Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 476/1989

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl.  

Rekstrarkostnaður — Risnukostnaður — Risna — Ferðakostnaður — Ráðstefnukostnaður — Námskeiðskostnaður — Námskeið — Jólagjafir til starfsmanna — Árshátíð starfsmanna — Veiðileyfakaup — Verkfræðiþjónusta — Frádráttarheimild — Frádráttarbær kostnaður — Frávísun vegna vanreifunar

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 14. október 1987, krafði skattstjóri kæranda upplýsinga um ýmis atriði skattframtals hans árið 1987. Bréfi þessu var svarað af hálfu kæranda með bréfum, dags. 22. og 28. október 1987. Í framhaldi af bréfaskiptum þessum endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1987 hinn 7. mars 1988. Af hálfu kæranda var þessi endurákvörðun kærð með kæru, dags. 30. mars 1988, sbr. bréf, dags. 11. og 18. apríl 1988. Skattstjóri kvað upp kæruúrskurð þann 30. maí 1988 og lækkaði áður gerða tekjuhækkun lítillega. í máli þessu eru ágreiningsefnin sem hér segir:

1. Ferða- og ráðstefnukostnaður. Gjaldfærður ferða- og ráðstefnukostnaður nam 827.086 kr. í rekstrarreikningi kæranda árið 1986. Skattstjóri krafði kæranda um sundurliðaða og rökstudda greinargerð um gjaldalið þennan. Tilgangur hverrar ferðar og ráðstefnu skyldi greindur hvert og hvenær farið og hvenær komið. Nöfn ferðalanga og ráðstefnumanna skyldu tilgreind og getið tengsla þeirra við kæranda. Fjalla skyldi um það, hvernig þessi gjaldaliður tengdist öflun tekna í atvinnurekstri. Þar sem um væri að ræða, að í gjaldaliðnum fælist hluti annars kostnaðar svo sem skipting milli einkanota og rekstrar eða af skyldum ástæðum, bæri að skýra það og rökstyðja forsendur. Þá skyldu ljósrit fullgildra bókhaldsgagna lögð fram til staðfestingar svo sem reikningar, kvittanir, nótur eða annað, er bæri greinilega með sér eðli færslugagnanna.

Í svarbréfi, dags. 22. október 1987, var af hálfu kæranda gerð grein fyrir eðli starfsemi hans og helstu viðfangsefnum. Með þeirri greinargerð vildi kærandi rökstyðja nauðsyn þess, að eigendur og starfsmenn hans ykju þekkingu sína og menntun, m.a. með því að sækja ráðstefnur og námskeið erlendis. Í bréfinu var listi yfir eigendur og sérsvið þeirra. Þá fylgdi sérstök sundurliðuð greinargerð yfir gjaldalið þennan, þar sem gerð var grein fyrir tilefni hverrar ferðar, ferðakostnaði, þátttakendum og ferðatíma. Bókhaldsfylgiskjöl fylgdu greinargerð þessari í ljósriti.

Með bréfi, dags. 7. mars 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda um það, að gjaldfærður ferða- og ráðstefnukostnaður hefði verið lækkaður um 200.000 kr. á svofelldum forsendum:

„Í svarbréfi umboðsmanns gjaldanda, ásamt með greinargerðum og gögnum, dags. 28. október 1987, er gerð grein fyrir þátttakendum í námsskeiðs- og ráðstefnuferðum á vegum félagsins, en þeir eru eigendur í félaginu, og jafnframt starfsmenn þess, lauslega kynnt erindi þeirra, oftast ferðamánuður tilgreindur og í flestum tilfellum tiltekinn dagafjöldi. Ljósrit gagnanna meðfylgjandi yfirlitinu, er grundvalla kostnaðarliðinn kr. 827.086,-, þykja við athugun, byggja á veiku sönnunargildi, þar sem stór hluti útgjaldanna eru studd úttektarnótur banka um gjaldeyriskaup, eða nánast kr. 480.000,-. Ekki verður lesið úr slíkum gagnagrunni til staðfestingar námsskeiðskostnaði, ráðstefnukostnaði, uppihaldskostnaði, tímasetningu né dagsetningum og ekki á nokkurn hátt greint á milli eigin notkunar þátttakandans annars vegar og hlutdeildar félagsins í útgjöldunum hins vegar. Alls þessa er ábótavant þrátt fyrir ríka áherslu lagða á nauðsyn sundurliðun gagnanna í bréfi skattstjóra.

Ferðakostnaður á vegum félagsins við gagnasöfnun á sérhæfðum hugverkum, sem falboðin eru á markaði, er góðra gjalda vert, leiðir af sér aukna tækniþróun, sem aftur nýtist til fjölþættara verkefnavals, eykur umfang starfseminnar við öflun rekstrarteknanna og leiðir til endurgjalds í eignamyndun. Á annan veg gætir með útgjöld námskeiðshalds. Það er ekki hlutverk vinnuveitanda sem slíkt, heldur framlag einstaklingsins, til öflunar eigin þekkingar og er einkamál viðkomandi verkmanns, hvort heldur í hlut á eigandi fyrirtækis eða starfsmaður, en uppsker viðurkenningu í launaþætti verkkaupans, sem metur hverju sinni verkalaunin, enda er áhættan hans. Menntun einstaklings og þekking hans fylgir verkmanninum, verður ekki framseld né frá honum tekin, líkt og rekstrarfjármunir sem ganga kaupum og sölum meðal fyrirtækja í einhverri mynd.

Samkvæmt framansögðu þykja framtalsgögnin vanbúin og frádráttarbærni gjaldaliðsins óviss milli einkaþarfa og rekstrar, en með hliðsjón af umfangi og eðli rekstrarins, verður að ætla þátt félagsins umtalsverðan og hæfilega metinn á kr. 627.086,- og lækki því sem nemur kr. 200.000,-,“

Af hálfu kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt, sbr. rökstuðning, dags. 11. apríl 1988, er barst í framhaldi af kæru, dags. 30. mars 1988. Var því mótmælt, að framlögð gögn hefðu veikt sönnunargildi. Ekki væri annað vitað en gjaldeyriskaup v/ferðakostnaðar starfsmanna vegna ferða á vegum kæranda, væru rekstrarkostnaður. Ítrekuð voru rök varðandi nauðsyn sí- og endurmenntunar og þekkingaröflun erlendis. Sú tíð væri liðin, að menn öfluðu sér þekkingar á eigin kostnað og ekki skipti máli, hvort um væri að ræða eigendur eða starfsmenn. Þá var gerð grein fyrir því, að starfsskyldur manna breyttust ekki við það, að þeir eignuðust hlut í kæranda, sem yfirleitt gerðist þegar ákveðnum starfsaldri væri náð, er væri almennt í starfsgrein kæranda.

Með kæruúrskurði, dags. 30. maí 1988, ákvað skattstjóri, að hin kærða breyting skyldi óhögguð standa. í kæru kæmu ekki fram þær upplýsingar og skýringar, sem á hefði þótt skorta, þegar endurákvörðun var hrundið í framkvæmd, og ekki lögð fram fullgild bókhaldsgögn til staðfestingar frádráttarbærni kostnaðar í stað gjaldeyriskaupakvittana. Skattstjóri gat þess, að ekki lægi fyrir uppgjör vegna ferða, þ.e. gögn um ráðstöfun keypts gjaldeyris lægju ekki fyrir. Þá vék skattstjóri að því, að ekki lægi skýrt fyrir, að um væri að ræða náms- og ráðstefnuferðir, tengdar störfum viðkomandi hjá kæranda, en ekki almennt nám eða endurmenntun þeirra. Væri í þessu sambandi höfð hliðsjón af eignaraðild að kæranda.

Með kæru, dags. 21. júní 1988, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst þess, að gjaldaliður þessi verði látinn óbreyttur standa eins og hann var færður í rekstrarreikningi. Vísað er varðandi rökstuðning til bréfa til skattstjóra.

2. Risna. Gjaldfærður risnukostnaður skv. rekstrarreikningi kæranda nam 427.727 kr. Með bréfi, dags. 14. október 1987, krafði skattstjóri kæranda sambærilegrar greinargerðar um þennan gjaldalið og varðandi lið þann, sem um getur í 1. tl. Sundurliðuð greinargerð ásamt ljósriti bókhaldsfylgiskjala barst með bréfi, dags. 28. október 1987. Með bréfi, dags. 7. mars 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að gjaldaliður þessi hefði verið lækkaður í 266.724 kr. á svofelldum forsendum:

„Annar þáttur í gjaldalið rekstrarreiknings félagsins, sem óskað var frekari upplýsinga og gagna um í bréfi skattstjóra 14. október var risnukostnaður kr. 427.727,-.

Samkv. framlögðum gögnum reyndust kr. 5.505,- oftaldar. Við athugun á hinum ýmsu kostnaðarliðum risnunnar, þykja sumir liðirnir ekki samrýmast 1. mgr. 1. tl. 31. gr. áður nefndra laga, enda rökstuðningur með framtalsgögnum ófullnægjandi. Jafnframt þykir verða að hafa í huga, að nánast helmingur launagjalda félagsins tengjast eigendum félagsins og því með að vera að því er virðist, tæpur helmingur hinna fastráðnu starfsmanna.

Athugasemdir skattstjóra beinast að eftirtöldum gjaldfærslum: árshátíð félags verkfræðinga kr. 48.148,-, óskilgreint hádegisverðarboð starfsmanna kr. 24.000,-, kveðjuhóf starfsmanna kr. 11.000,-, áfengi til starfsmanna kr. 62.340,- og veiðileyfi kr. 10.000,- eða samtals að upphæð kr. 155.498.- og má teljast rausnarlegt framlag en ekki í anda áður tiltekinnar lagagreinar og því skattlega tilefnislaust. Innsendir launamiðar með launaframtali félagsins, sýna engin hlunnindi tengd starfsmönnum félagsins og þar sem ekki hefur verið sýnt fram á nauðsyn útgjaldanna sbr. 31. gr. áðurnefndra laga, í tengslum við öflun rekstrarteknanna, heimilast kostnaðarliðir þessir ekki til frádráttar. Að viðbættri samtöluskekkju í ársreikningum félagsins kr. 5.505,- lækkar risna til frádráttar í kr. 266.724,-.“

Í rökstuðningi í framhaldi af kæru, dags. 30. mars 1988, sbr. bréf, dags. 11.apríl 1988, gerði kærandi grein fyrir þeim liðum, sem skattstjóri fetti fingur út í. Skýringamar eru svohljóðandi:

„1) Árshátíð verkfræðinga; kr. 48.148.-

Félagið bauð þeim lykilmönnum fyrirtækisins, sem eru félagar í VFI ásamt nokkrum gestum þannig, að fyrirtækið borgaði aðgangsmiða og mat en engin vínföng. Þótti þetta ekki óeðlilegt með tilliti til stöðu þessara manna og þeirra gesta sem boðið var.

2) Hádegisverður starfsmanna; kr. 24.000.-

Framkvæmdastjóri bauð hluta starfsfólks til hádegisverðar að hótel ... þar sem mikið álag hafði verið á þessu fólki vikumar þar á undan við lúkningu hönnunar og gerð kostnaðaráætlunar vegna tiltekins verks.

3) Áfengi til starfsmanna; kr. 62.340.-

Það hefur verið venja hér að gefa öllu starfsfólki einhvern glaðning um jól. Þeim sem þess óska hefur verið gefið áfengi, hinum bækur. Menn hafa mátt velja. Af einhverjum ástæðum eru áfengiskaup viðkvæmari en bókakaup þegar fyrirtæki á í hlut.

4) Kveðjuhóf starfsmanns; kr. 11.000.-

Í nóv. 1986 lét starfsmaður af störfum hjá fyrirtækinu, en þá hafði hann unnið hjá því í um 5 ár. Framkvæmdastjóri ákvað að kveðja hann með smá hófi.

5) Veiðileyfi; kr. 10.000.-

Verkfræðistofan X. hefur allt frá árinu 1982 verið í samvinnu við nokkrar aðrar íslenskar verkfræðistofur um hönnun og kortagerð vegna framkvæmda í A. Þessar stofur hafa unnið sem undirverktakar hjá amerísku verkfræðifyrirtæki, B. Það þótti tilhlýðileg kurteisi í lok þessa samstarfs að bjóða yfirverkfræðingum þessa fyrirtækis til veiða 1 dag í laxveiðiá. Þessar kr. 10.000.- voru hlutur X. h.f.“

Í kæruúrskurði sínum, dags. 30. maí 1988, féllst skattstjóri á gjaldfærslu kostnaðar 10.000 kr. vegna veiðileyfis, en hafnaði kröfu kæranda að öðru leyti með svohljóðandi rökum:

,,A) Kærandi hefur fært til gjalda kostnað vegna árshátíðar starfsfólks X. kr. 77.348 og gerði skattstjóri ekki athugasemd við þann gjaldalið.

Skattstjóri fellst ekki á að kostnaður vegna árshátíða félaga annarra en viðkomandi fyrirtækja falli undir ákvæði 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981. Kröfu kæranda er því hafnað.

B) Sá kostnaður sem hér um ræðir er einungis frádráttarbær frá tekjum félagsins að hann sé gefinn upp á launamiðum þeirra starfsmanna sem nutu fæðisins. Ekki er um slíkt að ræða og er umræddur kostnaður því ófrádráttarbær, sbr. 1. tl. 1. mgr. 31. gr. og 92. gr. laga nr. 75/1981.

C og D) Kostnaður vegna jólagjafa til starfsmanna og vegna kveðju hófs starfsmanns er ekki frádráttarbær frátekjum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981.“

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 21. júní 1988, krefst umboðsmaður kæranda þess, að fyrrgreindir liðir verði teknir til greina með skírskotun til bréfa til skattstjóra, dags. 22. október 1987 og 11. apríl 1988.

Með bréfi, dags. 7. júní 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Um 1. tl. Að virtum fram komnum skýringum og gögnum kæranda þykir hann eigi hafa gert þá grein fyrir hinum umþrætta gjaldalið, að efni séu til þess að hagga við hinni kærðu lækkun skattstjóra. Að svo vöxnu þykir bera að vísa þessu kæruatriði frá.

Um 2. tl. Þeir þættir gjaldfærðs risnukostnaðar, sem enn standa í ágreiningi, þykja allir vera þess eðlis, að þeir geti eigi talist rekstrarkostnaður skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með þessari athugasemd þykir bera að staðfesta niðurstöðu skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja