Úrskurður yfirskattanefndar

  • Arðstekjur, skipting milli hluthafa
  • Gjöf

Úrskurður nr. 36/2016

Gjaldár 2009, 2010 og 2011

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 4. tölul., 11. gr. 1. mgr.   Lög nr. 2/1995, 20. gr. 2. mgr.   Lög nr. 138/1994, 12. gr.  

Kærandi færði til tekna í skattframtölum sínum árin 2009, 2010 og 2011 arðgreiðslur frá X ehf. og Y ehf. Ríkisskattstjóri taldi að virða bæri arðgreiðslurnar að hluta sem gjöf frá bróður kæranda þar sem greiðslurnar hefðu ekki verið í samræmi við eignarhlut kæranda í félögunum, þ.e. verið umfram eignarhluti hennar. Yfirskattanefnd taldi vafalaust að gerðu samþykktir félags greinarmun á rétti hluthafa til arðs bæri almennt að byggja á því við skattlagningu arðs, enda lægi þá fyrir áður en til arðsúthlutunar kæmi að hluthafi ætti ekki kröfu á hendur félagi til frekari arðs en leiddi af samþykktum. Öðru máli gegndi hins vegar væri ójöfn skipting arðs eingöngu byggð á samkomulagi hluthafanna sjálfra sín á milli um aðra réttarstöðu en leiddi af lögum og samþykktum, enda væri félagið jafnan ekki aðili að slíkum samningum og ekki bundið af þeim. Við skattlagningu arðs í slíkum tilvikum yrði því að byggja á meginreglu laga um jafnan rétt miðað við fjárhæð hluta. Fyrir lá að í félagssamþykktum X ehf. og Y ehf. var enginn greinarmunur gerður á rétti hluthafa til arðs. Var fallist á með ríkisskattstjóra að virða bæri hinar umdeildu greiðslur til kæranda í tengslum við arðsúthlutanir X ehf. og Y ehf. sem beinar gjafir til hennar samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að því marki sem þær voru umfram hlutafjáreign kæranda í greindum félögum.

Ár 2016, miðvikudaginn 2. mars, er tekið fyrir mál nr. 27/2015; kæra A, dags. 15. janúar 2015, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2009, 2010 og 2011. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 15. janúar 2015, sbr. greinargerð í bréfi, dags. 9. febrúar 2015, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 16. október 2014, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2009, 2010 og 2011. Með úrskurði sínum færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna 13.500.000 kr. í skattframtali árið 2009, 12.126.435 kr. í skattframtali árið 2010 og 1.875.000 kr. í skattframtali árið 2011 sem skattskyldar gjafir samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, á þeim forsendum að arðgreiðslur frá X ehf. og Y ehf. á árunum 2008, 2009 og 2010 bæri að hluta að virða sem gjafir til kæranda frá bróður hennar. Þá færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna í skattframtölum hennar árin 2010 og 2011 27.367.825 kr. fyrra árið og 2.500.000 kr. það síðara sem skattskyldar gjafir samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 11. gr. sömu laga, vegna meintra óheimilla arðsúthlutana frá X ehf. á árunum 2009 og 2010. Lækkaði ríkisskattstjóri framtaldar arðgreiðslur frá greindum einkahlutafélögum í skattframtölum kæranda umrædd ár til samræmis, þó að teknu tilliti til tekjufærslu vanframtalinnar arðgreiðslu frá X ehf. að fjárhæð 24.000.000 kr. og staðgreiðslu af arði að fjárhæð 3.000.000 kr. í skattframtali kæranda árið 2009. Leiddu fyrrgreindar breytingar ríkisskattstjóra til hækkunar tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda um 13.500.000 kr. gjaldárið 2009, um 39.494.260 kr. gjaldárið 2010 og um 4.375.000 kr. gjaldárið 2011, hækkunar fjármagnstekjuskattsstofns um 16.500.000 kr. gjaldárið 2009 og til lækkunar fjármagnstekjuskattsstofns um 39.494.260 kr. gjaldárið 2010 og 4.375.000 kr. gjaldárið 2011.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og að stofn kæranda til tekjuskatts, útsvars og fjármagnstekjuskatts gjaldárin 2009, 2010 og 2011 miðist við innsend skattframtöl „í samræmi við forsendur kæru þessarar“, eins og segir í kærunni. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

II.

Málavextir eru þeir að í skattframtölum sínum árin 2009, 2010 og 2011 færði kærandi til eignar hlutabréf í X ehf. að nafnverði 2.000.000 kr. og hlutabréf í Y ehf. að nafnverði 450.000 kr. Þá færði kærandi til tekna arðgreiðslur frá X ehf. að fjárhæð 36.250.000 kr. í skattframtali árið 2010 og 2.500.000 kr. í skattframtali árið 2011 og frá Y ehf. að fjárhæð 37.500.000 kr. í skattframtali árið 2009, 51.750.000 kr. í skattframtali árið 2010 og 9.375.000 kr. í skattframtali árið 2011.

Hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 5. júlí og 5. nóvember 2013 og 24. janúar 2014, og svarbréf kæranda, dags. 31. ágúst og 28. nóvember 2013 og 24. febrúar 2014, sbr. og boðunarbréf ríkisskattstjóra, dags. 16. júní 2014, og andmælabréf kæranda af því tilefni, dags. 8. september 2014 (misritað 2013). Við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra kom fram að kærandi væri eigandi að 20% hlut í X ehf. og 30% hlut í Y ehf., en hlutafé félaganna væri að öðru leyti í eigu systkina og móður kæranda. Á árunum 2008, 2009 og 2010 hefði X ehf. úthlutað hluthöfum arði að fjárhæð alls 120.000.000 kr. fyrsta árið, 145.000.000 kr. annað árið og 10.000.000 kr. þriðja árið. Þar af hefðu komið í hlut kæranda 30.000.000 kr. fyrsta árið eða 6.000.000 kr. umfram eignarhlut hennar í félaginu, 36.250.000 kr. annað árið eða 7.250.000 kr. umfram eignarhlut og 2.500.000 kr. þriðja árið eða 500.000 kr. umfram eignarhlut. Sömu ár hefði Y ehf. úthlutað hluthöfum arði að fjárhæð alls 100.000.000 kr. fyrsta árið, 138.000.000 kr. annað árið og 25.000.000 kr. þriðja árið. Þar af hefðu komið í hlut kæranda 37.500.000 kr. fyrsta árið eða 7.250.000 kr. umfram eignarhlut, 51.750.000 kr. annað árið eða 10.350.000 kr. umfram eignarhlut og 9.375.000 kr. þriðja árið eða 1.875.000 kr. umfram eignarhlut. Vísaði ríkisskattstjóri í þessu sambandi til þeirra skýringa kæranda í bréfi, dags. 31. ágúst 2013, að samkomulag hefði verið með hluthöfum beggja félaganna um ójafna úthlutun arðs úr þeim, þ.e. að einn hluthafi, B, hefði afsalað sér arði úr félögunum og sætti því skerðingu til samræmis, sbr. yfirlýsingar hluthafanna, dags. 21. ágúst 2013.

Fram kom að ríkisskattstjóra þætti umrædd ráðstöfun óvenjuleg og að til hennar hefði ekki komið í félagi þar sem hluthafar væru ekki bundnir fjölskylduböndum. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að hluthafar í X ehf. og Y ehf. hefðu eignast hluti sína með sama hætti, þ.e. með fyrirframgreiðslu arfs frá foreldrum árið 2004, og engin viðskipti átt sér stað með hlutina frá þeim tíma. Af hálfu kæranda væri komið fram að ójöfn skipting arðs helgaðist af ólíkri aðkomu hluthafanna að rekstri félaganna, þ.e. B hefði verið framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í fjölmörgum öðrum fyrirtækjum og því ekki komið að daglegum rekstri X ehf. og Y ehf. Kvaðst ríkisskattstjóri ekki geta fallist á þær skýringar, enda hefði ekki verið um neinar launagreiðslur að ræða til hluthafa nema í tilviki Y ehf. sem greitt hefði tveimur hluthöfum laun, þar með talið kæranda. Benti ríkisskattstjóri á að meginregla einkahlutafélagalaga nr. 138/1994 væri sú að allir hluthafar skyldu hafa jafnan rétt miðað við fjárhæð hluta, sbr. 1. mgr. 12. gr. laganna. Frávik frá þeirri meginreglu þekktust í lögunum, en að baki þeim byggju þó ávallt rekstrartengdar forsendur, t.d. þegar ójöfn skipting arðs væri sérstaklega ákveðin í samþykktum félags eða félaginu hefði verið skipt niður í sjálfstæðar hagnaðareiningar þar sem hver eining væri gerð upp á grundvelli eigin hagnaðar. Engar slíkar forsendur væru fyrir hendi í tilviki X ehf. og Y ehf. og virtist sú ákvörðun hluthafa félaganna, að ráðstafa arði eins hluthafans til annarra hluthafa, hvorki hafa verið byggð á samþykktum félaganna né yrði séð að venjulegar og eðlilegar rekstrarforsendur byggju að baki henni, svo sem vegna beinnar þátttöku hluthafa í starfsemi félags eða ábyrgðar þeirra á tilteknum verkefnum félagsins þannig að leiða mætti fram sérstakt samband milli afkomu verkefna og eignaraðildar. Aðkoma hluthafa að starfsemi félaga væri alla jafna ólík og með ýmsum hætti. Hluthafasamkomulag um ójafna skiptingu arðs gæti ekki vikið til hliðar skattskyldu með þeim afleiðingum að arður umfram eignarhlut yrði eftir sem áður skattlagður eins og venjulegur arður, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Yrði að líta svo á að um skattskylda gjöf eða örlætisgerning væri að ræða sem skattleggja bæri eftir ákvæðum. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. A-lið 16. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að ákvörðun ríkisskattstjóra um skattlagningu arðs sem gjafar í hendi kæranda gangi þvert gegn skattframkvæmd. Er í því sambandi vísað til umfjöllunar um afsal arfs í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra, dags. 13. janúar 2006, og til sjónarmiða sem Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, hafi viðrað í viðtali við útvarpsstöðina Bylgjuna 9. október 2014 varðandi skattalegar afleiðingar af ráðstöfun happdrættisvinnings til nákomins aðila. Kærandi telji að umrædd tilvik séu alveg sambærileg máli kæranda. Ekki verði því litið svo á að afsal réttinda, svo sem arðs, feli í sér gjafagerning nema arði sé ráðstafað eftir að upprunalegur eigandi hafi móttekið arðinn. Hluthöfum í einkahlutafélögum sé fyllilega heimilt að semja sín á milli um aðra réttarstöðu gagnvart félaginu eða hvor öðrum en leiða myndi af hlutafjáreign og réttum reglum félags. Í tilviki kæranda liggi þannig fyrir að allir hluthafar X ehf. og Y ehf. hafi undirritað yfirlýsingu, dags. 21. ágúst 2013, um að samkomulag hafi verið um að arðsúthlutun þau ár sem um ræðir yrði ekki jöfn milli hluthafa, m.a. vegna ólíkrar aðkomu hluthafa að rekstri félaganna. Lög nr. 138/1994 setji engar hömlur á rétt hluthafa til að afsala sér arði auk þess sem sérstaka heimild sé að finna í 69. gr. laganna til að skerða rétt hluthafa til arðgreiðslu eða annarrar úthlutunar, öðrum hluthöfum til hagsbóta, að fengnu samþykki allra hluthafa. Til stuðnings greindum sjónarmiðum kæranda sé jafnframt vísað til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá er í kærunni vikið nánar að eðli hinna umdeildu tekna kæranda. Er bent á að hvergi í skattalögum sé fjallað um „arð umfram eignarhlut“ eins og það sé nefnt í úrskurði ríkisskattstjóra. Því verði ekki haldið fram jöfnum höndum í málinu að kærandi hafi fengið lögmæta arðsúthlutun og að hluti þeirrar úthlutunar hafi verið gjöf til kæranda. Kærandi byggi á því að skýrlega sé tilgreint í 11. gr. laga nr. 90/2003 hvað felist í hugtakinu arður. Sú túlkun ríkisskattstjóra, að greiðsla til kæranda falli ekki að öllu leyti undir ákvæði 11. gr. laganna, sé úr lausu lofti gripin og án lagastoðar. Sé óumdeilt að X ehf. og Y ehf. hafi úthlutað arði til kæranda og arðstekjur einstaklinga séu skattlagðar samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 11. gr. og 3. mgr. 66. gr. sömu laga. Ríkisskattstjóri byggi ákvörðun sína á því að skilgreina beri úthlutaðan arð með tvenns konar hætti, þ.e. annars vegar samkvæmt skilgreiningu 11. gr. laga nr. 90/2003 og hins vegar sem arð umfram eignarhlut. Síðarnefndu skilgreininguna sé ekki að finna í skattalögum. Ríkisskattstjóri hafi dregið þá ályktun að um hafi verið að ræða örlætisgerning í ljósi sifjaréttarlegra tengsla aðila sem skattleggja bæri á grundvelli 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 teljist hins vegar til arðs af hlutum auk venjulegrar arðgreiðslu sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda sem telja verði sem tekjur af hlutareign þeirra. Ekki sé að finna aðra skilgreiningu á arði í lögum nr. 90/2003. Mótteknar úthlutanir arðs til kæranda hafi verið umfram skráða eignarhlutdeild, en í fullu samræmi við samþykkt samkomulag milli allra hluthafa félaganna og því beri að skattleggja greiðslurnar til samræmis við 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Uppruni hinna umdeildu arðgreiðslna sé sá sami og hefði viðkomandi hluthafi ekki afsalað sér arði og því ekki unnt að líta svo á að um gjafa- og örlætisgerning sé að ræða sem skattleggja beri samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Því verði ekki ráðið á hvaða lagaheimild ríkisskattstjóri byggði ályktun sína um að tekjur kæranda teljist ekki arður. Blandi ríkisskattstjóri saman rökum um sérstaka tegund arðs annars vegar, líkt og um ólögmæta arðsúthlutun hafi verið að ræða, og hins vegar hugtakinu gjöf. Kærandi hafi fengið arðgreiðslur frá umræddum félögum en ekki öðrum hluthöfum. Til þess að um gjafagerning sé að ræða í skilningi 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 þurfi einhver gæði að skipta um hendur þannig að eigur gefanda rýrni og eignaauki eigi sér stað hjá gjafþega. Sá hluthafi sem ekki hafi fengið arð greiddan umrædd ár hafi ekki átt verðmæti sem honum hafi verið unnt að dreifa til kæranda.

Í niðurlagi kærunnar kemur fram til stuðnings málskostnaðarkröfu kæranda að kostnaður kæranda af rekstri málsins nemi 600.000 kr. fyrir utan virðisaukaskatt vegna 30 klukkustunda vinnu umboðsmanns kæranda við málið.

IV.

Með bréfi, dags. 2. mars 2015, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Kemur fram í umsögninni að ekki verði fallist á með kæranda að sjónarmið í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra nr. 1/2006 eða útvarpsviðtali frá árinu 2014 beri með sér að hin kærða ákvörðun stríði gegn skattframkvæmd. Þá sé ákvörðunin ekki í andstöðu við jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. mars 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Eins og fram kemur í kafla I hér að framan lýtur krafa kæranda í máli þessu, sbr. greinargerð umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 9. febrúar 2015, að því að hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og að skattstofnar kæranda „miðist við innsend framtöl í samræmi við forsendur kæru þessarar“, eins og þar segir. Þrátt fyrir framsetningu kröfugerðarinnar er í kærunni einvörðungu fjallað um þann þátt málsins sem varðar arðgreiðslur frá X ehf. og Y ehf. á árunum 2008, 2009 og 2010 sem ríkisskattstjóri taldi að skattleggja bæri sem gjafir í hendi kæranda á þeim forsendum að greiðslurnar hefðu ekki verið í samræmi við eignarhlut kæranda í félögunum. Í kærunni er þannig ekkert vikið að breytingum ríkisskattstjóra er lutu að arðsúthlutunum X ehf. árin 2009 og 2010 sem ríkisskattstjóri taldi óheimilar þar sem svigrúm hefði ekki verið til þeirra samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 74. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, en í því sambandi lagði ríkisskattstjóri m.a. til grundvallar að endurmatsreikningur fastafjármuna í efnahagsreikningi X ehf. gæti ekki verið grundvöllur arðsúthlutunar þar sem ekki væri um frjálsan sjóð að ræða í skilningi fyrrgreinds lagaákvæðis. Að þessum þætti málsins var stuttlega vikið í andmælabréfi umboðsmanns kæranda, dags. 8. september 2013, þar sem fram kom m.a. að stjórnendur og hluthafar X ehf. hefðu verið í góðri trú um lögmæti arðsúthlutana úr félaginu umrædd ár, og hlutu þau sjónarmið umfjöllun í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra. Þá er hvorki í andmælabréfinu né í kæru til yfirskattanefndar vikið að tekjufærslu vanframtalinnar arðgreiðslu frá X ehf. að fjárhæð 24.000.000 kr. í skattframtali kæranda árið 2009. Eins og mál þetta liggur fyrir samkvæmt framansögðu og kæra til yfirskattanefndar er úr garði gerð verður að líta svo á að kærandi uni breytingum ríkisskattstjóra að öðru leyti en varðar skattlagningu vegna arðgreiðslna frá X ehf. og Y ehf. er voru umfram eignarhlut kæranda í félögunum umrædd ár. Verður því lagt til grundvallar í úrskurði þessum að krafa kæranda sé efnislega sú að hækkun ríkisskattstjóra á tekjuskatts- og útsvarsstofni kæranda um 13.500.000 kr. gjaldárið 2009 verði felld niður og að tekjuskatts- og útsvarsstofn hennar lækki um 12.126.435 kr. gjaldárið 2010 og um 1.875.000 kr. gjaldárið 2011 frá því sem ríkisskattstjóri ákvað.

Kærandi færði til tekna í skattframtölum sínum árin 2009, 2010 og 2011 arð frá Y ehf. að fjárhæð 37.500.000 kr. gjaldárið 2009, 51.750.000 kr. gjaldárið 2010 og 9.375.000 kr. gjaldárið 2011. Þá færði kærandi til tekna arðgreiðslur frá X ehf. að fjárhæð 36.250.000 kr. gjaldárið 2010 og 2.500.000 kr. gjaldárið 2011. Þá er óumdeilt að kærandi fékk greiddan arð frá X ehf. að fjárhæð 24.000.000 kr. á árinu 2008 sem telja bar til tekna í skattframtali kæranda árið 2009, sbr. hér að framan. Ákvörðun sína um að skattleggja bæri hluta þessara arðgreiðslna, þ.e. 6.000.000 kr. gjaldárið 2009 og 1.776.435 kr. gjaldárið 2010 í tilviki X ehf. og 7.500.000 kr. gjaldárið 2009, 10.350.000 kr. gjaldárið 2010 og 1.875.000 kr. gjaldárið 2011 í tilviki Y ehf., sem gjafir samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 en ekki sem arð í skilningi 4. tölul. C-liðar sömu lagagreinar byggði ríkisskattstjóri á því að greiðslur þessar hefðu ekki verið í samræmi við eignarhlut kæranda í félögunum. Benti ríkisskattstjóri á að heildarfjárhæð úthlutaðs arðs frá X ehf. hefði numið 120.000.000 kr. á árinu 2008 og miðað við 20% eignarhlut kæranda í félaginu hefði arðgreiðsla til hennar átt að nema 24.000.000 kr. Þá byggði ríkisskattstjóri á því að úthlutun til kæranda umfram eignarhlut í X ehf. á árinu 2009 hefði numið 1.776.435 kr. að teknu tilliti til mats ríkisskattstjóra á svigrúmi X ehf. til arðsúthlutunar á því ári. Varðandi Y ehf. kom fram að heildarfjárhæð úthlutaðs arðs frá því félagi hefði numið 100.000.000 kr. á árinu 2008, 138.000.000 kr. á árinu 2009 og 25.000.000 kr. á árinu 2010 og miðað við 30% eignarhlutdeild kæranda í Y ehf. hefði arðgreiðsla til kæranda átt að nema 30.000.000 kr. fyrsta árið, 41.400.000 kr. það næsta og 7.500.000 kr. það síðasta. Kærandi hefði því fengið greiðslur umfram eignarhlut að fjárhæð samtals 13.500.000 kr. (6.000.000 + 7.500.000) tekjuárið 2008, 12.126.435 kr. (1.776.435 + 10.350.000) tekjuárið 2009 og 1.875.000 kr. tekjuárið 2010.

Í úrskurði sínum rakti ríkisskattstjóri að hlutafé X ehf. og Y ehf. væri að öllu leyti í eigu fjölskyldu kæranda. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins var hlutafé í X ehf. í eigu kæranda, móður kæranda og þriggja systkina hennar í jöfnum hlutföllum (20%) og hlutafé í Y ehf. alfarið í eigu kæranda og systkina hennar, en eignarhlutur hvers um sig nam ýmist 20% eða 30%. Þá vísaði ríkisskattstjóri til þeirra skýringa, sem fram komu af hálfu kæranda við meðferð málsins, að samkomulag hefði orðið með hluthöfum beggja félaganna um ójafna úthlutun arðs úr þeim, þ.e. að einn hluthafi, B, hefði afsalað sér arði úr félögunum og því sætt skerðingu til samræmis, sbr. yfirlýsingu hluthafanna, dags. 21. ágúst 2013, sem fylgdi bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 31. ágúst 2013. Greinir nánar frá forsendum og rökstuðningi hins kærða úrskurðar ríkisskattstjóra í kafla II hér að framan.

Samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, teljast m.a. til skattskyldra tekna beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum, þar með talin afhending slíkra verðmæta í hendur nákominna ættingja, nema um fyrirframgreiðslu upp í arf sé að ræða. Undanskildar eru þó tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir. Í A-lið 16. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að gjafir, sem ekki séu í peningum, skuli skattstjóri meta til peningaverðs. Er tekið fram í reglugerðarákvæðinu að það teljist einnig til gjafa, ef menn afhendi einhverjar eignir í hendur ættingja sinna, tengdamanna eða annarra, án þess að greiðsla komi í staðinn, eða ástæða sé til að ætla, að endurgreiðslan sé aðeins fyrir nokkrum hluta eignarinnar. Skuli þá færa til tekna mismuninn á því endurgjaldi og áætluðu matsverði hinnar seldu eignar. Sé um eignaskipti að ræða verði að meta hvora tveggja eignina.

Skattyfirvöldum er almennt heimilt að leggja á það sjálfstætt mat, hvort atvik hafi verið með þeim hætti að tiltekin lagaregla taki til þeirra, og eru skattyfirvöld þá ekki bundin við mat skattaðila á sömu atvikum. Við mat þetta þurfa skattyfirvöld í vissum tilvikum að sýna fram á að skattaðili hafi hagað einkaréttarlegum ráðstöfunum sínum þannig að komast mætti hjá lögmæltri skattlagningu, t.d. með málamyndagerningi, sem ekki væri ætlað að hafa gildi samkvæmt efni sínu, eða óvenjulegum samningi við annan skattaðila, gerðum með það fyrir augum að sniðganga tiltekna sköttunarreglu, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 90/2003. Í öðrum tilvikum kann að reyna beint á greiningu á efni tiltekins gernings, þannig að grafist er fyrir um hvert efni hans sé í raun, en heiti það, sem gerningnum er gefið, ræður ekki úrslitum ef það er annað en efnið gefur til kynna.

Samkvæmt gögnum málsins var starfsemi X ehf. þau ár sem um ræðir fólgin í útleigu atvinnuhúsnæðis. Starfsemi Y ehf. fólst í verslunarrekstri. Fyrir liggur að bæði félögin voru að öllu leyti í eigu fjölskyldu kæranda, sbr. hér að framan. Er komið fram í málinu að kærandi og systkini hennar hafi eignast hlut sinn í báðum félögunum vegna fyrirframgreiðslu arfs frá foreldrum sínum árið 2004. Við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra voru þær skýringar gefnar á tilhögun arðgreiðslna félaganna á því tímabili sem málið varðar að samkomulag hafi orðið með hluthöfum um ójafna skiptingu arðs. Hafi það helgast af því að einn hluthafi og stjórnarmaður í félögunum, B, hafi ekkert skipt sér af starfsemi þeirra þar sem hann hafi á sama tíma sinnt rekstri annarra fyrirtækja og því samþykkt að afsala sér arðgreiðslum, sbr. bréf umboðsmanns kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 28. nóvember 2013.

Samkvæmt íslenskri löggjöf um hlutafélög og einkahlutafélög er meginreglan sú að allir hlutir skuli hafa jafnan rétt miðað við fjárhæð hluta nema annað sé ákveðið í samþykktum félags, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og 12. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Vafalaust er að sé gerður greinarmunur í samþykktum félags á rétti hluthafa til arðs ber almennt að byggja á því við skattlagningu samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, enda liggur þá fyrir áður en til arðsúthlutunar kemur að hluthafi á ekki kröfu á hendur félaginu til frekari arðs en leiðir af samþykktum. Öðru máli gegnir hins vegar sé ójöfn skipting arðs eingöngu byggð á samkomulagi hluthafanna sjálfra sín á milli um aðra réttarstöðu að þessu leyti en leiðir af lögum og samþykktum, enda er félagið jafnan ekki aðili að slíkum samningum og ekki bundið af þeim. Við skattlagningu arðs í slíkum tilvikum verður því að byggja á meginreglu laga um jafnan rétt miðað við fjárhæð hluta. Við arðsúthlutun sætir hluthafi því skattlagningu þess arðs sem hann á rétt á samkvæmt samþykktum félags. Af þessu þykir jafnframt leiða að skattleggja beri ávinning annarra hluthafa af slíkum samningi, sem hefur í för með sér greiðslur vegna arðsúthlutunar umfram hlutafjáreign, sem gjöf í skilningi 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Má í þessu sambandi jafnframt vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 345/2015.

Fyrir liggur að í félagssamþykktum X ehf. og Y ehf., sem eru meðal gagna málsins, er enginn greinarmunur gerður á rétti hluthafa til arðs. Verður því að leggja til grundvallar að hluthafinn B, sem samkvæmt framansögðu var eigandi 20% hlutafjár í X ehf. og Y ehf. þegar til arðsúthlutana kom á árunum 2008, 2009 og 2010, hafi átt rétt til arðs í samræmi við eignarhlut sinn í félögunum, sbr. framangreint. Að þessu virtu og eins og málið liggur fyrir verður að fallast á með ríkisskattstjóra að virða beri hinar umdeildu greiðslur til kæranda í tengslum við arðsúthlutanir X ehf. og Y ehf. sem beinar gjafir til hennar samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að því marki sem þær voru umfram hlutafjáreign kæranda í greindum félögum. Geta sjónarmið í ákvarðandi bréfi ríkisskattstjóra frá 13. janúar 2006, sem lúta að höfnun arfs og meðferð erfðafjárskatts í því sambandi, sbr. lög nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, ekki leitt til annarrar niðurstöðu í málinu. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um að henni verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja