Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bindandi álit
  • Teknategund

Úrskurður nr. 95/2016

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul. og C-liður 4. tölul., 11. gr. 1. mgr.   Lög nr. 138/1994, 12. gr.  

Kærandi, sem var einkahlutafélag um ráðgjafarþjónustu, hugðist leggja fyrir hluthafafund tillögu um að skipta hlutafé félagsins í tvo flokka (A og B) með mismunandi rétti til arðs og var ráðgert að arður til hluthafa í B-flokki myndi ekki skiptast milli hluthafa í samræmi við eignarhald heldur á grundvelli viðmiðana sem lutu einkum að framlagi hluthafa til hagnaðarmyndunar, tekjuöflunar í þágu kæranda og verkefnaöflunar. Í máli þessu vegna bindandi álits taldi yfirskattanefnd að þrátt fyrir að hinar umspurðu greiðslur til hluthafa í B-flokki væru ekki bundnar við beint vinnuframlag væri í eðli sínu um að ræða starfs- og árangurstengdar greiðslur sem í reynd myndu ráðast af miklu leyti af vinnuframlagi og afköstum í starfi í þágu kæranda, en ekki að neinu leyti af eignarhlut hluthafa í félaginu. Greiðslurnar hefðu því mun ríkari einkenni starfstengds og afkastahvetjandi kaupauka, þ.e. launatekna, heldur en tekna af hlutareign í félaginu, þ.e. arðstekna. Var kröfu kæranda um breytingu á bindandi áliti ríkisskattstjóra hafnað.

Ár 2016, miðvikudaginn 11. maí, er tekið fyrir mál nr. 215/2015; kæra A ehf., dags. 19. nóvember 2015, vegna bindandi álits ríkisskattstjóra. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 19. nóvember 2015, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar bindandi áliti ríkisskattstjóra sem embættið lét uppi hinn 2. nóvember 2015 samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, sbr. kæruheimild í 5. gr. þeirra laga. Af hálfu kæranda eru gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Þess er krafist að framangreindu bindandi áliti [ríkisskattstjóra] verði hnekkt að hluta og úrskurðað að álitsorð seinni málsgreinar álitsins verði svohljóðandi: Greiðslur til handhafa hlutabréfa í B flokki álitsbeiðanda eru skattskyldar samkvæmt 4. tölul. C-liðar 7. gr., sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og ber álitsbeiðanda að halda eftir staðgreiðslu af greiðslum þessum samkvæmt ákvæðum laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.“

Þá er krafist málskostnaðar til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 1. október 2015, fór kærandi fram á að ríkisskattstjóri léti uppi bindandi álit á grundvelli laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Í bréfinu kom fram að meginstarfsemi kæranda væri fólgin í ráðgjöf og að starfsemin byggðist einkum á útseldri þjónustu lykilstarfsmanna félagsins sem jafnframt væru eigendur þess. Þar sem starfsmennirnir væru eigendur væri vilji til þess að skipta hagnaði af rekstri félagsins með öðrum hætti en einvörðungu á grundvelli eignarhalds á hlutum í því. Væri vilji fyrir því að skapa möguleika á því að skipta hagnaði félagsins að hluta til í samræmi við þátttöku hluthafa í að skapa hagnaðinn á grundvelli samþykktra viðmiða þar um. Til að ná framangreindu markmiði hygðist stjórn félagsins leggja fram tillögu um að hlutafé kæranda yrði skipt í tvo flokka, A- og B-flokk. Óráðstafað eigið fé félagsins m.v. árslok 2015 myndi tilheyra A-flokki, en frá og með 1. janúar 2016 skyldi hagnaður sem næmi tilteknu hlutfalli af EBITDA tilheyra B-flokki og yrði greiddur út sem arður árlega. Hlutfallið yrði ákveðið endanlega á hluthafafundi en yrði að líkindum á bilinu 30 til 45%. Arður í B-flokki myndi ekki skiptast á grundvelli eignarhalds heldur eftir ákvörðun framkvæmdastjóra félagsins á grundvelli reglna sem hluthafafundur myndi samþykkja. Reglurnar myndu grundvallast á framlagi hluthafa til hagnaðarmyndunar, tekjuöflun fyrir hönd félagsins og fjárbindingu, sölustarfi, verkefnaöflun og ábyrgð á verkefnum, þróunar- og markaðsstarfi, innra starfi og gæðamálum. Sá hluti hagnaðar sem ekki myndi tilheyra B-flokki myndi tilheyra A-flokki og úthlutast sem arður á grundvelli almennra reglna og í samræmi við eignarhald á hlutum í A-flokki. Þá yrðu reglur um úthlutun arðs í B-flokki ekki bundnar við beint vinnuframlag og myndu taka tillit til þátta utan vinnustaðar, t.d. hversu virkir starfsmenn væru í félagsstörfum eða á öðrum vettvangi sem teldist jákvætt fyrir kæranda og markaðsstarf félagsins.

Að mati kæranda væri það forsenda fyrir þeirri ráðstöfun sem um ræddi að allir hluthafar kæranda samþykktu tillögu um breytingu á samþykktum félagins, þ.e. skiptingu hlutafjár í tvo flokka. Einnig að tiltekið hlutfall hagnaðar tilheyrði sitt hvorum flokknum og að allur hagnaður sem tilheyrði B-flokki myndi greiðast út árlega sem arður. Þá myndi útgreiddur arður í B-flokki ekki skiptast eftir eignarhaldi heldur í samræmi við ákvörðun framkvæmdastjóra félagsins á grundvelli reglna settum á hluthafafundi. Þá væri forsenda þessa að kærandi greiddi sanngjörn laun á hverjum tíma sem ekki væru lægri en viðmiðunarlaun skattyfirvalda samkvæmt reglum um reiknað endurgjald og að við arðsúthlutun væru lagaskilyrði uppfyllt, sbr. ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og að tekin yrði lögformleg ákvörðun um úthlutun í samræmi við lög og samþykktir félagsins. Fór kærandi fram á að ríkisskattstjóri léti í té bindandi álit á því hvort arður greiddur af kæranda til hluthafa í A- og B-flokki teldist tekjur af hlutareign sem skattlagður yrði sem fjármagnstekjur utan rekstrar samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 4. tölul. C-liðar 7. gr. og 11. gr. sömu laga, og sem kæranda bæri að halda eftir 20% staðgreiðslu tekjuskatts af, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 9. október 2015, og svarbréf kæranda, dags. 13. sama mánaðar, lét ríkisskattstjóri hinn 2. nóvember 2015 uppi álit á grundvelli laga nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Í álitinu kom fram að álitsbeiðni kæranda lyti að því hvort þær tekjur sem kærandi hygðist greiða hluthöfum í A- og B-flokki teldust til arðstekna í skattalegu tilliti og sættu staðgreiðslu sem slíkar samkvæmt lögum nr. 94/1996. Þá vék ríkisskattstjóri að 1. og 4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og tók fram að samkvæmt þeim ákvæðum teldist til arðs í skattalegu tilliti auk venjulegrar arðgreiðslu sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda eða hluthafa sem telja yrði sem tekjur af hlutareign í félaginu. Arður í skilningi laga nr. 90/2003 væri þannig háður því að um væri að ræða tekjur sem móttakandi fengi á grundvelli eignaraðilar að félagi. Samkvæmt lögum um hlutafélög og einkahlutafélög gætu slíkar tekjur eingöngu fallið þeim í skaut sem teldust vera hluthafar og færi um skattlagningu eftir því hvort tekjur af hlutareign féllu undir 1.-4. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003.

Eins og málsatvikum væri lýst af hálfu kæranda væri það álit ríkisskattstjóra að arður sem greiddur væri hluthöfum í A-flokki myndi falla undir að teljast hefðbundin arðgreiðsla samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, enda hefði ekki annað komið fram en að arður í þeim flokki myndi skiptast á hluthafa á grundvelli eignarhalds. Kæmi þá til skoðunar hvort að sá hluti árangurstengdra greiðslna, sem greiddur yrði hluthöfum á grundvelli þess að eignarhaldi þeirra á hlutabréfum í A-flokki yrði skipt upp í annars vegar A-flokk og hins vegar í B-flokk, teldust vera við þær aðstæður hefðbundinn arður af hlutareign. Vísaði ríkisskattstjóri í því sambandi til meginreglu um jafnan rétt hluta í 2. mgr. 20. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og 1. mgr. 12. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og benti á að ekkert væri því til fyrirstöðu að hlutum í einkahlutafélögum væri skipt upp í flokka eins og kærandi hygðist gera, enda kæmi fram í 12. laga nr. 138/1994 að í samþykktum einkahlutafélags mætti m.a. kveða á um hlutaflokka án atkvæðisréttar. Við þær aðstæður yrði þó að telja að sama meginregla ætti við, þ.e. að innan sama flokks skyldu vera sömu réttindi fyrir hluthafa. Eins og álitaefnið væri lagt fyrir ríkiskattstjóra væri ljóst að svo væri ekki.

Ríkisskattstjóri tók fram að þau atriði sem kærandi hefði tiltekið að gætu haft áhrif á úthlutun arðs til hluthafa í B-flokki lytu langflest að því að auka hagnað og framlegð kæranda. Af þessum upplýsingum yrði einna helst ráðið að umbuna ætti þeim hluthöfum sem ættu hlutabréf í B-flokki allt eftir því hversu mikið þeir hefðu lagt af mörkum til framgangs og velgengni kæranda og að umbunin væri ekki í hlutfalli við hlutareign þeirra í B-flokki. Þær reglur sem kærandi hygðist leggja til grundvallar umbun til B-hluthafa væru þannig í eðli sínu afkastahvetjandi. Þannig virtist reglunum ætlað að spyrða saman eljusemi og árangri umræddra hluthafa, sem jafnframt væru starfsmenn kæranda, og rekstrarlegri afkomu félagsins, í stað þess að arðsúthlutun til hlutareigenda væri byggð á tilteknu hlutfalli í samræmi við eignarhlutdeild hvers og eins hluthafa. Þá sagði svo í áliti ríkisskattstjóra:

„Að framangreindu virtu [er] það álit ríkisskattstjóra að miðað við framfærðar forsendur þá verði að líta á greiðslur til hluthafa í B-flokki sem afkastahvetjandi kaupauka sem skattleggja beri sem staðgreiðsluskyld laun samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga sbr. og lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Staðgreiðslu ber þá að halda eftir í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ekki skiptir máli þó svo greiðslan sé innt af hendi undir formerkjum arðs á grundvelli eignarhalds á hlutabréfum í B-flokki enda hefur álitsbeiðandi upplýst að það sé ekki hlutareignin sem slík og arðsúthlutun af hagnaði félagsins í hlutfalli við þá hlutareign sem liggi til grundvallar greiðslunni. Umræddar tekjur geta því ekki í skattalegu tilliti talist arður af hlutareign, sbr. 1. tölul. 11. gr. tekjuskattslaga.“

Í niðurlagi bindandi álits síns dró ríkisskattstjóri niðurstöðu sína saman með eftirfarandi hætti:

„Greiðslur til handhafa hlutabréfa í A-flokki álitsbeiðanda eru skattskyldar samkvæmt 4. tölul. C- liðar 7. gr., sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og ber álitsbeiðanda að halda eftir staðgreiðslu af greiðslum þessum samkvæmt ákvæðum laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Greiðslur til handhafa hlutabréfa í B-flokki álitsbeiðanda eru skattskyldar samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og ber álitsbeiðanda að halda eftir staðgreiðslu af greiðslum þessum samkvæmt ákvæðum laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.“

III.

Í I. kafla hér að framan er gerð grein fyrir kröfugerð kæranda samkvæmt kæru félagsins til yfirskattanefndar, dags. 19. nóvember 2015. Í kærunni kemur m.a. fram að kærandi telji misskilnings gæta í umfjöllun í hinu kærða bindandi áliti ríkisskattstjóra. Þannig sé fjallað um hluti í B-flokki og komist að þeirri niðurstöðu, með vísan til 20. gr. laga nr. 2/1995, að sömu réttindi fyrir hluti skyldu gilda innan sama hlutafjárflokks. Þessari lögskýringu ríkisskattstjóra sé mótmælt, einkum með vísan til 94. gr. laga nr. 2/1995 þar sem beinlínis sé gert ráð fyrir því að unnt sé að skerða réttindi hluthafa til arðgreiðslu, bæði öðrum en hluthöfum til hagsbóta, sbr. 1. tölul. 1. mgr. ákvæðisins, og með öðrum hætti, sbr. 2. mgr. þess. Í umfjöllun um 12. gr. einkahlutafélagalaga nr. 138/1994 komist ríkisskattstjóri að sömu niðurstöðu með vísan til 20. gr. laga nr. 2/1995, þrátt fyrir að orðalag ákvæðisins lúti beinlínis að því að heimilt sé að láta mismunandi réttindi gilda innan hlutaflokks sé það ákveðið í samþykktum félags. Þá sé samsvarandi ákvæði og 94. gr. laga nr. 2/1995 að finna í 69. gr. laga nr. 138/1994. Sé rétt að benda á að í raun yrðu réttindi allra hluthafa í B-flokki hin sömu, þ.e. réttur til arðsúthlutunar á grundvelli reglna sem hluthafafundur hafi samþykkt.

Í kærunni kemur fram að ríkisskattstjóri hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau atriði sem talin væru upp sem grundvöllur væntanlegra reglna kæranda um skiptingu hagnaðar séu í eðli sínu afkastahvetjandi og ætlað að spyrða saman eljusemi og árangri hluthafa, sem jafnframt séu starfsmenn, og rekstrarlegri afkomu félagsins í stað þess að tekjur af hlutareign í félaginu skiptust eingöngu hlutfallslega út frá eignarhaldi. Ekki sé um það að ræða að verið sé að skapa afkastahvetjandi kerfi heldur sé verið að semja um ráðstöfun og skiptingu hagnaðar félagsins. Ráðstöfun hagnaðar fari eftir fyrirfram ákveðnum reglum byggðum á þáttum umfram eiginlegt vinnuframlag og unna tíma. Afköst, unnir tímar og hefðbundin þjónusta við viðskiptavini sé ekki ráðandi þáttur í því sambandi. Þess í stað verði litið til annarra þátta sem hafi áhrif á myndun hagnaðar félagsins, einkum þátta varðandi öflun viðskiptavina eða verkefna sem skili hagnaði eða meiri framlegð en almennt eigi við um útselda vinnu. Þá verði horft til þess hversu virkur hluthafi sé út á við og annarra þátta sem hafi áhrif frá ári til árs og til þátta sem hluthafi hafi unnið fyrir félagið utan vinnustaðar og hefðbundins vinnutíma. Neikvæðir þættir sem geti skaðað félagið myndu jafnframt hafa áhrif, svo sem neikvæð opinber umfjöllun hvort sem er á vettvangi viðskipta- eða einkalífs.

Tekið er fram í kærunni að grundvallaratriði málsins sé að hluthafar kæranda hafi í hyggju að ráðstafa hagnaði félagsins eftir fleiri mælikvörðum en einungis eignarhlutfalli. Slíkt sé heimilt samkvæmt lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994 og miði kærandi við að allir hluthafar félagsins samþykki væntanlega ráðstöfun svo hún taki gildi í samræmi við meginreglu 3. mgr. 69. gr. laga nr.138/1994. Telja verði því að arðsúthlutun eða ráðstöfun hagnaðar kæranda eftir lögmæta breytingu á samþykktum í samræmi við 69. gr. laga nr. 138/1994 teljist tekjur af hlutareign og falli þannig undir 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003.

IV.

Með bréfi, dags. 29. desember 2015, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Vegna sjónarmiða í kæru til yfirskattanefndar er bent á í umsögninni að fram komi í álitsbeiðni kæranda að reglur um úthlutun arðs úr félaginu vegna hluta í B-flokki muni grundvallast á framlagi hluthafa til hagnaðarmyndunar, tekjuöflun fyrir hönd félagsins og innheimtu, sölustarfi, verkefnaöflun og ábyrgð á verkefnum, þróunar- og markaðsstarfi og loks innra starfi og gæðamálum. Úthlutun til hluthafa í B-flokki ráðist þannig af því hversu mikið hluthafi hafi lagt til félagsins í samræmi við þær reglur sem fyrirhugað sé að setja. Þá hafi kærandi upplýst að starfsemi hans byggi á útseldri þjónustu til viðskiptavina sem í raun og veru grundvallist á þeim þáttum sem taldir séu upp hér að framan og séu í eðli sínu afkastahvetjandi. Með vísan til framangreinds og forsendna hins kærða bindandi álits sé þess krafist að álitið verði staðfest, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á niðurstöðu ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. janúar 2016, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2016, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum og ítrekið kröfur og sjónarmið félagsins í málinu.

V.

Kæra í máli þessu varðar bindandi álit ríkisskattstjóra samkvæmt lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum, sem embættið lét uppi 2. nóvember 2015 í tilefni af beiðni kæranda, dags. 1. október 2015. Í beiðninni kom fram að stjórn kæranda hygðist leggja fram tillögu fyrir hluthafafund félagsins þess efnis að hlutafé félagsins yrði skipt í tvo flokka, A- og B-flokk, með mismundandi rétti til arðs, sbr. 12. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Kom fram að mismunurinn yrði fólginn í því að tiltekið hlutfall af árlegum hagnaði félagsins á bilinu 30-45% myndi einvörðungu tilheyra hlutum í B-flokki. Myndi arður til hluthafa í B-flokki, sem greiddur yrði árlega, ekki skiptast milli þeirra í samræmi við eignarhald heldur á grundvelli annarra viðmiðana samkvæmt reglum sem samþykktar yrðu af hluthafafundi kæranda, en þær viðmiðanir lytu einkum að framlagi hluthafa til hagnaðarmyndunar, tekjuöflunar í þágu félagsins og verkefnaöflunar, svo sem nánar greindi í álitsbeiðninni. Fram kom í beiðninni að lykilstarfsmenn kæranda væru jafnframt hluthafar í félaginu og að ráðstafanir þessar væru ráðgerðar þar sem vilji væri fyrir því að hagnaður af rekstri félagsins skiptist ekki eingöngu milli hluthafa á grundvelli eignarhalds heldur jafnframt miðað við þátttöku þeirra á hverjum tíma í sköpun hagnaðar umfram beint vinnuframlag. Fór kærandi fram á að ríkisskattstjóri léti uppi bindandi álit á því hvort arður til hluthafa í A- og B-flokki teldist tekjur af hlutareign í skilningi 4. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 11. gr. sömu laga, sem kæranda sem greiðanda bæri að halda eftir staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af, sbr. lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Í hinu kærða bindandi áliti komst ríkisskattstjóri að þeirri niðurstöðu að virða bæri greiðslur til hluthafa í B-flokki sem starfstengdan kaupauka sem skattskyldur væri í hendi hluthafanna á grundvelli 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, enda fælu greiðslurnar í sér afkastahvetjandi umbun til hluthafa sem ekki stæði í hlutfalli við hlutareign í félaginu. Kæranda bæri því að halda eftir staðgreiðslu tekjuskatts af greiðslunum í samræmi við lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Er umrædd niðurstaða ríkisskattstjóra kæruefni málsins.

Samkvæmt upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, auk venjulegrar arðgreiðslu sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda með takmarkaða eða ótakmarkaða ábyrgð eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu. Arður af hlutum og hlutabréfum telst til skattskyldra tekna, sbr. 4. tölul. C-liðar 7. gr. laganna. Í 1. mgr. 1. tölul. A-liðar sömu lagagreinar er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun, þ.e. hvers konar biðlaun, starfslaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, eftirlaun og lífeyrir, svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“.

Af hálfu kæranda hefur ekki verið lagt fram uppkast að þeim reglum um ráðstöfun arðs til hluthafa í B-flokki sem vísað er til í kæru. Í kærunni kemur hins vegar fram að samkvæmt reglunum muni arður ekki skiptast milli hluthafa í samræmi við eignarhlut heldur á grundvelli annarra viðmiðana er lúti í fyrsta lagi að framlagi hluthafa til hagnaðarmyndunar hjá kæranda, tekjuöflunar fyrir hönd félagsins og innheimtu, í öðru lagi að sölustarfi, verkefnaöflun og ábyrgð á verkefnum, í þriðja lagi að þróunar- og markaðsstarfi og í fjórða lagi að innra starfi og gæðamálum. Kemur fram í kærunni að reglurnar verði þannig ekki bundnar við beint vinnuframlag og muni m.a. taka til þátta utan venjulegs vinnustaðar og vinnutíma sem séu til þess fallnir að auka hróður kæranda og stuðla að jákvæðri ímynd félagsins, t.d. þátttöku í félagsstörfum eða greinaskrifa.

Samkvæmt framansögðu munu hinar umspurðu greiðslur til hluthafa kæranda í B-flokki ekki taka mið af eignarhlut hluthafans í félaginu heldur öðrum þáttum sem fyrst og fremst lúta að árangri af störfum hans hjá kæranda, m.a. með tilliti til langtímahagsmuna félagsins. Þrátt fyrir að greiðslur muni ekki verða bundnar við beint vinnuframlag eða vinnutíma, eins og það er orðað í kæru til yfirskattanefndar, verður því ekki annað séð en að í eðli sínu sé í öllum meginatriðum um að ræða starfs- og árangurstengdar greiðslur til hluthafa sem í reynd muni ráðast að miklu leyti af vinnuframlagi og afköstum í starfi í þágu kæranda, en ekki að neinu leyti af eignarhlut í félaginu. Verður því að fallast á með ríkisskattstjóra að hinar umdeildu greiðslur hafi mun ríkari einkenni starfstengds og afkastahvetjandi kaupauka, þ.e. launatekna í skilningi 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, heldur en tekna af hlutareign í félaginu, þ.e. arðstekna í skilningi 4. tölul. C-liðar 7. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Með vísan til þess verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja