Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 224/1989

Gjaldár 1988

Reiknað endurgjald — Launatekjur — Launatekjur yfirfærðar — Yfirfærðar launatekjur — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Skattlagning hluta reiknaðs endurgjalds sem yfirfærðra launatekna — Sönnun — Vanreifun

Málavextir eru þeir, að kærandi, X., hafði verktöku með höndum. Reiknaði hann sér 1.700.000 kr. í endurgjald vegna vinnu sinnar við þá starfsemi, er hann tekjufærði í reit 24 í skattframtali sínu árið 1988. Launatekjur hans í reit 21 námu 83.363 kr. frá B-bæ vegna 4 vikna vinnu, sbr. kaupuppgjöf. Kærandi, A., færði sér 435.000 kr. til tekna sem reiknað endurgjald vegna vinnu við starfsemi eiginmanns síns. Launatekjur hennar í reit 21 námu 460.522 kr. frá C. vegna 17 vikna vinnu, sbr. kaupuppgjöf. Hreinar tekjur til skatts af nefndri starfsemi í reit 62 í skattframtalinu námu 31.956 kr.

Með bréfum, dags. 3. júní 1988, fór skattstjóri fram á, að kærendur gerðu rökstudda grein fyrir fjárhæð reiknaðs endurgjalds. Gera skyldi grein fyrir vinnutíma, tegund vinnu, sundurliðun útreiknings endurgjaldsins og á hverju sá útreikningur væri byggður. Þá var kærandi, X., krafinn skýringa á hækkun reiknaðs endurgjalds síns milli rekstraráranna 1986 og 1987. Gefinn var 10 daga svarfrestur. Af hálfu kærenda var gerð grein fyrir hinum umspurðu atriðum í svarbréfi, dags. 12. júní 1988. Kærandi, X., gerði grein fyrir því, að mikil vinna við D., á árinu 1987 væri á bak við hækkun reiknaðs endurgjalds frá tekjuárinu 1986 til tekjuársins 1987. Einnig hefði vinna fyrir aðra aðila aukist. Gerði kærandi grein fyrir vinnutíma sínum á árinu 1987 skv. vinnuseðlum, sundurliðaða eftir mánuðum. Skv. þessari greinargerð kæranda voru dagvinnustundir 1.920 á 410 kr. pr. klst., eftirvinnustundir 366 á 505 kr. pr. klst. og næturvinnustundir 1.125 á 650 kr. pr. klst. Fjárhæð væri því alls 1.703.280 kr. Reikningar væru skv. taxta E-félags og grundvöllur útreiknings á launum. Þá hefði ekkert frí verið tekið á árinu 1987. Sú grein var gerð fyrir reiknuðu endurgjaldi kæranda, A., að það væri vegna bókhaldsvinnu vegna starfsemi eiginmannsins, launaútreikninga, reikningsgerðar, umsjónar með fjárreiðum svo og útréttinga. Engir vinnuseðlar væru til, en starfið hefði verið metið sem 70% af fullu starfi. Vinnustundafjöldi væri metinn miðað við 52 vikna vinnu 40 klst. á viku, þ.e. 70% af 2.080 klst. eða sem 1.456 klst. vinnuframlag. Tímakaup væri metið á 300 kr. og fjárhæð vinnuframlagsins því 436.800 kr. Byggt væri á launum skrifstofufólks almennt í B-bæ.

Með bréfi, dags. 25. júlí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, X., að hann hefði ákveðið að skattleggja hluta af tilfærðum fjárhæðum reiknaðs endurgjalds hans gjaldárið 1988 á grundvelli 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem yfirfærðar launatekjur. Ákvað skattstjóri, að 350.000 kr. af fjárhæð reiknaðs endurgjalds skyldu skattleggjast á þessum grundvelli. Kvaðst skattstjóri miða við hámark reiknaðs endurgjalds í starfsgrein kæranda skv. viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra, sbr. ákvæði nefndrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987. Í sambandi við þau ákvæði skal þess og getið, að reiknað endurgjald kæranda gjaldárið 1987 nam 684.000 kr. Að því er reiknað endurgjald kæranda, A., áhrærir, þá beitti skattstjóri ekki 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987 heldur byggði á því að það væri offært skv. ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með vísan til ákvæða 59. gr. þeirra laga lækkaði skattstjóri endurgjaldið úr 435.000 kr. í 200.000, enda þætti ekki sýnt fram á, að um 70% starf væri að ræða og einnig væri miðað við hærri laun en skv. viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra. Skv. þessu hækkuðu og hreinar tekjur kæranda, X., í reit 62 í skattframtalinu úr 31.956 kr.í 266.956 kr.

Af hálfu umboðsmanns kærenda var fyrrnefndum breytingum skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 25. ágúst 1988, með skírskotun til greinargerðar í svarbréfi, dags. 12. júní 1988, og jafnframt lögð áhersla á áðurnefnda aukna vinnu rekstrarárið 1987.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurðum, dags. 15. nóvember 1988. Hafnaði hann kröfum kærenda og ákvað, að álögð opinber gjöld þeirra gjaldárið 1988 skyldu óbreytt standa. Úrskurður skattstjóra varðandi kæranda, X., er svohljóðandi:

„3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987 um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda setur ákveðin hlutlæg mörk varðandi hvað af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt 2. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt falli undir niðurfellingu á tekjuskatti og útsvari samkvæmt 2. gr. gildistökulaganna. Annars vegar er miðað við tiltekna hlutfallshækkun milli áranna 1986 og 1987 og hins vegar viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra til ákvörðunar reiknuðu endurgjaldi fyrir tekjuárið 1987. Sú fjárhæð sem menn reikna sér í laun umfram þá viðmiðunina sem hærri er telst til yfirfærðra launatekna og á að innheimta þann hluta álagðs tekjuskatts og útsvars sem svarar til hlutfalls þessara tekna í heildarskattstofni til álagningar tekjuskatts.

Aðrar reglur gilda um laun samkvæmt 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Tekjuskattur og útsvar á þau laun á árinu 1987 kemur eigi til innheimtu nema aukning launa verði eigi rakin til aukins vinnuframlags, aukinnar starfsábyrgðar eða stöðuhækkunar. Aukið vinnuframlag þess sem er með sjálfstæða starfsemi kemur hins vegar eigi til góða nema innan viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra, sbr. heimild til 50% hækkunar viðmiðunarlauna vegna yfirvinnu, álagsgreiðslu o.þ.h., og sem leiðir af 25% reglunni í 3. mgr. 4. gr. gildistökulaganna.

Við álagningu opinberra gjalda 1988 taldist hluti reiknaðra launa kæranda, kr. 350.000, til yfirfærðra launatekna en þær eru skattskyldar samkvæmt 9. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 5. gr. gildistökulaganna. Var þar miðað við þá aðferð (viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra flokkur D-l með 100% hækkun) sem gaf kæranda hærri skattfrjáls reiknuð laun, sbr. bréf skattstjóra Y-umdæmis til hans dags. 25. júlí sl.

Enginn sérstakur rökstuðningur er í kærunni og látið nægja að vísa í bréf kæranda frá 12. júní 1988. í því er höfðað til mikillar vinnu hans á árinu 1987. Eins og fram kemur hér að framan er um hlutlæga viðmiðun að ræða gagnvart því hvað af reiknuðum launum falli undir niðurfellda innheimtu á tekjuskatti og útsvari. Aukið vinnuframlag milli áranna 1986 og 1987 kemur því einungis til góða innan ákveðins ramma. Með hliðsjón af upplýsingum kæranda um mikla vinnu voru honum því ákvörðuð eins há reiknuð laun og hin hlutlæga viðmiðun leyfir hæst.

Sú breyting var og gerð á skattframtali kæranda 1988 að hækka tekjur í reit 62 um kr. 235.000 þar sem gjaldfærð laun vegna maka þóttu of há, sbr. 59. gr. laga nr. 75/1981. Eigi þykir ástæða til að fjalla um þetta atriði í úrskurði þessum og látið nægja að vísa í bréf skattstjóra til kæranda dags. 25. júlí sl. enda málið eigi sérstaklega reifað í kærunni.“

Í kæruúrskurði varðandi kæranda, A., dags. 15. nóvember 1988, tók skattstjóri fram, að enginn sérstakur rökstuðningur hefði verið í kærunni að því er hana varðaði heldur látið nægja að vísa í svarbréf, dags. 12. júní 1988, sem þegar hefði verið tekin afstaða til. Álögð opinber gjöld stæðu því óbreytt.

Með kæru, dags. 13. desember 1988, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurðum skattstjóra til ríkisskattanefndar. Skírskotar umboðsmaðurinn til skattframtals árið 1988 og svarbréfs, dags. 12. júní 1988, þar sem gerð sé grein fyrir tekjubreytingum milli áranna 1986 og 1987.

Með bréfi, dags. 1. febrúar 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurðir skattstjóra verði staðfestir með vísan til forsendna þeirra enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið, er gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Að virtum málavöxtum og með skírskotun til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, þykir bera að hafna kröfu um niðurfellingu skattlagningar á umræddan hluta reiknaðs endurgjalds kæranda, X., sem yfirfærðra tekna. Kærunni þykir bera að vísa frá vegna vanreifunar að því er varðar lækkun reiknaðs endurgjalds kæranda, A., enda þykja eigi komin fram fullnægjandi rök fyrir hinni umkröfðu endurgjaldsfjárhæð, m.a. í ljósi launavinnu kæranda, og málavaxta að öðru leyti og enginn rökstuðningur lagður fram umfram það, sem fram kom í svarbréfi til skattstjóra, dags. 12. júní 1988.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja