Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 134/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 2. gr. 3. tl., 31. gr. 7. tl., 54. gr., 57. gr.  

Sjálfstæður skattaðili — Sameignarfélag — Lögaðili — Rekstrartap — Samruni — Sameining félaga — Yfirfæranleiki rekstrartaps milli skattaðila — Fjárfestingarsjóðstillag — Fjárfestingarsjóður

Málavextir eru þeir, að kærandi hafði með höndum vinnuvélaútgerð og fylgdi ársreikningur vegna þess rekstrar skattframtali hans árið 1984. Hreinar tekjur af þeim rekstri færðar í reit 62 í skattframtalinu námu 215.112 kr. og hafði þá verið dregið frá fjárfestingarsjóðstillag að fjárhæð 143.000 kr. Var lagt á samkvæmt skattframtalinu við frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984.

Með bréfi, dags. 13. júní 1984, hafði umboðsmaður kæranda farið þess á leit, að breytingar yrðu gerðar á áður innsendu skattframtali og ársreikningi. M.a. var um það að ræða, að frá rekstrarhagnaði 358.112 kr. skyldi dragast fjárfestingarsjóðstillag að fjárhæð 66.000 kr. svo og tap að fjárhæð 192.907 kr. af rekstri X s.f., þannig að hreinar tekjur af atvinnurekstri til færslu í reit 62 í skattframtalinu yrðu 99.205 kr. Bréf þetta tók skattstjóri sem kæru. Með bréfi, dags. 15. nóvember 1984, krafði skattstjóri kæranda um upplýsingar um kaup á hlutabréfum að fjárhæð 945.000 kr. í Y h.f., af hverjum hefði verið keypt og hvernig kaupin hefðu verið fjármögnuð. Þá var krafist gagna til staðfestingar því, að kærandi hefði lagt inn á bundinn reikning a.m.k. 50% af reiknuðu fjárfestingarsjóðstillagi, sbr. 10. gr. laga nr. 8/1984, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Svar skyldi hafa borist fyrir 23. nóvember 1984. Með því að svar barst ekki ákvað skattstjóri með úrskurði, dags. 30. nóvember 1984, að tapfrádráttur sameignarfélagsins færðist ekki yfir á kæranda og álögð opinber gjöld gjaldárið 1984 skyldu óbreytt standa. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 28. nóvember 1984, var greint frá því, að Y h.f. hefði verið stofnuð á árinu 1983 og hlutafé hefði verið fjármagnað með eignarhlutum hluthafa í X s.f., R, og Z s.f., S. Bæði þessi fyrirtæki hefðu verið lögð niður árið 1983 og hefði Y h.f. yfirtekið allar eignir fyrirtækjanna. Þá fylgdi bréfinu kvittun, dags. 28. júní 1984, fyrir innborgun að fjárhæð 33.000 kr. á verðtryggðan sparireikning við Sparisjóð Súðavíkur vegna „skattaívilnunar“. Bréf þetta barst skattstjóra þann 4. desember 1984, er hann framsendi ríkisskattstjóra þann 22. janúar 1985. Liggur það nú meðal gagna málsins.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 10. desember 1984, og þess farið á leit, að ónotað tap Z s.f. sem kærandi hafi verið eigandi að hálfu verði nýtt honum til frádráttar. Er vísað til svarbréfs, dags. 28. nóvember 1984, sem borist hafi skattstjóra eftir að kæruúrskurður hafi verið felldur.

Með bréfi, dags. 18. febrúar 1985, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærandi upplýsir að Z s.f. hafi verið yfirtekin af Y h.f. Hafi hlutafé verið fjármagnað með eignarhlutum eigenda í X s.f. og Z s.f.

Með vísan til 2. ml. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 75/1981 er ekki fallist á kröfu kæranda.“

Rekstrartap nefnds lögaðila er kæranda óheimilt að draga frá atvinnurekstrartekjum sínum. Kröfu hans er því hafnað. Hreinar tekjur í reit 62 í skattframtali þykir bera að hækka um 77.000 kr. enda hefur skattstjóra yfirsést að leiðrétta tekjulið þennan til samræmis við lækkun fjárfestingarsjóðstillags úr 143.000 kr., sem tilfært var upphaflega í ársreikningi, í 66.000 kr. sbr. bréf kæranda, dags. 13. júní 1984, og leiðrétt samræmingarblað R4.05.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja