að telja, að andvirði selds íbúðarhúss gengi fyrst á móti keyptu íbúðarhúsnæði, en það, sem eftir væri af andvirði þess og aðrar greiðslur gengju síðan til greiðslu atvinnurekstrareigna.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breyting skattstjóra kærð með kæru, dags. 13. janúar 1988. Segir svo í kærunni:

„Ekki verður í fljótu bragði séð að tilfærsla skattstjóra á skuldum milli rekstrar og einkaframtals sé á neinn hátt eðlilegri en upphafleg framsetning framteljanda.

Vel kunnug eru þess dæmi að menn hafa lagt allt sitt undir í sjálfstæðum atvinnurekstri, m.a. selt ofan af sér húsnæði eða aðrar eignir.

Íbúð er að kaupvirði kr. 2.867.200 og
Greitt með eigin framlagi kr. 613.720
Fengnu húsnæðisstj. láni - 443.875
Og lokagreiðslu í feb. "88 560.000
Á árinu eru þannig greitt
í íbúðarhúsnæðinu kr. 1.617.595
eða 56,5% af kaupverði.

Eftirstöðvar kr. 1.249.605 eru síðan greiddar með 10 ára verðtryggðu skuldabréfi. Framteljandi getur ekki séð að íbúðarkaup þessi séu á neinn hátt óeðlileg og greiðslur og lánakjör sambærileg öðrum kaupsamningum um íbúðarhús sem ekki eru í þéttbýli.“

Með kæraúrskurði, dags. 15. janúar 1988, vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni. Hin kærða breyting hefði verið gerð með bréfi, dags. 8. desember 1987. Kærufrestur væri 30 dagar. Kæran, sem dags. væri 13. janúar 1988, væri því of seint fram komin. Þá segir svo í úrskurðinum: „Benda má á, að miðað við framsetningu yðar hafið þér greitt jörð, útihús, vélar og bústofn samtals að kaupverði kr. 4.532.000 að fullu á hálfu ári, en á sama tíma teljið þér yður greiða um 21% af kaupverði íbúðarhúss ef ekki er tekið tillit til yfirtekins láns.“

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur frávísunarúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 25. janúar 1988. Svofelld rök eru færð fram í kærunni:

„Framteljandi kærir flutning skattstjóra á skuldum af einkaframtali yfir á rekstur og telur að breyting þessi sé gerð án haldbærra raka og án tilvitnunar í núgildandi skattalög.

Í bréfi skattstjóra 08.12.87. virðast helstu rök vera þau að eðlilegra sé að umrædd upphæð kr. 1.809.605 tilheyri fremur rekstri en einkaframtali.

Í svarbréfi kæranda 13. jan. 1988 kemur fram að á einu ári er 56,4% (1.617.595) af íbúðarverði greitt til seljanda og eftirstöðvar (1.249.605) með skuldabréfi til 10 ára. Miðað við fyrrgreindar útskýringar verður ekki séð að upphafleg uppsetning sé á neinn hátt óeðlilegri en breyting skattstjóra.

Í úrskurði skattstjóra 15.01.88 er afmarkað tímabil (hálft ár) tekið fyrir og samkvæmt því er útihús, vélar og bústofn greidd að fullu, kr. 4.532.800.

Skattstjóri tekur þó ekki fram að í ofangreindri greiðslu er yfirtaka stofnlánadeildarláns að upphæð kr. 745.167 auk þess er tekið nýtt lán úr sama sjóði, á landbúnaðarframtali er heildarskuld því við stofnlánasjóð kr. 1.951.387.

Miðað við samsvarandi framsetningu á greiðslu kaupverðs íbúðarhúss, er greiðslu á hálfu ári 21% + yfirtekið lán 15,2% eða 36,2%.

Framteljandi telur þó að afmörkun við hálft ár sé ekki réttmæt, þar sem íbúðarviðskiptin séu að jafnaði a) yfirtekin lán b) ákveðin greiðsludreifing í eitt ár og c) eftirstöðvar síðan greiddar með skuldabréfi (sbr. bréf kæranda 13. jan. 1988).“

Með bréfi, dags. 1. febrúar 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Jafnframt því að vísa kæru kæranda frá sem of seint fram kominni í kæruúrskurði sínum, dags. 15. janúar 1988, fá skýringar og röksemdir kæranda í kæru, dags. 13. janúar 1988, nokkra efnisúrlausn í þeim sama úrskurði. Þetta fær eigi staðist. Eins og kæruúrskurði skattstjóra er háttað þykir bera að taka kæruna til efnismeðferðar. Er kröfu ríkisskattstjóra um staðfestingu á „frávísunarúrskurði“ skattstjóra því hrundið. í kaupsamningi um jörðina X. ásamt vélum og bústofni, er fyrir liggur í málinu, er kaupverð jarðarinnar sjálfrar ásamt mannvirkjum talið 5.600.000 kr., bústofns 1.000.000 kr. og véla 800.000 kr. Þá liggur fyrir í málinu skipting áðurnefnds kaupverðs jarðarinnar ásamt mannvirkjum í hlutfalli við fasteignamat á kaupdegi, sbr. 25. gr. laga nr. 75/1981. Eru skattskil kæranda gjaldárið 1987 byggð á þessu og hefur skattstjóri lagt þau til grundvallar álagningu. Ágreiningurinn í máli þessu varðar skiptingu eftirstöðva útborgunarhluta kaupverðs, er nam 560.000 kr. í árslok 1986, og skuldar að fjárhæð 1.249.605 kr. til skuldar annars vegar í skuldahlið skattframtals vegna íbúðarhúss og hins vegar á efnahagsyfirliti landbúnaðarskýrslu. Kærandi færði þessar skuldafjárhæðir ranglega að öllu leyti á framtal. Því breytti skattstjóri og færði fjárhæðina ranglega að öllu leyti á efnahagsyfirlitið. Skuldafjárhæðum þessum þykir bera að skipta annars vegar til færslu á skuldahlið framtals vegna íbúðarhúss og hins vegar til færslu á efnahagsyfirlit vegna annarra keyptra eigna skv. nefndum kaupsamningi. Á grundvelli fyrrgreindra upplýsinga og með tilliti til hlutdeildar íbúðarhúss í kaupunum ákvarðaðri skv. framansögðu, svo og með hliðsjón af yfirteknum lánum færast 219.520 kr. til skuldar á framtali vegna útborgunarhluta og 484.222 kr. að fjárhæð eftirstöðvaskuldabréfs. Afgangur færist á efnahagsyfirlit. Þess skal getið að niðurstaða þessi leiðir eigi til neinna gjaldabreytinga gjaldárið 1987.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja