Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðgangur að gögnum máls
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 131/2016

Lög nr. 90/2003, 90. gr.   Lög nr. 30/1992, 2. gr.   Lög nr. 37/1993, 15. gr., 19. gr.  

Kærandi skaut til yfirskattanefndar þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra að synja kæranda um aðgang að sundurliðunarblaði á pappírsformi vegna framtalsársins 2015. Yfirskattanefnd taldi að umrædd synjun ríkisskattstjóra væri kæranleg til nefndarinnar samkvæmt 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að ríkisskattstjóra hefði borið að rökstyðja synjunina og geta kæruheimildar og kærufrests. Þá kom fram í úrskurðinum að beiðni kæranda hefði varðað upplýsingar sem fyrir lágu í upplýsingakerfum ríkisskattstjóra og embættið hefði dregið saman í tengslum við væntanlega stjórnvaldsákvörðun, þ.e. álagningu opinberra gjalda kæranda. Beiðni kæranda hefði ekki beinst að öðrum upplýsingum en aðgengilegar væru þeim sem sinntu framtalsskyldu með rafrænum hætti. Að þessu athuguðu og með vísan til 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var fallist á með kæranda að ríkisskattstjóra hefði borið að afhenda kæranda sundurliðunarblaðið.

Ár 2016, miðvikudaginn 22. júní, er tekið fyrir mál nr. 171/2015; kæra A, dags. 10. ágúst 2015, vegna synjunar ríkisskattstjóra um aðgang að gögnum máls. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Mál þetta, sem barst yfirskattanefnd með bréfi kæranda, dags. 10. ágúst 2015, varðar aðgang kæranda að skattgagni varðandi skattamál hans vegna framtalsársins 2015, nánar tiltekið svonefndu sundurliðunarblaði sem kærandi krafðist að yrði afhent honum á pappír. Í erindi kæranda kemur fram að hann hafi ævinlega talið fram til skatts með pappírsframtali og unnið gögnin samkvæmt þeim upplýsingum sem honum hafi verið send um hver áramót. Á þessu hafi orðið breyting í þá veru að engin stofnun sendi gögnin til viðkomandi framteljanda, hvorki launagreiðandi, fjármálastofnanir né opinberar stofnanir svo sem samgöngustofa og Þjóðskrá Íslands vegna fasteignaskrár. Þess í stað hafi gögnin verið send ríkisskattstjóra sem sundurliðunarblað. Framtalsárið 2014 hafi slíkt blað ekki borist og hann því beðið ríkisskattstjóra um það, en þeirri beiðni verið synjað. Að tilhlutan fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefði því verið kippt í liðinn og gögnin afhent á pappír hjá ríkisskattstjóra laust fyrir lok framtalsskilafrests framtalsárið 2014. Framtalsárið 2015 hefðu bæði embættin, fjármála- og efnahagsráðuneytið og ríkisskattstjóri, neitað að afhenda kæranda sundurliðunarblað á pappír. Vísar kærandi til meðfylgjandi tölvupósta varðandi þessar afgreiðslur umræddra stofnana.

Samkvæmt því, sem að framan greinir, og með vísan til fyrirliggjandi gagna verður ráðið að ágreiningsefni máls þessa varði fyrrgreinda synjun ríkisskattstjóra um að afhenda kæranda sundurliðunarblað í pappírsformi sem tilkynnt var kæranda með tölvupósti hinn 12. mars 2015. Þar segir svo varðandi rök fyrir synjuninni: „Sundurliðunarblaðið er ekki lengur til í þeirri mynd sem það var, en upplýsingarnar eru aðgengilegar inn á þjónustusíðu hvers og eins. Rafræna framtalið verður til úr þeim gögnum þegar það er opnað í fyrsta sinn.“ Samkvæmt þessu verður ekki annað séð en að málið varði frekast ákvörðun ríkisskattstjóra að synja kæranda um aðgang að gögnum, sbr. 1. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og rökstuðning fyrir slíkri synjun. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinar þessarar má kæra synjun eða takmörkun til þess stjórnvalds, sem ákvörðun í málinu verður kærð til, innan tilgreinds 14 daga kærufrests. Er það í samræmi við sjónarmið umboðsmanns Alþingis í bréfi þess embættis til kæranda, dags. 26. júní 2015, sbr. nánari umfjöllun í II. kafla hér á eftir.

Tekið skal fram að ekki verður séð að efni hafi staðið til framangreindrar aðkomu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að málinu, enda naumast um það eftirlit að ræða sem ráðherra hefur með höndum samkvæmt 106. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

II.

Áður en lengra er haldið þykir rétt að gera grein fyrir helstu málavöxtum frekar en rakið er í I. kafla hér að framan svo og aðdraganda og gangi málsins og bréfaskiptum í því, en málið hefur undið nokkuð upp á sig og eins og fyrr getur meðal annars ratað til umboðsmanns Alþingis samkvæmt kvörtun kæranda frá 16. mars 2015. Gögn varðandi meðferð málsins hjá umboðsmanni Alþingis bárust yfirskattanefnd með bréfi kæranda, dags. 23. desember 2015. Rétt þykir að rekja gang málsins í tímaröð og þá fyrst meðferð málsins hjá umboðsmanni, enda snéri kærandi sér fyrst til hans strax í kjölfar synjunar ríkisskattstjóra um afhendingu umræddra gagna. Leiddi meðferð málsins hjá umboðsmanni til þess að kærandi lagði fram kæru til yfirskattanefndar, dags. 10. ágúst 2015. Beindist kvörtun kæranda til umboðsmanns Alþingis að ríkisskattstjóra og samskiptum kæranda við það embætti, sem kærandi væri óánægður með, sbr. meðfylgjandi tölvupósta sem fylgdu kvörtuninni. Kvörtunarefnið tilgreindi kærandi með svofelldum hætti: „Ríkisskattstjóri neitar undirrituðum að afhenda honum sundurliðunarblað til að gera framtal á pappír.“ Nánar tiltekið tók kærandi fram að tilhögun gagnamála vegna framtalsgerðar núorðið væri með þeim hætti að framteljendur fengju engin gögn send, heldur væru þau send ríkisskattstjóra. Kærandi kvaðst hafa talið fram til skatts með hefðbundnu pappírsframtali. Þar sem gögn varðandi framtalsgerð bærust ekki lengur milliliðalaust til framteljenda hefði hann óskað eftir því við ríkisskattstjóra að fá svonefnt sundurliðunarblað afhent. Þeirri beiðni hefði verið neitað og honum bent á að skrá sig inn á framtalið. Taldi kærandi öll tormerki á því svo sem hann rökstuddi nánar í kvörtuninni. Þá kom fram af hans hálfu að á meðan lög mæltu ekki fyrir um annað hlyti hann að geta talið fram með þeim hætti sem dugað hefði fram til þessa.

Viðbrögð umboðsmanns Alþingis urðu þau að hann reit ríkisskattstjóra bréf, dags. 20. apríl 2015, í tilefni af kvörtuninni, og fór fram á, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ríkisskattstjóri veitti upplýsingar um hvort þær upplýsingar, sem kærandi óskaði eftir aðgangi að, lægju fyrir hjá embættinu. Ef svo væri þá væri óskað eftir afstöðu ríkisskattstjóra til þess hvort embættinu væri skylt að veita kæranda aðgang að þeim og þá útprentuðum á pappír ef hann kysi það fremur en í rafrænu formi. Til viðbótar við framangreindar upplýsingar óskaði umboðsmaður eftir öllum gögnum sem lægju fyrir um afgreiðslu ríkisskattstjóra á erindi kæranda. Í bréfi umboðsmanns Alþingis til ríkisskattstjóra var gerð grein fyrir málaleitan kæranda. Fram kom að af kvörtuninni yrði ekki annað ráðið en að kærandi kysi að nota ekki þjónustusíðu ríkisskattstjóra og að kvörtun hans beindist að því að viðbrögð stjórnvalda við erindi hans hefðu það óhagræði í för með sér að hann þyrfti sjálfur að afla umræddra upplýsinga hjá öllum þeim aðilum sem afhentu ríkisskattstjóra skýrslur og upplýsingar í stað þess að geta fengið þær afhentar á einum stað. Þá gerði umboðsmaður í bréfi sínu grein fyrir ákvæðum laga um upplýsingaskyldu, bæði samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993, auk þess að getið var 92. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Varðandi upplýsingaskyldu gagnvart aðila máls samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 benti umboðsmaður á að þar væri mælt svo fyrir að aðili máls ætti rétt á að kynna sér skjöl og önnur gögn er mál hans vörðuðu. Þá kæmi þar fram að þegar skjöl væru eingöngu varðveitt á rafrænu formi gæti aðili valið á milli þess að fá þau afhent á því formi eða útprentuð á pappír. Undantekningar kæmu síðan fram í 16. og 17. gr. stjórnsýslulaganna. Þá tók umboðsmaður fram að í III. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012 væri fjallað um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 140/2012 væri skylt, væri þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum hefðu þau að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Í sömu lagagrein væri fjallað um tilteknar undanþágur frá upplýsingaréttinum og heimildir til að takmarka aðgang aðila að gögnum. Í IV. kafla laganna væri fjallað um málsmeðferð. Þar segði meðal annars í 1. mgr. 18. gr. að þegar gögn væru eingöngu varðveitt á rafrænu formi gæti aðili valið á milli þess að fá þau afhent á því formi eða útprentað á pappír. Viðvíkjandi tilvísun sinni til 92. gr. laga nr. 90/2003 tók umboðsmaður fram að í lagagrein þessari væri mælt fyrir um skyldu til að skila ríkisskattstjóra launaskýrslum o.fl. Tekið skal fram að lagaákvæði þetta varðar upplýsingaskyldu sem öllum hlutaðeigendum ber að veita ríkisskattstjóra óumbeðið, sbr. til samanburðar upplýsingaskyldu 94. gr. laga nr. 90/2003 sem lýtur að upplýsingaskyldu gagnvart ríkisskattstjóra vegna atriða sem embættið beiðist sérstaklega. Umboðsmaður sendi kæranda afrit umrædds bréfs síns til ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 15. maí 2015, svaraði ríkisskattstjóri fyrirspurn umboðsmanns Alþingis. Í bréfi ríkisskattstjóra kom fram að kvörtunin virtist lúta að því að ríkisskattstjóri hefði synjað kæranda um pappírsafrit af þeim upplýsingum sem fram kæmu á svokölluðu sundurliðunarblaði hans. Gerð var grein fyrir samskiptum kæranda við embætti ríkisskattstjóra sem hefðu verið takmörkuð og einskorðast við tölvupóst hinn 12. mars 2015 sem samdægurs hefði verið svarað. Hefði kæranda verið tjáð að sundurliðunarblað einstaklinga væri ekki lengur aðgengilegt í þeirri mynd sem áður hefði verið. Þess í stað hefði viðkomandi einstaklingur aðgang að umræddum upplýsingum inn á þjónustusíðu sinni, en rafræna framtalið yrði til á grundvelli þeirra upplýsinga þegar einstaklingur „opnaði“ skattframtal sitt í fyrsta sinni. Ríkisskattstjóri rakti ákvæði 90. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en samkvæmt 1. mgr. lagagreinar þessarar væri hverjum manni skylt að afhenda ríkisskattstjóra skýrslu á því formi sem embættið ákvæði. Af ákvæðum 90. gr. laga nr. 90/2003 leiddi að sú skylda hvíldi á hverjum framteljanda að halda skrá um tekjur sínar og eignir með það fyrir augum að gera grein fyrir þeim svo af þeim mætti ákveða skattgreiðslur. Þá var í bréfi ríkisskattstjóra fjallað um áritun upplýsinga á skattframtöl (forskráningu) og þróun þeirra mála og almennt þróun rafrænna framtalsskila. Upplýsingar hefðu jöfnum höndum verið skráðar inn á rafræna framtalið og pappírsframtal og engin greinarmunur gerður þar á. Í varúðarskyni og vegna þagnarskyldu hefði áritun á pappírsframtöl verið hætt og áritunarupplýsingar einungis verið færðar inn á rafræn skattframtöl. Áfram væri þó unnt að skila pappírsframtali og væru framtalseyðublöð send þeim framteljendum sem þess óskuðu, en án áritaðra upplýsinga vegna öryggissjónarmiða. Þeir framteljendur, sem kysu að skila á pappír, yrðu sjálfir að halda utan um fjárhagsupplýsingar sínar svo sem áskilið væri í 90. gr. laga nr. 90/2003 og færa þær upplýsingar síðan inn á pappírseyðublöð. Annar valkostur væri ennfremur tiltækur fyrir þá sem kysu að skila á pappír sem sé að skrá sig inn á þjónustusvæði sitt, opna rafrænt framtal og kalla þannig fram þær upplýsingar sem til samans mynduðu rafrænt sundurliðunarblað, og færa þær inn á pappírseyðublöð.

Varðandi svonefnd sundurliðunarblöð kom fram í bréfi ríkisskattstjóra að þar væri um að ræða blöð sem framteljanda væri rafrænt unnt að skoða á einum stað allar þær upplýsingar sem ríkisskattstjóri hefði vélrænt fært inn á rafrænt skattframtal hans. Þá kom fram að kærandi kvartaði yfir því að honum hefði ekki verið afhent sundurliðunarblað á pappír, en bent á að hann gæti nálgast sundurliðunarblaðið rafrænt á þjónustusíðu sinni. Við það vilji kærandi ekki sætta sig og krefjist þess „að starfsmaður ríkisskattstjóra prenti út og afhendi sér þær upplýsingar er á blaðinu koma fram“, eins og þar sagði. Í tilefni af þessu taldi ríkisskattstjóri ástæðu til að skýra hvernig sundurliðunarblað yrði til. Innköllun upplýsinga frá launagreiðendum, fjármálafyrirtækjum, leigusölum, verðbréfamiðlurum og fleirum byggðist á 92. gr. laga nr. 90/2003. Upphaflegur tilgangur sundurliðunarblaðsins hefði verið að auðvelda starfsmönnum skattstjóra að bera upplýsingar saman við tilgreiningar skattaðila í skattframtali svo sem nánar var rakið í bréfi ríkisskattstjóra. Þótt aðstæður við framtalsgerð hefðu breyst væri það enn skoðun ríkisskattstjóra að skattaðili ætti ekki „lögvarinn rétt á sundurliðunarupplýsingum, þó svo að þær séu að einhverju eða öllu leyti aðgengilegar þeim sem telji rafrænt fram“, eins og þar sagði.

Þá tók við í svarbréfi ríkisskattstjóra lýsing á því sem embættið kallaði tækniumhverfi við framtalsgerð. Eftir öflun upplýsinga samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/2003 væri þeim beint í tiltekna gagnagrunna, allt eftir eðli upplýsinganna. Þegar skattaðili opnaði skattframtal sitt á öruggu þjónustusvæði sínu færi í gang tölvuvinnsla þar sem öll gögn er lytu að kennitölu skattaðila væru dregin saman inn á framtalsformið. Það væri ekki fyrr en á þessu tímamarki sem umræddar upplýsingar væru dregnar út úr gagnagrunninum og þær settar fram til skoðunar framteljanda. Nánar var framgangi vinnslu upplýsinganna lýst í bréfinu og kom fram að það væri ekki fyrr en á yfirferðarstigi að ríkisskattstjóri gæti skoðað sundurliðunarblað hvers framteljanda og þá miðlað þeim upplýsingum til viðkomandi á rafrænu eða pappírsformi ef framteljandi gæti eða vildi ekki nálgast þær upplýsingar á heimasvæði sínu. Lykilatriði væri að þótt umræddar upplýsingar væru til í einhverju formi í kerfum ríkisskattstjóra þá væru þær starfsmönnum ríkisskattstjóra ekki aðgengilegar fyrr en framtalsskilum af hálfu framteljandans væri lokið. Áður en framtali væri skilað lægju upplýsingarnar því ekki fyrir í þeim skilningi að „hægt sé að nálgast þær eftir eðlilegum og ásættanlegum leiðum“, eins og þar sagði. Það væri ekki fyrr en upplýsingarnar væru orðnar vinnsluhæfar fyrir starfsmenn að gerlegt væri að miðla þeim til aðila sem rétt ættu á að fá þær afhentar á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar að því væri komið væri eðlilegt að aðili hefði val um að fá umbeðnar upplýsingar, er hann vörðuðu, á rafrænu eða pappírsformi, sbr. fyrirmæli þar að lútandi í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Þá var í svarbréfi ríkisskattstjóra fjallað um sambærilegt erindi kæranda vegna framtalsársins 2014 og viðbrögð ríkisskattstjóra til að koma á móts við óskir kæranda sem fólust í því að starfsmaður ríkisskattstjóra fór inn á þjónustusvæði kæranda, kallaði þannig fram sundurliðunarblaðið, prentaði það og afhenti kæranda. Var aðgerðum í því sambandi lýst, þar á meðal bakfærslu aðgerða með aðstoð tæknimanna. Jafnframt tók ríkisskattstjóri fram að embættið teldi slíkar lausnir ekki samræmast stefnu þess í öryggismálum og skyldum þess gagnvart framteljendum. Um síðastliðin áramót, þ.e. áramótin 2014/2015, hefði algerlega verið tekið fyrir að starfsmenn nálguðust sundurliðunarblöð inn á heimasvæði framteljenda með því að skrá sig inn sem framteljandi sjálfur.

Í lok svarbréfs síns tók ríkisskattstjóri fram að svo virtist sem kærandi teldi sig eiga rétt á því að ríkisskattstjóri héldi skrá um tekjur hans, eignir og skuldir sem hann ætti lögvarinn rétt að fá afhenta í þeim tilgangi að grundvalla á upplýsingunum lögskyld framtalsskil sín. Ríkisskattstjóri teldi að kærandi ætti ekki slíka kröfu. Þá virtist kærandi vera þeirrar skoðunar að rafrænar lausnir bæri að yfirfæra yfir á eldri framtalsmáta. Í tilviki kæranda væri það ekki unnt, enda slíkar lausnir ekki fyrirliggjandi. Tók ríkisskattstjóri fram að embættið gæti ekki með „ásættanlegum hætti safnað saman til afhendingar þeim upplýsingum sem um ræðir fyrr en framtalsskilum er lokið“, eins og þar sagði.

Með bréfi, dags. 18. maí 2015, sendi umboðsmaður Alþingis kæranda ljósrit af fyrrgreindu svarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 15. maí 2015, og gaf honum kost á að gera athugasemdir af því tilefni er skyldu berast fyrir 2. júní 2015. Að þeim tíma liðnum myndi umboðsmaður taka ákvörðun um framhald málsins nema sérstaklega væri óskað eftir frekari fresti til að koma að athugasemdum.

Með bréfi, dags. 2. júní 2015, gerði kærandi ýmsar athugasemdir við bréf ríkisskattstjóra. Meðal annars kom fram að kæranda hefði ekki verið leiðbeint neitt um kæruheimild og kærufrest. Svarið frá þjónustuaðila hefði verið skýr höfnun. Þá kom fram að ekki hefði verið óskað eftir upplýsingum á ákveðnu formi. Þá gaf kærandi lítið fyrir staðhæfingar ríkisskattstjóra um öryggisgalla á hefðbundnu formi svo sem nánar var lýst og rökstutt. Bent var á að áður fyrr hefðu sundurliðunarblöð líka verið á pappír þannig að staðhæfing ríkisskattstjóra um að einungis hefði verið um rafræn gögn að ræða stæðist ekki. Ríkisskattstjóri kvaðst kalla eftir upplýsingum samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/2003, en væri samt ábyrgðarlaus í þessu. Embættið segði að gögnin væru notuð til að rannsaka skattframtöl. Þeir, sem teldu fram á pappír (örfá prósent framteljenda), fengju ekki þessi gögn, en þeir, sem teldu fram rafrænt, fengju þau. Hér væri því um mismunun að ræða. Þá vék kærandi að umfjöllun ríkisskattstjóra um gagnagrunna. Leikur einn væri að taka saman gögnin á einn stað þótt þau væru víðs vegar í mörgum gagnagrunnum. Ganga mætti út frá því að tölvufræðingar ríkisskattstjóra gætu sinnt þessu, enda kæmi fram hjá ríkisskattstjóra að þetta gerðist þegar framteljandi skráði sig inn. Varðandi umfjöllun og lýsingu ríkisskattstjóra á aðferð við útvegun umrædds gagns framtalsárið 2014 benti kærandi á að það bardús ríkisskattstjóra skýrðist af aðgangsheimildum. Hins vegar væri að engu hafandi að bera því við að einstaka útvalinn starfsmaður gæti ekki prentað sundurliðunarblaðið í dag sem hann hefði getað í fyrra. Það kynni að vera að ákveða þyrfti hverjir hefðu þessa heimild og kerfisfræðingur úthlutaði heimildinni. Kærandi ítrekaði að tilgreindum aðilum væri skylt að senda ríkisskattstjóra framtalsgögn en ekki sjálfum framteljandanum. Af þessum sökum kvaðst kærandi hafa þurft að fara á milli lánastofnana og annarra stofnana til að fá nauðsynlegar upplýsingar, svo sem um stöðu lána, fasteignir, bifreiðar o.fl., upplýsingar sem ríkisskattstjóri hafi neitað honum um, enda þótt embættið hefði þær undir höndum. Með því að fá gögnin í því formi, sem þau voru áður á sundurliðunarblaðinu, væri bæði einfaldara og auðveldara svo sem nánar var lýst. Að bera því við að gögnin séu ekki tiltæk væri ekki svaravert. Sama gilti um þá staðhæfingu að umræddum upplýsingum væri safnað sérstaklega fyrir framteljanda. Þá tók kærandi fram að þótt ríkisskattstjóri prentaði og sendi sundurliðunarblaðið takmarkaði það hann á engan hátt að sinna þeirri þjónustu sem embættið nefndi, enda væru gögnin áfram í gagnagrunni ríkisskattstjóra. Að sækja gögn væri ekki eins og að sækja bók, bókin hyrfi á annan stað, en gögnin ekki. Þau væru áfram í gagnagrunninum. Þá fjallaði kærandi almennt um öryggismál í rafrænum samskiptum og þróun þeirra mála.

Að framkomnum athugasemdum kæranda með bréfi, dags. 2. júní 2015, ritaði umboðsmaður Alþingis kæranda bréf, dags. 26. júní 2015, þar sem hann tilkynnti kæranda að athugun hans á máli kæranda væri lokið með vísan til þess, sem kæmi fram í bréfinu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í bréfi umboðsmanns var gerð grein fyrir kæruheimild til yfirskattanefndar á úrskurðum ríkisskattstjóra. Þá kom fram að ákvörðun ríkisskattstjóra um álagningu tekjuskatts væri ákvörðun um rétt og skyldu manna í merkingu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um aðgang að gögnum slíks máls færi eftir ákvæðum þeirra laga. Samkvæmt 19. gr. laganna skyldi ákvörðun stjórnvalds um að synja málsaðila um aðgang að gögnum máls eða takmarka hann að nokkru leyti tilkynnt aðila og rökstudd í samræmi við V. kafla laganna. Kæra mætti synjun eða takmörkun til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu yrði kærð til. Kæra skyldi borin fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Gerði umboðsmaður grein fyrir því að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 væri ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta mætti máli til æðra stjórnvalds og það hefði ekki fellt úrskurð sinn í máli. Væri þetta lagaákvæði byggt á því sjónarmiði að eðlilegt væri að stjórnvöld fengju tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega væru rangar, áður en leitað væri til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Þá sagði svo í bréfi umboðsmanns:

„Eins og áður greinir lýtur kvörtun yðar að ágreiningi um aðgang að upplýsingum sem fyrir liggja hjá ríkisskattstjóra og sem kunna að varða mál sem fellur undir gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að þessu virtu tel ég rétt að þér freistið þess að kæra synjun ríkisskattstjóra á því að veita yður aðgang að umbeðnum upplýsingum, á því formi sem þér hafið óskað eftir, til yfirskattanefndar áður en málið kemur til frekari umfjöllunar af minni hálfu. Ég bendi yður á að með hliðsjón af þeim kærufresti sem kveðið er á um í 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kann yður að vera fær sú leið að leggja fram nýja beiðni um aðgang að upplýsingum hjá ríkisskattstjóra og skjóta málinu til yfirskattanefndar innan 14 daga frá því að yður er tilkynnt um ákvörðun ef slíkri beiðni er hafnað. Ég tek fram að með framangreindum ábendingum hef ég enga afstöðu tekið til þess hvort og þá hvaða aðgang þér kunnið að eiga að umræddum upplýsingum á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

Í niðurlagi bréfsins tók umboðsmaður fram að kysi kærandi að leita til yfirskattanefndar með mál sitt gæti hann leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þegar niðurstaða nefndarinnar lægi fyrir væri hann ósáttur við hana.

III.

Í kæru sinni til yfirskattanefndar, dags. 10. ágúst 2015, vísar kærandi til fyrrgreinds bréfs umboðsmanns Alþingis, dags. 26. júní 2015, þar sem honum hafi verið bent á að kæra/kvarta til yfirskattanefndar. Í I. kafla hér að framan er nokkur grein gerð fyrir kærunni og kröfugerð kæranda. Kemur þar fram að ekki verði annað séð en að ágreiningsefni málsins varði synjun ríkisskattstjóra um að afhenda kæranda sundurliðunarblað vegna framtalsársins 2015 á pappírsformi sem tilkynnt var kæranda með tölvupósti hinn 12. mars 2015. Eins og fyrr er rakið greiddist úr hliðstæðri málaleitan kæranda framtalsárið 2014 fyrir atbeina fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem gekkst fyrir því að kærandi fengi umbeðin gögn afhent skömmu fyrir lok framtalsfrests framtalsárið 2014, eftir að ríkisskattstjóri hafði synjað erindi kæranda. Framtalsárið 2015 kveðst kærandi hins vegar hafa komið að lokuðum dyrum hjá umræddum embættum báðum, sbr. meðfylgjandi tölvupósta. Vegna fyrri reynslu framtalsárið 2014 kveðst kærandi hafa ákveðið að snúa sér tímanlega til ríkisskattstjóra með sams konar erindi framtalsárið 2015. Allt hafi komið fyrir ekki og erindinu verið hafnað af embættunum.

Kærandi tekur fram í kærunni að hann uni því ekki að sæta mismunun sakir þess að hann vilji ekki skrá sig inn í gagnagrunn ríkisskattstjóra til að sækja umrædd gögn. Þetta leiði til þess að kærandi þurfi að fara til allra viðkomandi stofnana til að sækja gögnin. Jafnvel þótt hann gerði það dygði það ekki til því að Samgöngustofa skrái bara kaupverð bifreiða, en uppfæri það ekki milli ára. Það geri ríkisskattstjóri hins vegar, en neiti svo að upplýsa um fjárhæðina. Þá tekur kærandi fram að ríkisskattstjóri hafi ekki sent honum álagningarseðil, en á pappírsframtalinu sé hvergi að finna reit til að velja um pappírsálagningarseðil eða vefaðgang. Kærandi gerir grein fyrir því að hann hafi leitað til umboðsmanns Alþingis með umkvörtunarefni sitt. Umboðsmaður hafi krafið ríkisskattstjóra um skýringar og gefið kæranda kost á að gera athugasemdir við framkomnar skýringar ríkisskattstjóra sem hann hafi gert. Þá hafi kæranda borist bréf umboðsmanns þar sem honum hafi verið bent á að kæra eða kvarta til yfirskattanefndar. Fram kemur að ef yfirskattanefnd tekur málið fyrir geti kærandi, með samþykki umboðsmanns Alþingis, sent yfirskattanefnd afrit af þeim bréfum sem farið hafa á milli kæranda og umboðsmanns.

Í lok kærunnar fer kærandi fram á að hann fái að vita hvert hann eigi að snúa sér komi til þess að yfirskattanefnd vísi málinu frá. Telur kærandi algerlega ótækt að venjulegur launþegi á sjötugsaldri, sem ekki standi í neinni atvinnustarfsemi, geti ekki talið fram til skatts með hefðbundnu pappírsframtali og fengið öll gögn á pappír, heldur þurfi að kaupa aðstoð tölvunarfræðings eða annarra fagaðila til að sinna þessari frumskyldu lífsins.

IV.

Með bréfi, dags. 28. september 2015, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Gerir ríkisskattstjóri aðallega þá kröfu að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd. Ber ríkisskattstjóri því við að í málinu liggi ekki fyrir úrskurður sem kæranlegur sé til yfirskattanefndar samkvæmt 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 99. og 100. gr. laga nr. 90/2003. Að auki sé kæran að öllu leyti tilefnislaus þar sem „kærandi“ hafi þegar talið fram hvort heldur með eða án þess sundurliðunarblaðs, sem opnist með rafræna framtalinu, þannig að tilefni til öflunar þess til hliðsjónar við þegar aflokin framtalsskil á pappír sé að baki. Telji yfirskattanefnd hins vegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. gr. laga nr. 30/1992, þrátt fyrir að málsskot eigi sér ekki stoð í ofangreindum formreglum, beri að hafa nokkur atriði í huga sem rakin eru í umsögninni.

Í fyrsta lagi sé það meginreglan samkvæmt auglýsingu nr. 1227/2014, sem birt sé í B-deild Stjórnartíðinda, að skila skuli skattframtölum rafrænt. Í öðru lagi verði vart séð að kærandi hafi umfram aðra framteljendur verið ófær um að eiga rafræn samskipti við ríkisskattstjóra á vefsíðum ríkisskattstjóra og þjónusta sig sjálfur. Í framhaldi af þessu eru í umsögn ríkisskattstjóra rakin dæmi um rafræn samskipti kæranda og dregin sú ályktun af þeim dæmum að ljóst megi vera að kæranda hafi verið í lófa lagið að sækja sjálfur þær upplýsingar sem fyrirfram voru áritaðar í rafrænt skattframtal hans gjaldárið 2015. Í þriðja lagi er bent á að áritun upplýsinga í rafræn skattframtöl sé í eðli sínu þjónusta við framteljendur til að auðvelda þeim framtalsgerðina. Engin lagaákvæði mæli fyrir um þessa þjónustu. Framteljandi beri hins vegar ábyrgð á eigin framtalsgerð svo sem nánar er lýst. Frá framtalsárinu 2001 hafi fyrirfram áritaðar framtalsupplýsingar að hluta til verið tilgreindar á svokölluðu sundurliðunarblaði, en blað þetta hafi fram til ársins 2013 verið útbúið áður en framtalsskil hófust. Á sundurliðunarblaðinu séu ekki tæmandi upplýsingar til framtalsgerðar. Þannig komi áritaðar upplýsingar, t.d. um verðbréfaeign, hlutabréfaeign í upphafi tekjuárs, eigið fé í atvinnurekstri og fyrnanlegar eignir, eingöngu fram í rafræna framtalinu sjálfu. Frá framtalsárinu 2014 hafi tilurð sundurliðunarblaðsins byggst á því að framteljandi sjálfur stofni blaðið með opnun rafræna framtalsins. Gagn þetta sé þannig ekki fyrirfram tilbúið og tilurð þess byggi á frumkvæði framteljenda sjálfs. Í þessu sambandi er ítrekað að kærandi hafi sjálfur opnað framtal sitt á tilgreindum tíma 9. mars 2015 og þannig haft alla möguleika að nálgast sundurliðunarblaðið tilheyrandi skattframtali hans. Þannig hefði fyrst eftir greint tímamark verið unnt að afhenda umrætt gagn, þrátt fyrir að gera verði ráð fyrir því að efni þess hafi að öllum líkindum þegar verið framteljanda kunnugt. Í fjórða lagi tekur ríkisskattstjóri fram að áritað verð bifreiða byggist á matsreglum um framtalsskyldu bifreiða í 2. mgr. 3. tölul. 73. gr. laga nr. 90/2003. Hafi bifreið verið í eigu framteljanda í lok fyrra árs samkvæmt skattframtali ársins á undan gjaldárinu og sama bifreið einnig verið skráð til eignar hjá framteljanda í lok tekjuársins samkvæmt opinberri ökutækjaskrá þá sé hún árituð til eignar á sama verði og á fyrra árs skattframtali, að frádreginni niðurfærslu um 10%. Skortur á sundurliðunarblaði takmarki því ekki með nokkrum hætti möguleika framteljanda til að útbúa skattframtal á pappír.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. september 2015, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfum, dags. 16. október 2015, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum við umsögn ríkisskattstjóra. Vegna frávísunarkröfu ríkisskattstjóra krefst kærandi þess að þá verði hann upplýstur um það hvar hann geti borið sína umkvörtun fram. Umboðsmaður Alþingis hafi bent á yfirskattanefnd og því sé lítið um svar ríkisskattstjóra að segja hvað þetta varði. Vegna staðhæfingar ríkisskattstjóra þess efnis að kæran sé tilefnislaus, þar sem hann hafi þegar talið fram, kveðst kærandi ekki vita til þess að hann hafi haft möguleika á því að losna við að telja fram án verulegra refsinga af hálfu ríkisskattstjóra. Hann hafi reyndar talið fram, en það hafi kostað hann mikla fyrirhöfn sökum þess að ríkisskattstjóri hafi neitað honum um þær upplýsingar sem allir aðilar framtalsins hafi sent ríkisskattstjóra en ekki kæranda. Vegna tilvísunar ríkisskattstjóra til meginreglu um rafræn skil skattframtala áréttar kærandi að þarna sé um meginreglu en ekki algera reglu að ræða. Þá víkur kærandi að þeim dæmum um rafræn samskipti kæranda, sem rakin eru í umsögn ríkisskattstjóra. Tekur kærandi fram í tilefni af umfjöllun ríkisskattstjóra um þetta að málið snúist ekki um hæfni og/eða getu hans til að sinna rafrænum samskiptum, enda sé hann rafmagnsverkfræðingur að mennt og starfi sem slíkur. Sé ótrúlegur fyrirsláttur og rökleysa að nefna þetta, en það sé þvert á móti vegna þekkingar á tækni og tölvumálum, sem hann hafi getað staðið í lappirnar og krafist þess að sér væri sinnt af fullri virðingu af ríkisskattstjóra, en ekki vísað í tölvur eins og allir þeir þurfi að þola sem ekki geti borið hönd fyrir höfuð sér vegna þekkingarleysis. Kærandi áréttar að nær allir, sem geri gögn, sem færa þurfi í skattframtal, sendi þau ríkisskattstjóra en alls ekki til framteljanda. Í viðhorfum ríkisskattstjóra í umsögninni kristallist einbeittur vilji embættisins að þvinga framteljendur með góðu, en aðallega illu, inn í tækni sem sé tiltölulega ný af nálinni og meingölluð. Í lok bréfs síns ítrekar kærandi sjónarmið sín varðandi örugga varðveislu skattgagna. Bréfi kæranda fylgdi afrit af bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 16. október 2015, þar sem meðal annars er fjallað er um möguleika til að afþakka pappírsframtal, og þess krafist að ríkisskattstjóri láti kæranda í té útskrift af öllum rafrænum samskiptum kæranda við embættið og nánari upplýsingar þar að lútandi. Þessu var svarað af hálfu ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 27. nóvember 2015, en bréfinu fylgdu útprentanir, m.a. um skráðar hreyfingar á vefsvæði kæranda á www.skattur.is í tengslum við skattframtal árið 2015.

Þá gerðist það í málinu að yfirskattanefnd reit ríkisskattstjóra bréf, dags. 16. október 2015, vegna máls kæranda þar sem fram kom að ljóst væri að kæra kæranda væri byggð á 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í umsögn sinni, dags. 28. september 2015, hefði ríkisskattstjóri krafist frávísunar málsins þar sem ekki lægi fyrir kæranlegur úrskurður af hendi ríkisskattstjóra samkvæmt 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum, sbr. 99. og 100. gr. laga nr. 90/2003. Gögn, sem fylgdu umsögn ríkisskattstjóra, væru ljósrit skattframtals, mótteknu á pappír 20. mars 2015, og ljósrit af vélrænni skráningu skattframtals árið 2015. Hins vegar hefðu ekki fylgt umsögninni gögn sem vörðuðu kærumálið, eins og það væri lagt fyrir af hálfu kæranda, þar á meðal synjun ríkisskattstjóra um aðgang að umbeðnum gögnum. Væri því beint til ríkisskattstjóra að leggja þessi gögn fyrir yfirskattanefnd og jafnframt koma að frekari athugasemdum vegna kærunnar.

Með bréfi, dags. 30. nóvember 2015, bárust svör og athugasemdir ríkisskattstjóra, auk umbeðinna gagna, þar á meðal synjun í tölvupósti til kæranda frá 12. mars 2015 um sundurliðunarblað á pappír vegna framtalsársins 2015. Í bréfi sínu áréttar ríkisskattstjóri að krafist sé frávísunar á kæru kæranda þar sem ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun af hálfu ríkisskattstjóra, en til vara sé þess krafist að hin kærða ákvörðun um að synja beiðni kæranda verði staðfest. Vísar ríkisskattstjóri til þess að með 1. gr. laga nr. 123/2014 hafi verið gerð breyting á 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Í 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992 sé nú kveðið á um að úrskurðarvald yfirskattanefndar taki til annarra ákvarðana ríkisskattstjóra og tollstjóra eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum. Fram komi í almennum athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 123/2014, að í þágildandi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1992 sé upptalning á þeim lögum um skatta og gjöld, sem heyri undir úrskurðarvald yfirskattanefndar, en heppilegra sé að fjalla um úrskurðarvaldið með almennum hætti eins og lagt sé til í frumvarpinu. Þá vísar ríkisskattstjóri í bréfi sínu til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins þar sem fram komi að tillögur að orðan 1. mgr. 2. gr. laganna þess efnis að úrskurðarvald yfirskattanefndar taki til ákvörðunar skatta og gjalda, sem ákvörðuð séu af ríkisskattstjóra, feli ekki í sér efnisbreytingu frá því sem gilt hafi. Rétt sé að taka fram að í 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. felist ekki annað en það að úrskurðarvald yfirskattanefndar taki til annarra ákvarðana eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum. Komi 2. mgr. 2. gr. laganna heim og saman við þessa túlkun. Nefnir ríkisskattstjóri dæmi um ákvarðanir sem hann telur vera af þessum toga, svo sem umsóknir um annað reikningsár en almanaksár og ívilnanir í sköttum. Tekur ríkisskattstjóri fram að ljóst sé að ef ætlunin hafi verið að hafa þarna undir allar ákvarðanir ríkisskattstjóra, þ.e. ekki eingöngu þær sem varði skatta og gjöld, sem ríkisskattstjóri leggi á, væri um slíka meginbreytingu að ræða að það hefði án vafa verið sérstaklega tekið fram í athugasemdunum og orðalagið þá einnig verið skýrt og þannig orðað að slíkt færi ekki á milli mála. Dregur ríkisskattstjóri þá ályktun að ljóst megi vera að hvorki fjármála- og efnahagsráðherra né löggjafarvaldið, sbr. lögskýringargögn, hafi haft í hyggju að gera breytingar á úrskurðarvaldi yfirskattanefndar hvað snerti ákvarðanir og úrskurði ríkisskattstjóra. Synjun ríkisskattstjóra um afhendingu gagna hafi ekki verið kæranleg til yfirskattanefndar samkvæmt lögum nr. 30/1992, eins og þau hljóðuðu fyrir gildistöku laga nr. 123/2014, og ekki heldur eftir að breytingar samkvæmt þeim lögum tóku gildi.

Varðandi efnishlið málsins áréttar ríkisskattstjóri í bréfi sínu forsögu málsins sem hefði hafist með beiðni kæranda í tölvupósti 12. mars 2015 um að sér yrði sent upplýsingablað (sundurliðunarblað) um tekjur og gjöld til útfyllingar skattframtals á pappír. Beiðninni hefði verið synjað samdægurs á þeim forsendum að sundurliðunarblað væri ekki lengur til í þeirri mynd sem það hefði verið, en allar upplýsingar, sem ríkisskattstjóri hefði móttekið vegna framtalsgerðar, væru aðgengilegar inn á þjónustusíðu skattaðila. Jafnframt hefði verið upplýst að rafræna skattframtalið væri búið til úr þeim gögnum sem fyrir hendi væru þegar framtalið væri opnað í fyrsta skipti á vefnum. Ríkisskattstjóra hefði því verið ókleift að verða við beiðni kæranda. Rekur ríkisskattstjóri frekari gang málsins, viðkomu þess sem kvörtunar til umboðsmanns Alþingis, í kjölfar synjunar ríkisskattstjóra, fyrirspurnarbréf umboðsmanns, dags. 20. apríl 2015, til ríkisskattstjóra og svör þess embættis með bréfi, dags. 15. maí 2015. Ríkisskattstjóri hafnar því alfarið að kærandi eigi sérstakan rétt á aðgangi að umræddum upplýsingum á því formi sem hann kýs. Upplýsingarnar hafi verið honum aðgengilegar á þjónustusíðunni og þar hafi honum verið kleift að nálgast þær. Ítrekar ríkisskattstjóri að umrætt sundurliðunarblað hafi ekki verið til í þeirri mynd sem kærandi teldi. Þá segir svo í bréfinu: „Þá telur ríkisskattstjóri að engin lagarök standi til þess að embættinu sé skylt að fara eftir hugmyndum einstakra gjaldenda um tilhögun framtalsskila né heldur að halda við úreltum tölvukerfum.“ Þá er í lok bréfs ríkisskattstjóra vikið að formi álagningarseðla, rafrænum eða á pappír, og aðferðum við val þar að lútandi. Klykkt er út með því að óljóst sé hvaða hagsmuni kærandi hafi af því að fá úrskurð um þetta atriði nú þar sem hann hafi þegar skilað inn framtali árið 2015 vegna tekjuársins 2014.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. desember 2015, var kæranda sent ljósrit af fyrrgreindri framhaldsumsögn ríkisskattstjóra í málinu, dags. 30. nóvember 2015, og honum gefinn kostur á að tjá sig um umsögnina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 23. desember 2015, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum og lagt fram gögn. Eru gögnin tilgreind í tímaröð frá upphafi málsins með beiðni kæranda frá 12. mars 2015 um afhendingu umrædds sundurliðunarblaðs. Er þar um að ræða gögn vegna meðferðar málsins hjá umboðsmanni Alþingis svo og ríkisskattstjóra og yfirskattanefnd og allt til stöðu málsins hinn 11. desember 2015, sbr. framlagt samþykki umboðsmanns Alþingis í tölvupósti þann dag um framlagningu gagna málsins sem stöfuðu frá embætti umboðsmanns.

Í bréfinu tekur kærandi fram að í framangreindu ljósi sé litlu við að bæta. Bréf ríkisskattstjóra, dags. 27. nóvember 2015, til kæranda varðandi tölvusamskiptin staðfesti það sem kærandi hafi upplýst í bréfi sínu, dags. 16. október 2015, að stafaði af skuldaleiðréttingunni en ekki vegna skattframtals og að sambýliskona kæranda hefði skoðað álagningarseðilinn. Þá víkur kærandi í bréfinu að ýmsum almennum atriðum og tekur meðal annars fram að það sé sjálfsögð krafa að fá að telja fram með þeim hætti sem tíðkast hafi undanfarinn áratug og reynst vel. Með því að allar stofnanir séu hættar að senda framteljanda gögnin, en beri algera skyldu að senda ríkisskattstjóra þau, sé eðlilegt að hann sendi framteljanda gögnin biðji hann um þau. Kærandi drepur á hraða þróun tölvumála og í því samhengi upplýsir kærandi að í kringum hann séu fjórir einstaklingar sem hvorki hafi tölvu né geti notað tölvu. Öll þurfi þau að sníkja eða borga fyrir það eitt að telja fram sem ekki ætti að vera þörf á. Mótmælir kærandi staðhæfingum ríkisskattstjóra í blaði embættisins, Tíund, þess efnis að yfirgnæfandi fjöldi framteljenda kjósi rafrænt framtal. Hann og stofnunin hafi beitt víðtækum þvingunum til að koma þessu á, eins og efni máls kæranda sýni gleggst, og ofmælt sé að þetta sé eindreginn vilji framteljenda. Þá séu sparnaðarrök ríkisskattstjóra í blaðinu ekki upp á marga fiska, eins og kærandi rekur nánar, enda hindri það ekki embættið í að innleiða tölvutækni, þótt hann, kærandi, telji fram og fái gögn á pappír. Í lok bréfs kæranda segir svo: „Því er mér alveg fyrirmunað að skilja hvers vegna ég og mitt fólk geti ekki fengið að telja fram á pappír og fengið þau gögn sem setja á inn á framtalið og halda pappírsafriti af því. Kostnaðurinn er óverulegur, það hindrar [ríkisskattstjóra] ekkert í sinni vinnu og þetta er stofnun sem ég hef ekkert val um hvort ég vilji hafa viðskipti við.“

V.

Eins og fram kemur í I. og III. kafla hér að framan snýst mál þetta um rétt kæranda til að fá afhent upplýsingablað, svonefnt sundurliðunarblað, á pappír til framtalsgerðar framtalsárið 2015 og skyldu ríkisskattstjóra til að afhenda kæranda slíkt gagn. Með tölvupósti hinn 12. mars 2015 bar kærandi fram beiðni um að sér yrði sent greint gagn. Þeirri beiðni synjaði ríkisskattstjóri samdægurs með tölvupósti til kæranda. Bar ríkisskattstjóri því við að sundurliðunarblaðið væri ekki lengur til í þeirri mynd, sem það hefði verið, en upplýsingarnar væru aðgengilegar inn á þjónustusíðu hvers og eins. Þá kom fram í synjun ríkisskattstjóra að rafræna skattframtalið yrði til úr þeim gögnum þegar það væri opnað í fyrsta sinn. Eins og fram kemur í I. kafla verður samkvæmt þessu að telja að málið varði frekast greinda ákvörðun ríkisskattstjóra að synja kæranda um aðgang að umræddu skattgagni, sundurliðunarblaði á pappírsformi, framtalsárið 2015, sbr. 1. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og rökstuðning fyrir þeirri synjun. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinar þessarar má kæra synjun eða takmörkun til þess stjórnvalds, sem ákvörðun í málinu verður kærð til, innan tilgreinds 14 daga kærufrests. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Frá 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaganna eru tvær undantekningar. Annars vegar er um að ræða sérstaka kæruheimild í 4. mgr. 9. gr. laganna þar sem segir að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Hins vegar er umrædd kæruheimild 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga sem mælir fyrir um heimild til að kæra synjun eða takmörkun á aðgangi á gögnum til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Af bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 26. júní 2015, til kæranda verður ekki annað ráðið en að framangreindur skilningur falli að sjónarmiðum hans, sbr. tilvísun hans til 19. gr. stjórnsýslulaga og ábendingu um úrræði vegna hins knappa kærufrests. Þá kom fram í bréfi yfirskattanefndar, dags. 16. október 2015, til ríkisskattstjóra, að ljóst væri að erindi kæranda byggðist á umræddri kæruheimild í 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga. Þá verður ekki annað ráðið af svarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 15. maí 2015, til umboðsmanns Alþingis en að ekki sé ágreiningur um grundvöll málsins að þessu leyti. Samkvæmt framansögðu verður að telja að efnislega snúist málið um upplýsingarétt kæranda samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og rökstuðning synjunar um aðgengi að umræddu gagni og kæruheimild vegna slíkrar synjunar, sbr. fyrrgreinda 19. gr. laganna.

Þrátt fyrir það, sem að framan er rakið, er þess krafist í umsögn ríkisskattstjóra í málinu, dags. 28. september 2015, sem ítrekuð er með framhaldsumsögn embættisins, dags. 30. nóvember 2015, að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd. Er í fyrsta lagi byggt á því að ekki liggi fyrir úrskurður ríkisskattstjóra sem kæranlegur sé til yfirskattanefndar, sbr. 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Í annan stað sé „kæran“ tilefnislaus þar sem kærandi hafi þegar talið fram hvort heldur með eða án þess sundurliðunarblaðs sem opnist með rafræna framtalinu.

Vegna þessarar kröfugerðar ríkisskattstjóra skal tekið fram að í framhaldsumsögn embættisins, dags. 30. nóvember 2015, er því ekki teflt fram að beiðni kæranda sé tilefnislaus, eins og fram kom í hinni fyrri umsögn, dags. 28. september 2015, og af þeim sökum beri að vísa kærunni frá. Er þess krafist aðallega að kærunni verði vísað frá þar sem ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun af hálfu ríkisskattstjóra sem er í samræmi við kröfu ríkisskattstjóra í umsögn embættisins, dags. 28. september 2015. Til vara er þess krafist í síðari umsögninni að ákvörðun ríkisskattstjóra um að synja beiðninni verði staðfest. Er rétt að miða við hina síðari framsetningu, enda naumast rök fyrir því að telja málaleitan kæranda tilefnislausa hvað sem líður framtalsskilum kæranda framtalsárið 2015. Verður því fyrst tekin afstaða til þess hvort vísa beri kærunni frá, sbr. aðalkröfu samkvæmt umsögnum ríkisskattstjóra. Nái sú krafa ekki fram að ganga kemur til efnislegrar úrlausnar, þ.e. hvort staðfesta ber synjun ríkisskattstjóra eða játa kæranda rétti til umrædds skattgagns. Tekið skal fram að skilja verður málatilbúnað kæranda svo varðandi frávísunarkröfu ríkisskattstjóra sakir meintrar vöntunar á kæranlegri ákvörðun að hann mótmæli frávísun kærunnar og beri fyrir sig ábendingu og sjónarmið umboðsmanns Alþingis, sbr. bréf hans, dags. 26. júní 2015, til kæranda.

Vegna umræddrar frávísunarkröfu ríkisskattstjóra er rétt að benda á að ákvæði stjórnsýslulaganna fela í sér ákveðnar lágmarkskröfur til stjórnsýslunnar, sbr. athugasemdir með frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993, sbr. og gagnályktun frá 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna sem leiðir fram þessa grundvallarreglu. Áréttað skal að fyrir liggur synjun ríkisskattstjóra frá 12. mars 2015 í tölvupósti þar sem kæranda var synjað um að fá sent umrætt sundurliðunarblað svo sem hann hafi óskað eftir með tölvupósti umræddan dag. Verður að líta svo á að þessi synjun hafi verið kæranleg samkvæmt 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Bar ríkisskattstjóra að rökstyðja synjunina og geta kæruheimildar og kærufrests, auk þess að vanda betur form og frágang umræddrar ákvörðunar, synjunarinnar. Að þessu athuguðu og þar sem leiðsögn um kæruheimild og kærufrest kom fyrst fram við meðferð málsins hjá umboðsmanni Alþingis, sbr. bréf umboðsmanns til kæranda, dags. 26. júní 2015, verður kærufrestur samkvæmt umræddu lagaákvæði ekki látinn standa í vegi fyrir afgreiðslu málsins þannig að erindi kæranda beri að vísa frá sakir þess að það sé of seint fram komið.

Hér að framan er komist að þeirri niðurstöðu að umrædd synjun ríkisskattstjóra frá 12. mars 2015 sé kæranleg til yfirskattanefndar samkvæmt 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er fram komið, að eins og atvikum málsins er farið verði kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki talinn vera því til fyrirstöðu að málið fái efnislega úrslausn, sbr. og tilvísun kæranda til sjónarmiða umboðsmanns Alþingis sem tekið skal undir. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra hafnað. Víkur þá að efnishlið málsins þess efnis hvort ríkisskattstjóra bar að afhenda kæranda umrætt sundurliðunarblað á pappír vegna framtalsársins 2015 samkvæmt beiðni kæranda þar um.

Í svarbréfi sínu, dags. 15. maí 2015, til umboðsmanns Alþingis vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, væri hverjum manni skylt að afhenda ríkisskattstjóra að viðlögðum drengskap skýrslu á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður þar sem greindar væru tekjur á næstliðnu almanaksári og eignir í árslok svo og önnur atriði sem máli skipta við skattlagningu. Tók ríkisskattstjóri fram að frá þessari reglu væru engar undantekningar, nema þær sem tilgreindar væru í 6. og 7. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003. Þess er að geta að með 11. gr. laga nr. 124/2015, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld (ýmsar breytingar), var nýjum málslið aukið við 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 þess efnis að ríkisskattstjóra var heimilað að ákveða að framtalsskil einstaklinga utan atvinnurekstrar skyldu almennt vera með rafrænum hætti og málsmeðferð verði rafræn eftir því sem við eigi, þar með talin samkvæmt ákvæðum 94.-96., 98., 99. og 101. gr. Þessi breyting öðlaðist gildi og kom til framkvæmda 1. janúar 2016 og varðar því ekki álitaefni máls þessa sem snýr að framtalsárinu 2015. Ríkisskattstjóri víkur hvorki að umræddum upplýsingarétti kæranda samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né kæruheimild og rökstuðningi 19. gr. laganna vegna synjunar í umsögnum sínum. Í 15. gr. laganna er mælt svo fyrir að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varði. Tekið skal fram að 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kveður á um um rétt aðila máls til aðgangs að upplýsingum og gögnum um mál sitt þar sem tekin verður stjórnvaldsákvörðun, þ.e. í þessu tilfelli um rétt og skyldu vegna skattálagningar. Í ákvæðinu segir að ef við verði komið skuli veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði og á þeim tungumálum sem þau séu varðveitt á, nema þau séu þegar aðgengileg almenningi með rafrænum hætti. Þegar skjöl séu eingöngu varðveitt á rafrænu formi geti aðili valið á milli þess að fá þau afhent á því formi eða útprentuð á pappír. Eins og fram er komið er hliðstæð regla í 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þá er þess að geta að samkvæmt auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 1227 frá 30. desember 2014 um fresti til að skila framtölum og form framtala vegna álagningar opinberra gjalda á árinu 2015 á tekjur ársins 2014 og eignir í lok þess árs er mælt svo fyrir í 1. mgr. 1. gr. að framtölum manna, þ.m.t. þeirra sem látist hafa á árinu, skuli skila rafrænt á vefnum skattur.is eða á pappír til ríkisskattstjóra eigi síðar en 20. mars 2015. Unnt var að sækja um aukinn skilafrest, en lengdum skilafrest lyki dagana 30. mars til 30. apríl 2015 samkvæmt slembidreifingu, sbr. leiðréttingar á auglýsingunni hinn 7. janúar 2015. Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 28. september 2015, er vísað til umræddrar auglýsingar nr. 1227/2014 og sagt að meginreglan samkvæmt henni sé að skattframtölum skuli skila rafrænt. Eins og framsetningu í auglýsingunni er farið stenst það naumast hvað snertir einstaklinga.

Í umsögnum ríkisskattstjóra, dags. 28. september og 30. nóvember 2015, svo og svarbréfi embættisins, dags. 15. maí 2015, til umboðsmanns Alþingis vegna fyrirspurnar hans með bréfi, dags. 20. apríl 2015, eru tínd til margvísleg atriði sem staðið hafi í vegi fyrir því að unnt hafi verið að verða við beiðni kæranda um afhendingu umrædds sundurliðunarblaðs á pappírsformi. Eins og fram er komið var synjun ríkisskattstjóra á beiðni kæranda um afhendingu umrædds gagns byggð á því að sundurliðunarblaðið væri ekki lengur til í þeirri mynd sem það áður hefði verið, en upplýsingarnar væru aðgengilegar inn á þjónustusíðu hvers og eins. Þá kom fram að rafræna skattframtalið yrði til úr þeim gögnum þegar það væri opnað í fyrsta sinn. Virðist meginstefið í viðbárum og skýringum ríkisskattstjóra lúta að því að umkrafðar upplýsingar hafi ekki verið tiltækar fyrr en framtalsskilum kæranda hafi verið lokið. Varðandi þetta er þó sleginn sá varnagli í umræddu svarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 15. maí 2015, að viðkomandi upplýsingar lægju ekki fyrir í þeim skilningi að „hægt sé að nálgast þær eftir eðlilegum og ásættanlegum leiðum“, eins og þar stendur. Í því sambandi er einkum gefin sú skýring að það sé ekki fyrr en framteljandi fer inn á þjónustusíðu sína að til verður skattframtal með innsendum upplýsingum er séu tiltækar framteljanda. Á hinn bóginn liggur fyrir að framtalsárið 2015 var unnt að skila pappírsframtali, sbr. umrætt svarbréf ríkisskattstjóra, dags. 15. maí 2015, til umboðsmanns Alþingis þar sem þetta kemur fram. Þá hefur ríkisskattstjóri lagt ríka áherslu á varúðar- og öryggisatriði í skýringum og umsögnum sínum. Er engin ástæða til að draga í efa mikilvægi slíkra atriða. Hins vegar þykja viðbárur ríkisskattstjóra varðandi getu kæranda til rafrænna framtalsskila, sbr. tilgreind rafræn samskipti, sem tíunduð eru í umsögn embættisins, dags. 28. september 2015, ekki hafa neina þýðingu við úrlausn málsins og naumast málefnalegar.

Hvað sem líður þeim tormerkjum, sem ríkisskattstjóri hefur talið vera á því að verða við beiðni kæranda um afhendingu umrædds sundurliðunarblaðs á pappírsformi, sem rakin eru bæði í skýringum embættisins samkvæmt svarbréfi, dags. 15. maí 2015, til umboðsmanns Alþingis svo og umsögnum í fyrrgreindum bréfum til yfirskattanefndar, dags. 28. september og 30. nóvember 2015, verður þó engan veginn ráðið að ómöguleiki hafi staðið í vegi fyrir því að unnt væri að verða við beiðni kæranda um afhendingu umrædds gagns á pappír. Þvert á móti verður ekki annað séð en að tiltölulega umstangslítið hafi verið að sinna erindi hans þannig að samræmdist vönduðum stjórnsýsluháttum, svo sem embætti ríkisskattstjóra raunar gerði framtalsárið 2014, þó eftir aðkomu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, eins og fram er komið.

Samkvæmt framansögðu verður byggt á því að beiðni kæranda hafi varðað upplýsingar sem fyrir lágu í upplýsingakerfum ríkisskattstjóra og embættið hafði dregið saman í tengslum við væntanlega stjórnvaldsákvörðun, þ.e. álagningu opinberra gjalda kæranda. Beindist beiðni kæranda ekki að öðrum upplýsingum en aðgengilegar voru þeim sem sinna framtalsskyldu með rafrænum hætti. Að þessu athuguðu og með vísan til 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fallist á kröfu kæranda í máli þessu þess efnis að ríkisskattstjóra hafi borið að afhenda honum sundurliðunarblað á pappírsformi vegna framtalsársins 2015, enda ljóst að undanþágur 16. og 17. gr. laganna frá upplýsingarétti eiga ekki við í tilviki kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Ríkisskattstjóra bar að afhenda kæranda sundurliðunarblað á pappírsformi vegna framtalsársins 2015.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja