Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 551/1989

Gjaldár 1986 og 1987

Fyrning — Fyrnanleg eign — Fyrnanlegt lausafé — Bifreið — Búrekstur — Bifreiðakostnaður — Almenn fyrning — Fyrning, almenn — Föst afskrift — Afskrift, föst — Búreikningshald — Búreikningsstofa landbúnaðarins — Fyrningarhlutföll

Kærður er úrskurður skattstjóra, dags. 18. mars 1988. Er kæran til ríkisskattanefndar, dags. 13. apríl 1988, svohljóðandi:

„Skattstjórinn á X. hefur gert breytingar á skattframtölum mínum fyrir árin 1986 og 1987, sem ég sætti mig ekki við. Þær breytingar eru á þann veg að hann færir jeppa árgerð 1977 (skráður fyrir 6 farþega) á fyrningarskýrslu landbúnaðarframtals og fyrnir hann eftir sömu reglu og búvélar. Vísa ég í meðfylgjandi afrit af bréfi frá skattstjóra dags. 27. janúar 1988 þar að lútandi. Búreikningsstofa landbúnaðarins (og fleiri) telur þetta hvergi gert hjá þeim bændum sem þeir gera upp hjá og ekki heimilt samkvæmt leiðbeiningum frá ríkisskattstjóra að fyrna jeppa á þennan veg ef þeir eru skráðir fyrir fleiri en 2 farþega. Á sveitaheimilum er varla um það að ræða að aðeins annar bíll af tveimur sé notaður til landbúnaðarstarfa en hinn ekki. Það er alltaf eitthvað sitt á hvað, og svo er með mína bíla. Búreikningsstofa taldi það ekki ósanngjarnt að kostnaður af öðrum bílnum færi alfarið á bú og hinn á einkanot og heimili. Ég geri kröfu til eftirfarandi:

1. Að breytingu skattstjóra X-umdæmis verði hrundið og framtöl mín fyrir árin 1986 og 1987 verði óbreytt frá því sem þau fóru frá mér.

2. Að ég sitji við sama borð og aðrir bændur.

Sendi hér með til upplýsingar ljósrit af bréfum frá skattstjóra og sundurliðun á kostnaði bílanna fyrir umrædd ár.“

Með bréfi, dags. 2. ágúst 1989, krefst ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Skattstjóri taldi jeppabifreið í eigu kæranda fyrnanlega eign og gerði þá breytingu, að hann færði almenna fyrningu bifreiðarinnar í stað fastrar afskriftarfjárhæðar skv. reglum ríkisskattstjóra. Virðist skattstjóri styðjast við tilhögun búreikningshalds kæranda í þessum efnum fyrir Búreikningsstofu og undir umsjón hennar. Kærandi heldur því fram, að bifreiðar hans báðar séu jöfnum höndum notaðar til búreksturs og í einkaþágu. Eftir öllum atvikum þykir bera að fallast á kröfu kæranda, en gjaldfærður bifreiðakostnaður er að öðru leyti ekki í ágreiningi í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja