Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 631/1989

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. C-liður 8. tl. — 16. gr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. 1. og 2. mgr.  

Söluhagnaður — Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði — Söluhagnaður íbúðarhúsalóðar — Íbúðarhúsalóð — Lóð — Lóðarréttindi — Söluhagnaður færður til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis — RIS. 1988.92 — Málsmeðferð skattstjóra

Málavextir eru þeir, að með kaupsamningi, dags. 22. apríl 1987, seldu kærendur íbúðarlóð að X. 64, Reykjavík, og var söluverð hennar 1.200.000 kr. Sölulaun voru 29.000 kr. Í greinargerð um sölu þessa, dags. 2. mars 1988, er fylgdi skattframtalinu tóku kærendur fram, að söluhagnaður 269.734 kr. færðist til lækkunar á Y. 16, Reykjavík. Gerð var grein fyrir útreikningi söluhagnaðarins í skýrslunni.

Fyrir álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988 tilkynnti skattstjóri kærendum, að söluhagnaður 269.734 kr. hefði verið færður þeim til tekna skv. 8. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Skattstjóri tók fram, að skv. ákvæðum 8. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981 væri hægt að fara fram á frestun á skattlagningu söluhagnaðar af lóðum, ef slíkum lóðum fylgdi íbúðarhúsnæði. Umræddri lóð að X. 64, R., fylgdi ekki íbúðarhúsnæði og væru því ekki skilyrði fyrir frestun söluhagnaðar.

Af hálfu kærenda var fyrrnefndri breytingu skattstjóra mótmælt með kæru, dags. 10. ágúst 1988. Var því haldið fram, að réttra aðferða hefði ekki verið gætt varðandi breytinguna. Við framkvæmd hennar hefði skattstjóra borið að fara eftir ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 en ekki eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. s.l. eins og hann gerði. Þegar af þessum ástæðum bæri að fella þessa breytingu úr gildi. Væri ekki fallist á þessa röksemd var farið fram á, að breytingin yrði felld niður með vísan til 8. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, enda væri þar um rædd meðferð söluhagnaðar, er notuð hefði verið í framtali kærenda, heimil. Orðalag 8. mgr. nefndrar 16. gr. gerði það ekki að skilyrði, að íbúðarhúsnæði væri á viðkomandi lóð heldur væri vísað til þess, að byggingarlóð væri byrjun á íbúðarframkvæmdum og söluhagnað af lóðum mætti því meðhöndla sem hagnað af íbúðarhúsnæði. Var vísað til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 92/1988, er tæki af öll tvímæli um þetta.

Með kæruúrskurði, dags. 21. september 1988, hafnaði skattstjóri kröfum kærenda á svofelldum forsendum:

„Samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt getur skattstjóri leiðrétt einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi. Skattstjóri taldi óyggjandi upplýsingar fyrir hendi í framtalsgögnum kæranda og þar sem ekki hefur verið sýnt fram á annað er aðalkröfu kæranda synjað.

Á eyðublaði fyrir kaup og sölu eigna sem fylgdi framtali kæranda kemur fram sú athugasemd framteljanda að söluhagnaður af íbúðarlóð að X. 64, Reykjavík, færist til lækkunar á stofnverði íbúðarhúsnæðis. Skattstjóri féllst ekki á þá beiðni.

Samkvæmt 8. mgr. 16. gr. skattalaga gilda heimildarákvæði 2. mgr. greinarinnar varðandi fyrningu söluhagnaðar um íbúðarhúsnæði án tillits til byggingarstigs og ná einnig til lóða eða lóðarréttinda sem slíku húsnæði fylgja.

Ekki verður af framtalsgögnum kæranda ráðið að byggingarframkvæmdir hafi verið hafnar á hinni seldu lóð og á tilvitnuð 8. mgr. því ekki við. í tilvitnuðum úrskurði ríkisskattanefndar kemur ekki fram álit nefndarmanna á þeirri framkvæmd skattstjóra að færa hagnað af sölu lóðar til lækkunar stofnverðs íbúðarhúsnæðis heldur aðeins á það bent að það hafi verið gert.

Varakröfu kæranda er því einnig synjað.“

Með kæru, dags. 18. október 1988, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Skírskotað er til kærunnar til skattstjóra varðandi rökstuðning og sérstaklega mótmælt þeirri túlkun skattstjóra, að framkvæmdir á lóð séu skilyrði fyrir því, að 8. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981 eigi við. ítrekað er í þessu sambandi, að öflun lóðar sé byrjun á öflun íbúðarhúsnæðis og eigi nefnd 8. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981 því við í þessu tilfelli.

Með bréfi, dags. 15. september 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Fallist er á kröfu kæranda. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður eigi annað ráðið en að kærandi hafi lagt í byggingarkostnað vegna lóðarinnar að X. 64.“

Að virtum öllum atvikum og með skírskotun til 8. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981 er krafa kærenda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja