Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 644/1989

Gjaldár 1986 og 1987

Lög nr. 75/1981 — 32. gr. — 55. gr. A 1. mgr. — 106. gr. 2. mgr.  

Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðstillag — Ráðstöfunarár fjárfestingarsjóðstillags — Fjárfestingarsjóðstillag, ráðstöfunarár — Álag vegna vantalins skattstofns — Fyrnanleg eign — Bifreið

Kæruatriðin eru í fyrsta lagi sú ákvörðun skattstjóra að bæta 25% álagi á hækkun skattstofna vegna niðurfellingar frádráttar fjárfestingarsjóðstillags. Er þess krafist að álagið verði fellt niður. Í öðru lagi er kærð sú ákvörðun skattstjóra að færa bifreiðina Y. af efnahagsreikningi á persónuframtöl kæranda bæði gjaldárin. Er þess krafist að sú ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að í stað bifreiðarinnar Y. verði bifreiðin X. færð af efnahagsreikningi á persónuframtalið.

Með bréfi, dags. 22. ágúst 1989, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„1. Að virtum framkomnum skýringum og upplýsingum er fallist á niðurfellingu 25% álags.

2. Varðandi bifreiðar kæranda er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Um 1. Með vísan til 1. mgr. 55. gr. A laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er tekjufærsla skattstjóra á umræddu fjárfestingarsjóðstillagi á skattframtali kæranda árið 1986 felld niður, enda varð sú breyting eigi framkvæmd fyrr en á skattframtali kæranda árið 1987, þar sem ráðstöfunarár þess fjárfestingarsjóðstillags taldist vera rekstrarárið 1986 í skilningi nefndrar lagagreinar. Er því skattframtali kæranda árið 1987 breytt til samræmis með tekjufærslu 286.746 kr. í stað 105.235 kr. Opinber gjöld kæranda gjaldárin 1986 og 1987 eru því ákvörðuð að nýju. Eigi þykja efni til þess að bæta 25% álagi á hækkun gjaldstofna gjaldárið 1987, sbr. og kröfugerð ríkisskattstjóra.

Um 2. Úrskurður skattstjóra er staðfestur að því er þetta kæruatriði varðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja