Úrskurður yfirskattanefndar

  • Orkufyrirtæki
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 86/2016

Gjaldár 2014

Lög nr. 90/2003, 2. gr., 71. gr., 96. gr.   Lög nr. 37/1993, 22. gr.  

Ríkisskattstjóri endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda, sem var orkufyrirtæki í eigu sveitarfélags, á þeim grundvelli að kæranda hefði verið ákvarðaður tekjuskattur miðað við of lágt skatthlutfall vegna mistaka við skráningu á rekstrarformi kæranda. Ekki var fallist á með kæranda að endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra tæki ekki til slíkra aðstæðna og bent á í því sambandi að heimildin væri ekki einskorðuð við að röng álagning væri á ábyrgð skattaðila. Þá var ekki fallist á að fella bæri ákvörðun ríkisskattstjóra úr gildi á þeim forsendum að kæranda hefði ekki verið gert viðvart um fyrirhugaða endurákvörðun, enda þóttu ekki efni til annars en að byggja á því að boðunarbréf ríkisskattstjóra hefði verið sent kæranda með lögboðnum hætti, þ.e. á skráð heimilisfang kæranda. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 11. maí, er tekið fyrir mál nr. 238/2015; kæra A, dags. 21. desember 2015, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2014. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 21. desember 2015, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 22. september 2015, til yfirskattanefndar. Kæruefnið er endurákvörðun áður álagðs tekjuskatts kæranda gjaldárið 2014 miðað við 36% skatthlutfall samkvæmt 2. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í stað 20% skatthlutfalls samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar sem byggt var á við frumálagningu. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi.

II.

Kærandi er orkufyrirtæki í eigu sveitarfélags. Með bréfi, dags. 21. apríl 2015, sem bar yfirskriftina „Álagður tekjuskattur við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2014“, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda að álagður tekjuskattur kæranda við álagningu 2014 vegna tekna ársins 2013 hefði verið of lágur. Í bréfinu rakti ríkisskattstjóri ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, ásamt 1. gr. laga nr. 50/2005, um skattskyldu orkufyrirtækja, og tók fram að vegna mistaka hefði kærandi verið skráður í skattgrunnskrá ríkisskattstjóra miðað við rekstrarform sem félli undir 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 og hefði því borið tekjuskatt samkvæmt 1. mgr. 71. gr. sömu laga, þ.e. 20% tekjuskatt. Nánari skoðun á skráningu kæranda í fyrirtækjaskrá benti hins vegar til þess að rekstrarform kæranda félli undir 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, en tekjuskattur lögaðila samkvæmt því ákvæði næmi 36% af tekjuskattstofni, sbr. 2. mgr. 71. laganna. Því væri ljóst að álagður tekjuskattur kæranda gjaldárið 2014 hefði verið of lágur. Í niðurlagi bréfsins var kæranda veittur 15 daga frestur til að koma að athugasemdum áður en lengra væri haldið, svo sem þar sagði.

Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 4. maí 2015, var brugðist við bréfi ríkisskattstjóra frá 21. apríl 2015. Í bréfi umboðsmanns var vakin athygli á því að af hálfu ríkisskattstjóra væri hvorki borin upp fyrirspurn vegna skattskila kæranda né kæmi fram að ráðgerð væri stjórnvaldsákvörðun sem beindist að kæranda. Þá væri ekki tiltekið á hvaða lagagrundvelli bréfið væri ritað. Væri tilgangur bréfsins því óljós, þótt greina mætti vísbendingu um fyrirhugaða endurákvörðun tekjuskatts með því að lesa saman niðurlag bréfsins og yfirskrift þess. Tilefni væri til umfjöllunar um það hvort skilyrði 96. gr. laga nr. 90/2003 fyrir endurákvörðun ættu við í tilviki kæranda. Of lág álagning ríkisskattstjóra yrði ekki rakin til annmarka á skattframtali kæranda og ekki hefði kærandi sætt áætlun sem reynst hefði of lág. Lægi fyrir að kærandi hefði sætt álagningu tekjuskatts gjaldárið 2014 af öllum tekjum sínum að virtum frádráttarheimildum og heimilum skattalegum ráðstöfunum. Samkvæmt orðanna hljóðan næði heimild ríkisskattstjóra samkvæmt 96. gr. laga nr. 90/2003 ekki til aðstæðna í þessu tilviki. Hefði álagning tekjuskatts farið fram og tilkynnt skattaðila með formlega réttum hætti yrði að líta svo á að lagt hefði verið á viðkomandi aðila í skilningi 96. gr. laga nr. 90/2003 þótt álagningin kynni að hafa verið efnislega röng. Ljóst mætti vera að endurákvörðun tekjuskatts úr 20% í 36% gæti ekki rúmast innan heimilda í 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, til að breyta ákvörðun eða leiðrétta hana. Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra samkvæmt 96. gr. laga nr. 90/2003 væri mun rýmri en almenn heimild stjórnsýslulaganna og væri hún því frávik frá almennri reglu sem skýra bæri þröngt. Að öllu virtu tæki endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra almennt ekki til rangrar álagningar og þar með ekki til þess tilviks þegar embættið hefði lagt á 20% skatt í stað 36% skatts.

Samkvæmt bréfi, dags. 8. júní 2015, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda með vísan til 2. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 að fyrirhugað væri að endurákvarða opinber gjöld kæranda gjaldárið 2014 á þann hátt að tekjuskattur yrði reiknaður 36% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, í stað áður álagðs 20% tekjuskatts samkvæmt 1. mgr. 71. gr. laganna. Í bréfinu rakti ríkisskattstjóri efni bréfs embættisins, dags. 21. apríl 2015, og svarbréfs umboðsmanns kæranda, dags. 4. maí sama ár. Vegna athugasemda í síðarnefndu bréfi um óljósan tilgang bréfsins frá 21. apríl 2015 tók ríkisskattstjóri fram að fyrirspurnar hefði ekki verið þörf þar sem ekki hefði vantað skýringar á tilteknum atriðum. Tilgangur bréfsins hefði verið að upplýsa kæranda um að samkvæmt athugun ríkisskattstjóra væri kærandi skattskyldur lögaðili samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Öll orkufyrirtæki hefðu verið gerð skattskyld samkvæmt lögum nr. 50/2005 þrátt fyrir undanþáguákvæði 4. gr. laga nr. 90/2003, en kærandi vegna mistaka verið settur í rangt gjaldstig. Vegna athugasemda kæranda um heimild til endurákvörðunar tók ríkisskattstjóri fram að samkvæmt beinu orðalagi 2. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 mætti endurákvarða skatt ef álagning hefði ekki farið fram. Þess þá heldur væri heimild til endurákvörðunar þegar skattur hefði aðeins verið lagður á að hluta, þ.e. með röngu álagningarhlutfalli. Ekki væri verið að leiðrétta efnislega ákvörðun sem sérstaklega hefði verið beint að kæranda, heldur væri um að ræða kerfislega villu við flokkun tiltekinna lögaðila til álagningar. Væri heimild til endurákvörðunar vegna leiðréttingar á skatthlutfalli því alveg skýr, sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í niðurlagi bréfsins kom fram að kæranda væri veittur 16 daga frestur til að gera athugasemdir við efni bréfsins.

Með úrskurði, dags. 22. september 2015, endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2014 í samræmi við það sem um gat í boðunarbréfi embættisins, dags. 8. júní 2015. Um endurákvörðunarheimild vísaði ríkisskattstjóri til 1. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurðinum kom fram að tekjuskattur kæranda væri reiknaður að nýju miðað við 36% skatthlutfall samkvæmt 2. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003. Í forsendum ríkisskattstjóra var vísað til bréfs embættisins, dags. 21. apríl 2015, og efni þess rakið í meginatriðum. Þá var vísað til boðunarbréfs embættisins, dags. 8. júní 2015, og tekið fram að því hefði ekki verið svarað.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 21. desember 2015, er tekið fram að bréf, sem ríkisskattstjóri vísi til í úrskurði sínum og segi dagsett 8. júní 2015, hafi ekki borist kæranda. Umboðsmaður kæranda hafi tilkynnt ríkisskattstjóra um þá stöðu hinn 28. september 2015. Síðar sama dag hafi ríkisskattstjóri sent umboðsmanni kæranda afrit umrædds bréfs, en það hafi ekki verið ritað á bréfsefni ríkisskattstjóra. Samskipti umboðsmanns við ríkisskattstjóra þennan dag hafi þó ekki aðeins varðað kæranda heldur einnig þrjú önnur veitufyrirtæki í eigu sveitarfélaga ... sem öllum hefði borist úrskurðir ríkisskattstjóra, dags. 22. september 2015, þar sem vísað sé til bréfs, dags. 8. júní sama ár, en engu þeirra hefði borist slíkt bréf frá ríkisskattstjóra. Sé sömu sögu að segja um a.m.k. þrjú veitufyrirtæki í öðrum landshlutum. Samkvæmt þessu hafi kærandi ekki verið varaður við fyrirhuguðum breytingum á gjöldum áður en ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð sinn, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Beri þegar af þeirri ástæðu að ógilda úrskurðinn. Engar breytingar hafi verið boðaðar í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 21. apríl 2015, og sé raunar ekki ágreiningur um það eins og bréf embættisins, dags. 8. júní 2015, beri með sér.

Jafnframt kemur fram í kærunni að lagaheimild skorti fyrir hinni kærðu endurákvörðun og eru ítrekuð rök sem fram komu þar að lútandi í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 4. maí 2015. Enginn ágreiningur sé í málinu um tekjuskattsstofn og séu ekki uppi þær aðstæður í málinu sem endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra samkvæmt 96. gr. laga nr. 90/2003 nái til.

Einnig telji kærandi að úrskurður ríkisskattstjóra uppfylli ekki þá kröfu um rökstuðning sem gerð sé í 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, enda sé þar vísað til bréfs sem ekki hefði þá verið sent kæranda og efni þess aðeins að litlu leyti rakið í úrskurðinum.

Í niðurlagi kærunnar kemur fram að málskostnaðarkrafa sé reist á því að kærandi hafi verið knúinn til að leggja í umtalsverðan kostnað við kæruna sem ekki sé sanngjarnt að hann greiði sjálfur. Verði upplýsingar um málskostnað lagðar fyrir yfirskattanefnd þegar kostnaðurinn verði allur fram kominn.

IV.

Með bréfi, dags. 1. febrúar 2016, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Í umsögninni er rakið efni tilkynningar ríkisskattstjóra, dags. 21. apríl 2015, og tekið fram að með henni hafi kæranda verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum við túlkun ríkisskattstjóra á forsendum skattskyldu hans og álagningar og við það að kærandi hefði ekki borið rétta álagningu tekjuskatts gjaldárið 2014 áður en til frekari aðgerða kæmi í málinu. Með því hafi andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæða 96. gr. laga nr. 90/2003 verið gætt eftir því sem við eigi. Þá hafi ríkisskattstjóri boðað fyrirhugaða endurákvörðun með bréfi, dags. 8. júní 2015, með vísan til heimildar í 2. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Bréfið sé ritað á bréfsefni ríkisskattstjóra, sé þannig vistað í skjalakerfi embættisins og stílað á heimilisfang kæranda samkvæmt fyrirtækjaskrá. Samkvæmt þessum atvikum þyki ekki grundvöllur til annars en að byggja á því að ríkisskattstjóri hafi réttilega sent slíkt bréf. Breytingum hafi verið hrundið í framkvæmd með hinum kærða úrskurði með vísun til heimildar í 1. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, en tilvísun til 1. mgr. í stað 2. mgr. hafi verið misritun sem ekki verði talið að hafi valdið kæranda spjöllum sem hafi þýðingu í málinu. Vegna athugasemdar í kæru um að lagaheimild skorti samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 fyrir hinni kærðu ákvörðun er tekið fram í umsögn ríkisskattstjóra að embættið telji ákvæðið taka til atvika af því tagi sem um ræði í málinu, þ.e. endurákvörðunar skatta þess sem ekki hefði verið gert að greiða skatt af öllum tekjum sínum, hvort heldur það orsakist af mistökum varðandi skattstofninn eða álagningarprósentuna. Er í umsögninni vísað til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 699/1976 þessu til stuðnings. Í niðurlagi umsagnarinnar er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. febrúar 2016, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og kæranda gefinn kostur á að tjá sig af því tilefni.

Með bréfi, dags. 10. mars 2016, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Kærandi bendir á að ríkisskattstjóri hvorki staðhæfi í umsögn sinni til yfirskattanefndar að embættið hafi sent bréf, dags. 8. júní 2015, né geri það nokkra tilraun til að sýna fram á að það hafi sent bréfið og þá með hvaða hætti. Er þeirri ályktun ríkisskattstjóra, að ekki þyki grundvöllur til annars en að byggja á því að embættið hafi réttilega sent slíkt bréf, mótmælt sem rangri og órökstuddri. Málsatvik bendi þvert á móti til þess að ríkisskattstjóri hafi ekki sent kæranda slíkt bréf. Sönnunarbyrði um sendingu bréfsins hvíli alfarið á ríkisskattstjóra, sbr. til hliðsjónar úrskurð ríkisskattanefndar nr. 1134/1978. Af hálfu kæranda er einnig mótmælt þeirri ályktun ríkisskattstjóra að andmælareglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga nr. 90/2003 hafi verið gætt með bréfi embættisins, dags. 21. apríl 2015, enda hafi bréf þetta ekki haft að geyma viðvörun af þeim toga sem áskilin sé í 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Loks er mótmælt sem rangri og órökstuddri þeirri ályktun ríkisskattstjóra að heimild til endurákvörðunar samkvæmt ákvæði 2. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 taki til atvika þar sem kæranda hafi ekki verið gert að greiða skatt af öllum tekjum sínum hvort heldur það orsakist af mistökum varðandi skattstofninn eða álagningarprósentuna. Í því samhengi vísar kærandi til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 488/1997.

V.

Í skattframtali kæranda árið 2014 var grein fyrir hreinum tekjum að fjárhæð 1.708.809 kr. Ekki er ágreiningur um að kæranda hafi borið að greiða af þessum tekjum 36% tekjuskatt, sbr. 2. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í samræmi við að rekstrarform kæranda falli undir 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. nefndra laga. Við almenna álagningu opinberra gjalda umrætt ár ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda tekjuskatt að fjárhæð 341.762 kr. miðað við 20% skatthlutfall samkvæmt 1. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003. Mun hafa verið byggt á því við álagninguna að rekstrarform kæranda ætti undir 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, en fram er komið að sú forsenda álagningarinnar hafi verið röng og stafað af mistökum við skráningu kæranda í kerfum skattyfirvalda. Með hinni kærðu endurákvörðun, sem telja verður að hafi farið fram á grundvelli 2. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, hvað sem líður tilvísun til 1. mgr. sömu lagagreinar í úrskurði ríkisskattstjóra, var tekjuskattur ákvarðaður 615.171 kr.

Krafa kæranda í kæru til yfirskattanefndar um að úrskurður ríkisskattstjóra um endurákvörðun verði felldur úr gildi er í fyrsta lagi byggð á því að ríkisskattstjóri hafi ekki gert kæranda viðvart um fyrirhugaða endurákvörðun, sbr. áskilnað í 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, enda hafi boðunarbréf, dags. 8. júní 2015, sem ríkisskattstjóri vísi til, ekki borist kæranda. Í öðru lagi byggir kærandi á því að hina kærðu endurákvörðun ríkisskattstjóra skorti lagastoð, enda nái endurákvörðunarheimild 2. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 ekki til þess tilviks þegar lagt hafi verið á skattaðila með röngu álagningarhlutfalli. Í þriðja lagi fullnægi hinn kærði úrskurður ekki rökstuðningskröfu 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Sé í forsendum úrskurðarins vísað til efnis bréfs sem kærandi hafi ekki fengið í hendur fyrr en síðar.

Ekki er deilt um að við almenna álagningu opinberra gjalda á lögaðila gjaldárið 2014 hafi tekjuskattur ranglega verið lagður á kæranda miðað við 20% skatthlutfall samkvæmt 1. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003 í stað 36% tekjuskatts samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar. Ríkisskattstjóri gerði kæranda viðvart um hina röngu álagningu með bréfi, dags. 21. apríl 2015, og mátti frekast ráða af bréfinu að ríkisskattstjóri hefði í hyggju að gangast fyrir nýrri skattákvörðun af þessum sökum. Taldi kærandi og ástæðu til þess að bregðast við með bréfi, dags. 4. maí 2015, þar sem fram kom það viðhorf að endurákvörðunarheimildir tekjuskattslaga stæðu ekki til þess þegar svo hefði atvikast sem í þessu tilviki. Allt að einu verður ekki talið að ríkisskattstjóri hafi með fyrrnefndu bréfi uppfyllt skyldu sína samkvæmt 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, enda er ekki vísað til þess lagaákvæðis í bréfinu og naumast tekið af skarið með fyrirhugaðar breytingar á álögðum opinberum gjöldum kæranda. Slíka tilkynningu er á hinn bóginn að finna í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 8. júní 2015, sem kærandi kveðst ekki hafa fengið sent fyrr en með tölvupósti ríkisskattstjóra 28. september 2015. Vegna þeirrar viðbáru kæranda skal tekið fram að afrit bréfs þessa, sem undirritað er af tveimur starfsmönnum ríkisskattstjóra, er meðal gagna málsins. Er bréfið stílað á kæranda með skráð heimilisfang að S. Með vísan til þessa þykja ekki efni til annars en að byggja á því að bréf þetta hafi verið sent kæranda með lögboðnum hætti, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Verður að teljast á ábyrgð kæranda ef bréfið barst honum ekki í hendur. Verður krafa kæranda ekki tekin til greina á þeim grundvelli að brotið hafi verið gegn lögboðnum andmælarétti hans.

Víkur þá að þeirri málsástæðu kæranda að heimild ríkisskattstjóra til endurákvörðunar samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 nái ekki til þeirra aðstæðna sem uppi voru í máli kæranda og lýst hefur verið hér að framan. Í þessu lagaákvæði er mælt fyrir um heimildir ríkisskattstjóra til að ákvarða eða endurákvarða skatt þegar álagning reynist hafa verið röng af tilgreindum ástæðum. Er m.a. tekið fram að ákvarða eða endurákvarða skuli skattaðila skatt ef í ljós kemur að honum hefur ekki verið gert að greiða skatt af öllum tekjum sínum og eignum eða ef ekki hefur verið lagt á skattaðila. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins er heimild til að ákvarða eða endurákvarða skatta ekki einskorðuð við að röng álagning sé á ábyrgð skattaðila. Er einsýnt að mistök af hálfu ríkisskattstjóra geti einnig leitt til ófullnægjandi álagningar sem veiti heimild til endurákvörðunar samkvæmt ákvæðinu. Verður í þeim efnum ekki gerður greinarmunur á því hvort skattstofn hafi verið ákvarðaður of lágur eða skattur reiknaður með of lágu skatthlutfalli, enda stendur orðalag ákvæðisins ekki til slíkrar skýringar. Verður því ekki fallist á það með kæranda að heimild standi ekki til endurákvörðunar skatta í því tilviki að skattaðila hafi vegna mistaka ríkisskattstjóra verið gert að greiða samkvæmt lægra skatthlutfalli en vera bar.

Málsástæða kæranda um að rökstuðningi sé ábótavant í hinum kærða úrskurði, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er á því reist að í úrskurð sínum vísi ríkisskattstjóri til boðunarbréfs sem ekki hafi verið sent kæranda. Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að boðunarbréfið verði að teljast hafa verið sent kæranda með lögboðnum hætti. Verður því ekki fallist á athugasemd kæranda á þessum grundvelli. Í úrskurði ríkisskattstjóra er gerð grein fyrir þeirri ástæðu endurákvörðunarinnar að tekjuskattur hafi við frumálagningu gjaldárið 2014 verið ranglega ákvarðaður miðað við 20% skattþrep í stað 36% tekjuskatts, svo og vísaði ríkisskattstjóri í viðeigandi lagaákvæði. Í úrskurðinum var á hinn bóginn ekki fjallað um viðbárur kæranda varðandi endurákvörðunarheimild, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 4. maí 2015, en eingöngu vísað til boðunarbréfs frá 8. júní 2015. Af þessu tilefni skal tekið fram að rökstuðningur skal koma fram í úrskurði, sbr. fyrrgreind lagaákvæði, og er því almennt ekki fullnægjandi um efni rökstuðnings að vísa til þess sem fram hefur komið í fyrri bréfaskiptum. Samkvæmt þessu var annmarki á málsmeðferð ríkisskattstjóra. Ljóst þykir að sá annmarki hefur ekki haft áhrif á efni ákvörðunarinnar, enda mátti ljóst vera að ríkisskattstjóri féllst ekki á sjónarmið kæranda um heimild til endurákvörðunar. Þá verður ekki séð að þessi annmarki hafi leitt til réttarspjalla fyrir kæranda. Samkvæmt þessu og í samræmi við viðtekin viðhorf um áhrif annmarka á gildi stjórnvaldsákvörðunar að þessu leyti þykir ekki nægilegt tilefni til að ómerkja ákvörðun ríkisskattstjóra vegna fyrrgreinds ágalla.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem endurákvörðun ríkisskattstjóra var að öðru leyti í samræmi við lög, sbr. 4. og 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, og gerð innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 97. gr. laganna, sbr. sérstaklega 2. mgr. þeirra lagagreinar, verður ekki fallist á kröfu kæranda. Það leiðir þegar af þeirri niðurstöðu að ekki eru lagaskilyrði til þess að ákvarða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Kröfu þar að lútandi er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja