Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 343/1989

Gjaldár 1984—1987

Lög nr. 75/1981 — 1. gr. 1. og 2. mgr. — 3. gr. 5. og 9. tl. — 7. gr. C-liður 2. tl. — 30. gr. 1. mgr. C-liður 3. tl. 2. mgr. — 30. gr. 3. mgr. — 70. gr. 2. og 3. mgr.  

Skattskylda — Ótakmörkuð skattskylda — Takmörkuð skattskylda — Heimilisfesti — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Nám — Nám erlendis — Námsfrádráttur — Eftirstöðvar ónýtts námsfrádráttar — Dvalartími — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Húsaleigutekjur — Beinn kostnaður — Frádráttarbærni — Frádráttarheimild — Lagaheimild — Tilefnislaus kæra

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1987. Þá er einnig farið fram á endurupptöku á álagningu opinberra gjalda gjaldárin 1984—1986 vegna ónýtts námsfrádráttar sem óskað er eftir að verði dreginn frá leigutekjum af íbúðarhúsnæði skv. skattframtölum nefndra ára.

I

Málavextir eru þeir, að kærandi sendi ríkisskattstjóra bréf, dags. 23. desember 1987. í því segir kærandi m.a.:

„Ég fer þess hér með á leit við yður, hr. Ríkisskattstjóri að þér athugið eftirfarandi atriði viðvíkjandi mín skattamál.

Ástæðan fyrir þessari beiðni minni er langvarandi ágreiningur minn og skattayfirvalda um ýmiss atriði í skattamálum mínum. Sum atriði hef ég fengið leiðrétt hjá skattstjóranum hér, en gagnvart öðrum atriðum er mér bent á að það séu fyrirmæli frá yður um að gera eigi slíkt á annan hátt en ég álít.

Þessu á ég bágt með að trúa og sný mér þess vegna til yðar.

Síðasta bréf frá Skattstjóra Norðurlandsumdæmis eystra er dagsett 27. nóvember og lít ég þannig á, að mér sé heimilaður 30 daga kærufrestur frá þeirri dagsetningu.

1. Ég vil hér með mótmæla útreikning á skatti mínum álögðum 1987.

2. Ég vil mótmæla þeirri ákvörðun að sá hluti ónýtts námsfrádráttar sem færist á gjaldárin 1984—1986 skuli ekki hafa verið dreginn frá tekjum þessara ára.

3. Ég vil mótmæla þeim atriðum sem fram komu í bréfi mínu til yðar, dagsettu 15. desember 1986.“

Í bréfinu til ríkisskattstjóra gerir kærandi síðan tölulega grein fyrir kröfum sínum varðandi fyrsta kæruliðinn þ.e. um útreikning opinberra gjalda á hann og eiginkonu hans gjaldárið 1987. Varðandi síðari kæruliðina tekur kærandi eftirfarandi fram í fyrrnefndu bréfi til ríkisskattstjóra:

„Varðar 2)

Fyrir gjaldárin 1984—1986 fer ég hér með þess á leit við yður að þér takið upp þá álagningu sem átti sér stað þá og takið tillit til þess ónýtts námsfrádráttar sem mér ber. í þessu sambandi vil ég benda á:

1. málsl. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75 frá 1981.
1. tl. 1. mgr. 62. gr. sömu laga.
Bréf það er ég sendi yður 15. des 1986.

Varðar 3)

Bréf það er ég sendi yður þann 15. desember 1986 tel ég að lýsi vel þeim ágreiningi sem er á milli okkar um mín skattamál. Ástæðan fyrir því, að ég geri fyrst athugasemd núna við svari yðar við bréfi mínu er sú að skattyfirvöld hér á A. vildu ekki veita mér þann „Ónýttan námsfrádrátt“ sem ég taldi mig eiga rétt á og er ein af forsendunum fyrir kröfu minni í umræddu bréfi. Á þessu var ráðin bót með ákvörðun Skattstjóra í bréfi þ. 27. nóv.“

Ríkisskattstjóri framsendi ríkisskattanefnd fyrrnefnt bréf kæranda frá 23. desember 1987 til meðferðar, enda barst það ríkisskattstjóra í kærufresti til ríkisskattanefndar sbr. úrskurð skattstjóra, dags. 27. nóvember 1987.

Með bréfi til skattstjóra, dags. 22. október 1987, mótmælti kærandi ákvörðun skattstjóra á ónýttum námsfrádrætti framtalsárin 1979—1984. Var á það bent, að þær tekjur eiginkonu kæranda, sem námsfrádráttur hefði nýst á móti, hefðu fallið til í Danmörku og verið skattlagðar þar. Hins vegar hefði þar ekki verið heimilt að draga frá tekjunum nokkurn frádrátt vegna náms kæranda. Því krafðist kærandi þess, að frádrætti þessum yrði jafnað á næstu 5 ár eftir námslok. Svo sem fyrr greinir kvað skattstjóri upp úrskurð í málinu þann 27. nóvember 1987. Í honum segir m.a.:

„Gjaldárin 1979 og 1980 nýtti kærandi námsfrádrátt sinn að fullu sjálfur og kemur sá frádráttur því ekki til álita hér. Gjaldárið 1981 hefur verið úrskurðað, að námsfrádráttur kæranda komi óskertur til frádráttar að námi loknu, sem ætla verður að sé ágreiningslaust. Eftir stendur að fjalla um námsfrádrátt vegna gjaldáranna 1982—1984. Þessi ár hafði eiginkona kæranda tekjur í Danmörku og greiddi skatt af þeim þar. Hefðu þessar tekjur verið skattlagðar á íslandi hefði námsfrádráttur kæranda nýst henni, en vegna skattlagningar í Danmörku varð svo ekki. Með vísan til ákvæða 2. málsliðar 3. töluliðs C-liðar 1. málsgreinar laga nr. 78/1981 (sic) um tekjuskatt og eignarskatt verður því að fallast á það með kæranda, að umræddan frádrátt beri að draga frá tekjum hans að námi loknu. Námsfrádrátturinn að námi loknu verður því kr. 120.316 sem færist til frádráttar sem hér segir:

Gjaldárið 1984 kr 12.031
“ 1985 “ 24.063
“ 1986 “ 24.063
“ 1987 “ 24.063
“ 1988 “ 24.063
“ 1989 “ 24.063

Samtals Kr. 120.316

Frádráttur gjaldáranna 1984—1986 fellur niður vegna búsetu erlendis, en frádráttur á framtali 1987 verður kr. 50.393 miðað við stuðulinn 2.0942. Því er fallist á kröfu kæranda.“

II

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 29. nóvember 1988, gert svofellda kröfur í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem telja verður að hún sé tilefnislaus. Skattstjóri hefur þegar fallist á kröfu kæranda varðandi eftirstöðvar ónýtts námsfrádráttar og ekki verður séð hvað bagi önnur atriði sem kærandi tiltekur, s.s. álagningu opinberra gjalda.“

III

Samkvæmt gögnum málsins hóf kærandi nám í Danmörku og flutti af þeim sökum frá íslandi ásamt fjölskyldu sinni þann 26. júní 1980. Ríkisskattstjóri veitti kæranda þann 28. júlí 1980 heimild til að halda skattalegu lögheimili sínu hér á landi á meðan hann stundaði nám í Danmörku og skyldi hann því bera fulla skattskyldu á íslandi þann tíma. Námi sínu lauk kærandi í júní 1983 en flutti búferlum hingað til lands þann 6. nóvember 1986, en eiginkona hans og börn þann 24. október sama ár. Gjaldárin 1981, 1982, 1983 og 1984 var lagt á kæranda sem heimilisfastan hér á landi. Hvorki kærandi né eiginkona hans báru opinber gjöld hér á landi vegna áranna 1980, 1981, 1982 og 1983, en fengu barnabætur fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 1980. Gjaldárin 1985 og 1986 skattlagði skattstjóri kæranda vegna takmarkaðrar skattskyldu hans hér á landi skv. 5. og 9. tl. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar eð kærandi átti og leigði út fasteign.

Við flutning kæranda og eiginkonu hans aftur hingað til lands, lauk hinni takmörkuðu skattskyldu þeirra skv. 5. og 9. tl. 3. gr. fyrrnefndra laga en við tók skattskylda þeirra skv. 1. gr. sömu laga. Með hliðsjón af komutíma þeirra hingað til lands og með vísun til ákvæðis 3. mgr. 70. gr. fyrrgreindra laga, telst kærandi hafa verið heimilisfastur hérlendis í tvo mánuði og eiginkona hans í þrjá mánuði á árinu 1986. Kærandi bar því takmarkaða skattskyldu í tíu mánuði á árinu 1986 vegna leigutekna af húseign. Frá þeim leigutekjum, sem teljast til skattskyldra tekna skv. 2. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er kæranda heimill frádráttur skv. ákvæðum 3. mgr. 30. gr. sömu laga þ.e.a.s. á beinum kostnaði við öflun leiguteknanna. Kærandi gerir í reynd þá kröfu, að frá leigutekjum af nefndri húseign verði honum einnig heimilað að draga ónýttan námsfrádrátt skv. ákvæðum 2. mgr. 3. tl. C-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Sú krafa á sér eigi lagastoð og er henni því hafnað. Með úrskurði, dags. 27. nóvember 1987, féllst skattstjóri á kröfur kæranda varðandi útreikningsgrundvöll ónýtts námsfrádráttar. Verður því ekki talið að ágreiningur sé með aðilum málsins um fjárhæð hins ónýtta námsfrádráttar. Skattstjóri heimilaði kæranda í nefndum úrskurði ónýttan námsfrádrátt að fjárhæð 50.393 kr. vegna gjaldársins 1987 að fullu til frádráttar launatekjum kæranda á tímabilinu nóvember — desember 1986.

Með vísan til framanritaðs og þar sem eigi verður séð, að önnur ágreiningsefni liggi fyrir í máli þessu, sem til úrlausnar skuli koma hjá ríkisskattanefnd, þar með talinn þriðji liður í bréfi kæranda til ríkisskattstjóra dags. 23. desember 1987, verða hin kærðu gjöld látin óhreyfð standa.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja