Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 576/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 46/1987 — 4. gr.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A—liður 1. tl. 2. mgr. — 59. gr. 1. mgr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. — 98. gr. — 99. gr. 1. mgr. 3. ml.  

Reiknað endurgjald — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Yfirfærðar launatekjur — Launatekjur, yfirfærðar — Málsmeðferð skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Álagningarlok — Andmælareglan — Rökstuðningur — Rökstuðningur úrskurðar skattstjóra

Málavextir eru þeir, að kærandi færði sér til tekna í reit 24 í skattframtali sínu árið 1988 reiknað endurgjald að fjárhæð 1.413.000 kr. Með bréfi, dags. 9. ágúst 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að yfirfært reiknað endurgjald kæranda væri ákvarðað 413.000 kr., sbr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Tók skattstjóri fram, að þau mistök hefðu orðið við skráningu framtalsins, að skattlagning nefndrar fjárhæðar hefði fallið niður. Væri fyrirhugað að leiðrétta þessi mistök og endurákvarða áður álögð opinber gjöld. Með kæru, dags. 22. ágúst 1988, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1988 og boðaði, að nánari greinargerð yrði send síðar. Með bréfi, dags. 23. september 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinnar boðuðu breytingar, sbr. skattbreytingaseðil, dags. sama dag. Af hálfu umboðsmanns kæranda var þessari breytingu mótmælt í bréfi, dags. 17. október 1988. Hann færði fram þau rök, að tilfært reiknað endurgjald væri í samræmi við vinnuframlag og því efnislega rétt ákvarðað. Þá taldi umboðsmaðurinn, að skattstjóri hefði ekki gætt réttra aðferða við framkvæmd hinnar kærðu breytingar. Með kæruúrskurði, dags. 2. nóvember 1988, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Skattstjóri tók fram, að heimilt hefði verið að byggja á 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981 við framkvæmd breytingarinnar. Þá færði skattstjóri rök fyrir því, að um yfirfært reiknað endurgjald væri að ræða í tilviki kæranda, sem bæri að skattleggja samkvæmt lögum nr. 46/1987.

Með kæru, dags. 10. nóvember 1988, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Krefst hann þess, að skattlagning hluta reiknaðs endurgjalds kæranda sem yfirfærðra launatekna, sbr. 4. gr. laga nr. 46/1987, verði hnekkt bæði af formlegum og efnislegum ástæðum.

Með bréfi, dags. 18. september 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af málsmeðferð skattstjóra og með vísan til úrskurða ríkisskattanefndar nr. 170/1989, 171/1989, 178/1989, 196/1989 og 480/1989 fellst ríkisskattstjóri á að hinar kærðu breytingar skattstjóra verði felldar úr gildi og krafa kæranda tekin til greina.

Telji ríkisskattanefnd hins vegar að eins og atvíkum þessa máls er háttað sé málsmeðferð skattstjóra eigi svo áfátt að fella beri hinar kærðu breytingar skattstjóra úr gildi og taka kröfu kæranda til greina af þeirri ástæðu, gerir ríkisskattstjóri kröfu um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Samkvæmt auglýsingu, dags. 29. júlí 1988, er birtist í Lögbirtingablaði nr. 88/1988, er út kom þann sama dag, var tilkynnt um lok álagningar gjaldárið 1988, sbr. 98. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hin kærða breyting skattstjóra fór fram eftir að álagningu var lokið, en skattstjóri hófst handa um breytinguna með bréfi sínu, dags. 9. ágúst 1988. Þegar af þessari ástæðu varð eigi stuðst við 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981 við framkvæmd breytingarinnar. Skattstjóri skírskotar ranglega til þessa lagaákvæðis í nefndu bréfi sínu, en hefur þó í reynd tekið mið af 96. gr. laga nr. 75/1981 við meðferð málsins, að því undanskildu þó, að kæranda var eigi skýrlega gefinn nægur kostur á því í bréfi skattstjóra, dags. 9. ágúst 1988, að koma að athugasemdum sínum og skýringum áður en breytingin var ákvörðuð. Þá hefur skattstjóri eigi gert fullnægjandi tölulega grein fyrir hinni kærðu breytingu. Vegna þessara annmarka á málsmeðferð skattstjóra þykir eigi verða hjá því komist að ómerkja hina kærðu breytingu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja