Úrskurður yfirskattanefndar

  • Erfðafjárskattur
  • Skattstofn vegna hlutabréfa
  • Málsmeðferð
  • Málskostnaður

Úrskurður nr. 78/2016

Lög nr. 14/2004, 4. gr. 2. mgr., 5. gr.   Lög nr. 30/1992, 8. gr. 2. mgr. (brl. nr. 96/1998, 4. gr.)   Starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar.  

Í máli þessu vegna erfðafjárskatts var deilt um það á hvaða verði telja bæri til eignar í erfðafjárskýrslu hlutafjáreign í tveimur einkahlutafélögum, en sýslumaður taldi að miða bæri við bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi félaganna (innra virði). Yfirskattanefnd rakti fyrirliggjandi upplýsingar um efnahag félaganna í árslok 2013 samkvæmt ársreikningum þeirra. Í ljósi þeirra upplýsinga var ekki fallist á með kærendum að sala þeirra á viðskiptamannalista annars félagsins í mars 2014 yrði lagt að jöfnu við sölu hlutafjár í félögunum og gæti þannig talist bera með sér tækt gangverð í viðskiptum í skilningi laga um erfðafjárskatt. Stóð ákvörðun sýslumanns því óhögguð að teknu tilliti til leiðréttingar vegna skulda. Þá þóttu ekki efni til annars en að fallast á kröfu kærenda um að tilfærðar kröfur félaganna á hendur arfleifanda í ársreikningi yrðu færðar með frádráttarbærum skuldum í erfðafjárskýrslu. Var skattstofn erfðafjárskatts lækkaður frá því sem sýslumaður ákvað.

Ár 2016, miðvikudaginn 27. apríl, er tekið fyrir mál nr. 179/2015; kæra A, B og C, dags. 31. ágúst 2015, vegna ákvörðunar erfðafjárskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Helstu málavextir eru þeir að með kæru, dags. 11. janúar 2015, skutu kærendur til yfirskattanefndar ágreiningi um ákvörðun erfðafjárskatts kærenda vegna arfs úr dánarbúi M, sem lést 2. mars 2014, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 28. nóvember 2014. Í kærunni kom fram að málinu væri skotið til yfirskattanefndar á grundvelli kæruheimildar í 7. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Þá kom fram í kærunni að kæruefni málsins lyti að þeirri ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, sbr. bréf embættisins, dags. 12. desember 2014, að miða skattstofn erfðafjárskatts kærenda vegna hlutabréfa í X ehf. og Y ehf. við bókfært verð eigin fjár félaganna samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi þeirra, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, eða 14.004.473 kr. í tilviki X ehf. og 4.002.996 kr. í tilviki Y ehf. Umrædd hlutabréf höfðu verið tilgreind í erfðafjárskýrslu á nafnverði eða 1.590.000 kr. í tilviki X ehf. og 500.000 kr. í tilviki Y ehf. Með fyrrgreindu bréfi sýslumanns, dags. 12. desember 2014, var erfingjum M heitins gefinn kostur á því að óska eftir því við sýslumann að hann lyki málinu með því að leggja á erfðafjárskatt í samræmi við fyrrgreindan skilning ellegar „bera ákvörðun sýslumanns um grundvöll álagningar sem felst í bréfi þessu undir yfirskattanefnd, án þess að álagning skattsins hafi farið fram“, eins og sagði í bréfinu. Í kæru til yfirskattanefndar var þess aðallega krafist að ákvörðun sýslumanns yrði felld úr gildi, en til vara að skattstofn erfðafjárskatts vegna hlutabréfa í X ehf. og Y ehf. yrði lækkaður, svo sem nánar greindi.

Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 118, 29. apríl 2015 var kæru kærenda ásamt meðfylgjandi gögnum vísað til sýslumanns til meðferðar og afgreiðslu. Í úrskurðinum var talið að meðferð málsins hjá sýslumanni hefði ekki ratað í þann farveg sem lög nr. 14/2004 gerðu ráð fyrir, sbr. 4. mgr. 7. gr. þeirra laga, og ekki verið leyst úr deiluefninu með þeim hætti sem ákvæði þetta mælti fyrir um, þ.e. með skriflegri tilkynningu um ákvörðun erfðafjárskatts vegna arfs úr dánarbúi M. Var ekki talið að fyrrgreint bréf sýslumanns, dags. 12. desember 2014, fæli í sér neina slíka ákvörðun, enda hefði ekki farið fram af hendi sýslumanns nein álagning erfðafjárskatts vegna arfs úr dánarbúinu. Lægi því ekki fyrir nein ákvörðun af hendi sýslumanns sem kæranleg væri til yfirskattanefndar, sbr. og lög nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Var kærunni því vísað frá yfirskattanefnd og send sýslumanni til meðferðar og afgreiðslu í samræmi við 4. mgr. 7. gr. laga nr. 14/2004.

II.

Með bréfi, dags. 4. ágúst 2015, tilkynnti sýslumaður kærendum um álagningu erfðafjárskatts vegna arfs úr dánarbúi M, sbr. ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 14/2004. Í bréfinu rakti sýslumaður stuttlega málsatvik. Kom fram að í erfðafjárskýrslu vegna dánarbúsins, sem kærendur hefðu lagt fram, væru hlutabréf í Y ehf., X ehf. og Z ehf. talin fram á nafn- og markaðsverði eða 500.000 kr. í tilviki Y ehf. og Z ehf. og 1.590.000 kr. í tilviki X ehf., þ.e. samtals 2.590.000 kr. Við athugun sýslumanns á framlögðum ársreikningum félaganna hefði komið í ljós að eigið fé Z ehf. væri neikvætt og því yrði að telja að hlutabréf í félaginu væru einskis virði. Samkvæmt upplýsingum í ársreikningi K ehf. væri það félag í eigu Y ehf. og að mati sýslumanns bæri því að taka verðmæti hins fyrrnefnda félags 217.300 kr. með í reikninginn við mat á eignum hins síðarnefnda. Hinn látni hefði átt hlutabréf í bæði Y ehf. og X ehf. og næmu eignir þeirra félaga samkvæmt ársreikningum 13.346.158 kr. í tilviki X ehf. og 4.772.974 kr. í tilviki Y ehf. Þá skírskotaði sýslumaður til sjónarmiða kærenda varðandi mat á verðmæti félaganna, þ.e. að miða bæri við umsamið söluverð við sölu á viðskiptamannalista félaganna, og að taka bæri tillit til skulda hins látna við félögin. Vísaði sýslumaður af því tilefni til ákvæðis 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004 og tók fram að samkvæmt skýrum fyrirmælum þess bæri að miða við bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi félaganna. Bæri því að miða við bókfært eigið fé félaganna samkvæmt ársreikningum fyrir árið 2013 eða 13.346.158 kr. í tilviki X ehf., 4.772.974 kr. í tilviki Y ehf. og 0 kr. í tilviki Z ehf. eða samtals 18.119.132 kr. Samkvæmt því yrðu heildareignir dánarbúsins í erfðafjárskýrslu 68.315.019 kr. að teknu tilliti til frádráttarliða að fjárhæð 40.327.495 kr. sem sýslumaður hefði fallist á. Hrein eign til skipta yrði því 27.987.524 kr. Fjárhæð arfshluta hvers erfingja yrði 9.329.175 kr., óskattskyldur arfur hvers erfingja 500.000 kr., skattskyldur arfur 8.829.175 kr. og erfðafjárskattur hvers erfingja 882.917 kr.

III.

Með kæru, dags. 31. ágúst 2015, hafa kærendur skotið ákvörðun sýslumanns til yfirskattanefndar. Í kærunni eru gerðar svofelldar kröfur:

„Sóknaraðili (sic) gerir þær kröfur aðallega að verðmæti hlutafélaganna X ehf. og Y ehf. í skattstofni til erfðafjárskatts verði lækkað til samræmis við markaðsverð félaganna á grundvelli samkomulags, dags. 17. mars 2014, eða í nafnverð félaganna. Jafnframt er þess krafist að skuldir í erfðafjárskýrslu í lið 6.3 verði hækkaðar um kr. 5.127.746 (kröfur á tengda aðila).

Til vara er þess krafist ef ekki verður fallist á aðalkröfu að samkomulagið taki til X ehf. eingöngu og skuldir í erfðafjárskýrslu í lið 6.3 verði hækkaðar um kr. 5.127.746.

Til þrautavara er þess krafist ef ekki verður fallist á aðalkröfu og varakröfu sóknaraðila að við mat á verðmæti X ehf. og Y ehf. í skattstofni til erfðafjárskatts verði tekið mið af bókfærðu virði eigin fjár félaganna í ársreikningi þeirra fyrir árið 2014. Jafnframt er þess krafist að skuldir í erfðafjárskýrslu í lið 6.3 verði hækkaðar um kr. 1.187.416 (krafa á tengda aðila).

Til þrautaþrautavara er þess krafist ef ekki verður fallist á kröfur sóknaraðila hér að framan að bókfært virði eigin fjár í X ehf. og Y ehf. verði lækkað sem nemur greiðslu erfingja á kröfu félaganna á tengda aðila, samtals að fjárhæð kr. 3.940.330,- eða að skuldir í lið 6.3 í erfðafjárskýrslu verði hækkaðar sem nemur kr. 5.127.746 eða lægri fjárhæð að mati nefndarinnar.“

Þá kemur fram að í öllum tilvikum sé þess krafist að kærendum verði ákvarðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Í kærunni kemur fram að M heitinn hafi starfað við skattaráðgjöf og bókhalds- og uppgjörsþjónustu um árabil. M hafi starfað einn og starfsemi hans verið rekin innan vébanda tveggja einkahlutafélaga, þ.e. X ehf. og Y ehf. Eftir andlát M hafi erfingjar reynt að selja félögin, en enginn hægðarleikur hafi verið að taka við rekstri þeirra þar sem starfsemin og öll viðskiptavild henni tengd hafi verið bundin persónu M. Þrátt fyrir þetta hafi náðst samkomulag við ótengdan aðila, E viðskiptafræðing, um kaup á viðskiptamannalista félaganna, sbr. samkomulag, dags. 17. mars 2014. Kærendur hafi reynt að flýta skiptum eins og kostur var til þess að bjarga verðmætum vegna starfseminnar og greitt úr eigin vasa ýmsar skuldir, svo sem ógreidda leigu, yfirdrátt í banka, virðisaukaskatt o.fl., enda hafi engir fjármunir verið til staðar í félögunum. Þá hafi kærendur leitast við að innheimta útistandandi kröfur, en það hafi reynst erfitt vegna tregðu skuldara og lítið sem ekkert hafi fengist greitt upp í kröfur. Engir fastafjármunir hefðu verið í félögunum, aðeins ónýtar viðskiptakröfur, fyrirframgreiðslur, kröfur á tengda aðila og handbært fé sem ekki hafi verið til staðar í reynd. Eina verðmætið í félaginu hefði verið viðskiptamannalisti sem seldur hafi verið E fyrir 1.000.000 kr. sem endurspegli þannig markaðsverðmæti félaganna. Við frágang og skil á erfðafjárskýrslu til sýslumanns hafi síðan risið ágreiningur um mat á verðmæti félaganna þar sem sýslumaður hafi litið svo á að beita bæri reiknireglu 4. gr. laga nr. 14/2004 í því sambandi og miða við bókfært verð eigin fjár félaganna.

Að svo búnu er í kærunni vikið að ákvæðum 4. gr. laga nr. 14/2004 og tekið fram að í 2. mgr. þeirrar lagagreinar sé skýrlega tilgreint að miða beri erfðafjárskatt við markaðsverðmæti hlutabréfa, en liggi það ekki fyrir skuli horft til bókfærðs verðs eigin fjár. Með samkomulagi erfingja og E þann 17. mars 2014 hafi viðskiptamannalisti M, sem verið hefði grundvöllur að rekstri þeirra félaga sem um ræðir, verið seldur. Líta megi því á söluna sem ígildi sölu hlutafjár félaganna. Sé byggt á því af hálfu kærenda að söluverðið 1.000.000 kr. sé jafnframt verðmæti félaganna sem miða beri skattstofn til erfðafjárskatts við. Rauði þráðurinn í lögum um erfðafjárskatt sé að raunvirði eigna myndi skattstofn, þ.e. markaðsverð eigna. Með ákvörðun sýslumanns sé byggt á reiknireglu en litið framhjá markaðsverði félaganna þrátt fyrir fyrirliggjandi samkomulag, dags. 17. mars 2014. Hafnað sé þeirri afstöðu sýslumanns að einungis sé unnt að líta til markaðsverðs við sölu á beinum eignarhlutum í félögum, enda geti félög gengið kaupum og sölum án þess að eignarhlutir séu seldir, t.d. þegar seld sé viðskiptavild ásamt tækjum og tólum vegna rekstrar, sbr. virðisaukaskattslög nr. 50/1988. Hafa beri í huga að samkomulagið sé gert nokkrum dögum eftir andlát M og verðmæti þeirra félaga sem um ræðir hafi ekkert breyst á nokkrum dögum. Fásinna sé við mat á verðmæti eigna að miða ávallt og undantekningarlaust við andlátsdag. Verði því ekki litið framhjá samkomulaginu í málinu. Er vísað til meðfylgjandi yfirlýsingar E, dags. 23. mars 2015, í þessu sambandi. Markmið 4. gr. laga nr. 14/2004 sé fyrst og fremst að ákveða skurðpunkt fyrir hvaða eignir og skuldir falli til dánarbús, þ.e. miðað við andlátsdag, en ekki að kveða á um heildarverðmæti eigna. Engin atvik hafi átt sér stað frá andlátsdegi M til undirritunardags samkomulagsins sem hafi getað haft áhrif á verðmæti félaganna. Sanngirnissjónarmið leiði til þess að við mat á verðmæti þeirra megi líta til samkomulagsins. Gæta verði meðalhófs við álagningu skatta og sýslumanni sé því heimilt að líta til meginreglu 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004 við mat á verðmæti hlutafjár í stað þess að beita undantekningarreglu 2. mgr. sömu lagagreinar. Þótt samkomulagið hafi einungis tilgreint annað félagið, þ.e. X ehf., hafi í reynd verið um að ræða viðskiptamannalista vegna þeirra beggja.

Í niðurlagi kærunnar eru kröfur kærenda áréttaðar og sérstök athygli vakin á því að sýslumaður hafi ekki tekið neina afstöðu til kröfu kærenda um hækkun tilfærðra skulda í erfðafjárskýrslu. Sé þar um að ræða brot á rökstuðningsreglu V. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er ítrekað að erfingjar M hafi greitt skuldir félaganna úr eigin vasa án nokkurrar lagaskyldu, þ.e. vangreidda leigu 250.000 kr., opinber gjöld 1.118.318 kr., ógreiddan virðisaukaskatt vegna janúar og febrúar 2014 81.008 kr. og yfirdráttarskuld 2.491.004 kr. Umræddar greiðslur erfingja að fjárhæð samtals 3.940.330 kr. skuli koma til frádráttar skuld M við félögin og þannig til lækkunar á bókfærðu virði eigin fjár félaganna. Hljóti að vera sanngirnisrök fyrir því að lækka tilfærðar kröfur á tengda aðila og þannig bókfært verð eigin fjár sem þessu nemi auk þess sem tilfærðar skuldir í lið 6.3 í erfðafjárskýrslu hækki um 1.187.416 kr. eða um 5.127.746 kr.

Kærunni fylgja ýmis gögn sem tíunduð eru í niðurlagi kærunnar.

IV.

Með bréfi, dags. 5. október 2015, hefur sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagt fram umsögn um kæruna. Í bréfi sýslumanns er vísað til þeirra sjónarmiða sem fram hafi komið af hálfu sýslumanns við meðferð málsins.

Með tölvupósti 4. febrúar 2016 lagði kærandi, C, fram gögn til stuðnings málskostnaðarkröfu kærenda, þ.e. ljósrit af sölureikningi ... að fjárhæð 124.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti og kvittun fyrir innborgun 30. mars 2015.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, vegna arfs úr dánarbúi M, sem lést þann 2. mars 2014, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 28. nóvember 2014. Lýtur ágreiningsefni málsins einkum að því á hvaða verði telja beri til eignar í erfðafjárskýrslu hlutafjáreign dánarbúsins í tveimur félögum, X ehf. og Y ehf., sem tilgreind var í skýrslunni á nafnverði. Taldi sýslumaður að leggja bæri til grundvallar bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi nefndra einkahlutafélaga, enda væri tæku gangverði ekki til að dreifa. Samkvæmt því bæri að telja hlutabréf í X ehf. til eignar með 13.346.158 kr. og hlutabréf í Y ehf. til eignar með 4.772.974 kr. Af hálfu kærenda er þess hins vegar aðallega krafist að hlutafé í félögunum verði fært til eignar miðað við umsamið söluverð 1.000.000 kr. samkvæmt samkomulagi kærenda og E, dags. 17. mars 2014, „um aðgengi að viðskiptamannalista og afhendingu bókhaldsgagna X ehf.“, enda sé umrætt samkomulag ígildi sölu hlutafjár í félögunum og beri með sér gangverð hlutafjárins í viðskiptum, eins og nánar er leitast við að rökstyðja í kæru. Nánar er greint frá kröfugerð kærenda í kafla III hér að framan. Eins og þar kemur fram verður að telja að af hálfu kærenda sé aukinheldur höfð uppi sjálfstæð krafa þess efnis að við ákvörðun erfðafjárskatts vegna arfs úr dánarbúinu verði tekið tillit til skulda arfleifanda við greind félög að fjárhæð samtals 5.127.746 kr.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, er skattstofn erfðafjárskatts heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði samkvæmt 5. gr. laganna. Með heildarverðmæti samkvæmt 1. mgr. er átt við almennt markaðsverðmæti viðkomandi eigna, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Kemur fram að þetta gildi um öll verðmæti sem metin verði til fjár, svo sem nánar er tilgreint. Er m.a. tekið fram að séu verðbréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skuli telja þau til eignar á kaupgengi, eins og það er skráð við síðustu lokun markaðar fyrir andlát arfleifanda. Þá kemur fram að ef hlutabréf í félagi eru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skuli miða við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags, að viðbættum áunnum óefnislegum verðmætum sem metin eru til fjár og gefa af sér arð í framtíðinni, en óheimilt er lögum samkvæmt að færa til bókar. Sama gildir um eignir í öðrum félögum. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004 eru sérreglur um skattstofn erfðafjárskatts vegna tiltekinna eigna. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laganna skal erfðafjárskattur hvers erfingja reiknaður út miðað við verðmæti arfs á dánardegi arfleifanda.

Fyrrgreint ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004 varðandi mat á hlutabréfum til eignar í erfðafjárskýrslu er ekki sérstakt hvað varðar ákvörðun erfðafjárskatts. Það er í samræmi við þá meginreglu að í þeim tilvikum þegar glöggra upplýsinga nýtur ekki um gangverð hlutabréfa í viðskiptum sé almennt viðhlítandi að byggja mat á gangverði á bókfærðu verði eigin fjár viðkomandi félags samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi þess, svokölluðu innra virði, sbr. m.a. lög nr. 3/2006, um ársreikninga, og dóm Hæstaréttar Íslands frá 6. nóvember 2008 í málinu nr. 54/2008 þar sem innra virði kemur við sögu. Þá er gert ráð fyrir slíkri verðviðmiðun, sem hér um ræðir, í 9. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, varðandi kaup á hlutabréfum með kauprétti.

Fyrir liggur að hlutabréf í X ehf. og Y ehf. voru ekki skráð á skipulegum verðbréfamarkaði, sbr. lög nr. 110/2007, um kauphallir. Í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004 bar því að miða við gangverð hlutabréfanna í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags. Eins og fram er komið taldi sýslumaður að engu tæku gangverði væri til að dreifa og því bæri að leggja til grundvallar bókfært verð eigin fjár félaganna. Af hálfu kærenda er því hins vegar haldið fram að taka beri mið af umsömdu endurgjaldi samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi þeirra við E, dags. 17. mars 2014, um aðgengi E að viðskiptamannalista og bókhaldi X ehf. Telja kærendur að söluverðið beri með sér raunverulegt gangverð félaganna á andlátsdegi, enda hafi viðskiptamannalistinn verið eina raunverulega verðmætið í félögunum.

Samkvæmt ársreikningi X ehf. fyrir árið 2013 námu eignir félagsins í árslok 2013, þ.e. fyrirframgreiðslur, viðskiptakröfur, kröfur á tengda aðila og handbært fé (bankainnstæður), samtals 13.346.158 kr. Skuldir félagsins námu samtals 1.191.344 kr. og óráðstafað eigið fé 10.197.902 kr. Samkvæmt ársreikningi Y ehf. fyrir árið 2013 námu eignir félagsins í árslok 2013, þ.e. fyrirframgreiðslur, viðskiptakröfur, kröfur á tengda aðila og handbært fé (bankainnstæður), samtals 4.772.974 kr. Skuldir félagsins námu samtals 986.597 kr. og óráðstafað eigið fé 3.004.938 kr. Þegar litið er til þessara upplýsinga um efnahag greindra félaga í árslok 2013 verður ekki fallist á með kærendum að fyrrgreint samkomulag um sölu á viðskiptamannalista X ehf. verði lagt að jöfnu við sölu hlutafjár í einkahlutafélögunum og geti þannig talist bera með sér tækt gangverð í viðskiptum í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004. Verður ekki framhjá því litið að samkomulagið tók einvörðungu til aðgangs að viðskiptamannalista og bókhaldi X ehf. og var sérstaklega tekið fram í samkomulaginu að ekki væri um að ræða kaup á hlutafé félagsins eða öðrum eignum þess, eins og útistandandi kröfum. Með vísan til framanritaðs þykja ekki forsendur til að hrófla við þeirri ákvörðun sýslumanns að telja hlutabréf dánarbúsins í X ehf. og Y ehf. til eignar í erfðafjárskýrslu miðað við bókfært verð eigin fjár einkahlutafélaganna samkvæmt ársreikningi þeirra fyrir árið 2013, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004. Á hinn bóginn virðist sýslumaður hafa tekið mið af bókfærðu eigin fé að viðbættum skuldum við ákvörðun sína, sem ekki fær staðist. Þykir bera að leiðrétta þetta með úrskurði þessum og teljast umrædd hlutabréf því til eignar í erfðafjárskýrslu með 12.154.814 kr. í tilviki X ehf. og með 3.786.377 kr. í tilviki Y ehf. eða samtals 15.941.191 kr.

Víkur þá að þeim þætti málsins sem varðar tilfærðar kröfur X ehf. og Y ehf. á hendur M heitnum í ársreikningum félaganna fyrir árið 2013 að fjárhæð samtals 5.127.746 kr., en af hálfu kærenda er þess krafist að greindar skuldir verði færðar með frádráttarbærum skuldum arfleifanda í erfðafjárskýrslu, sbr. 5. gr. laga nr. 14/2004. Þessi krafa kærenda, sem ítrekað kom fram við meðferð málsins hjá sýslumanni, sbr. tölvupósta C til fulltrúa sýslumanns dagana 8., 11. og 17. desember 2014, hlaut af einhverjum ástæðum enga umfjöllun í hinni kærðu ákvörðun sýslumanns. Verður að taka undir með kærendum að málsmeðferð sýslumanns hafi verið áfátt að þessu leyti, enda bar sýslumanni að taka rökstudda afstöðu til þessarar kröfu kærenda varðandi ákvörðun erfðafjárskatts, sbr. til hliðsjónar sjónarmið í úrskurði yfirskattanefndar nr. 40/2005. Eins og málið liggur fyrir yfirskattanefnd samkvæmt þessu og þar sem ekki hefur verið dregið í efa að um hafi verið að ræða réttmætar kröfur félaganna á hendur arfleifanda þykja ekki efni til annars en að fallast á kröfu kærenda varðandi þetta atriði, sbr. 5. gr. laga nr. 14/2004.

Af hálfu kærenda er þess krafist að þeim verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Fyrir liggur að einn erfingja, C, hefur rekið mál kærenda á öllum stigum þess. Verður því að líta svo á að um óbeinan kostnað kærenda sé að ræða vegna eigin vinnu við málareksturinn sem ekki kemur til álita sem málskostnaður í skilningi 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. og lið 3.2 í starfsreglum yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014. Þykja því ekki lagaskilyrði til að úrskurða kærendum málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði og er kröfu þess efnis því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Skattstofn erfðafjárskatts lækkar um 7.305.687 kr. frá því sem sýslumaður ákvað. Að öðru leyti er kröfum kærenda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja