Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 172/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 43/1984, 20. gr., 21. gr.  

Barnabótaauki — Ákvörðun barnabótaauka — Síðbúin framtalsskil — Álag — Lögskýring — Lagaheimild

Málavextir eru þeir, að með úrskurðum, dags. 19. nóvember 1984, lagði skattstjóri skattframtal kærenda árið 1984 til grundvallar álagningu í stað áætlunar áður að viðbættu 15% álagi á skattstofna samkvæmt skattframtalinu. Þá endurákvarðaði skattstjóri kærendum barnabætur og ákvað þeim sérstakan barnabótaauka, sbr. 19.—22. gr. laga nr. 43/1984, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum 1984, vegna fjögurra barna þeirra. Skattstjóri tók tillit til skerðingarreglna ákvæða þessara við ákvörðun barnabótaaukans.

Kærendur telja sig hafa sætt of mikilli skerðingu á ákvörðun barnabótaaukans af hendi skattstjóra og hafa kært það atriði með kæru, dags. 15. desember 1984. Kæran er svohljóðandi:

„Við undirrituð sem erum sambýlisfólk, fengum í hendur álagningarseðla dags. 8. júlí 1984 og á þeim voru okkur áætlaðar tekjur þar sem við höfðum ekki skilað framtali á tilskildum tíma, áætlaðar tekjur voru það háar að barnabótaauki féll niður hjá okkur, við lögðum síðan fram framtal í kærufresti sem var skoðað sem kæra og unnið út frá fyrirliggjandi gögnum, með álagi samkv. 106. gr. laga nr. 40/1978. Álag á skattstofna okkar mun hafa verið 15% og gerum við ekki athugasemdir við það varðandi álagningu opinberra gjalda, en gerum hins vegar athugasemdir varðandi útreikning barnabótaauka.

Við eigum 4 börn og barnabótaauki óskertur væri því í 48.000, kr. Samkvæmt framtali okkar er sameiginlegur útsvarsstofn okkar kr. 251.665, skerðing á barn er því kr. 2.533, eða samtals kr. 10.132. Skattstofa Vestfjarðaumdæmis leggur hins vegar 15% álag á útsvarsstofn áður en útreikningur barnabótaauka fer fram og er útsvarsstofninn því kr. 289.415, skerðing á barn er því kr. 5.553, eða samtals kr. 22.212. Við undirrituð teljum að 15% álag á stofna til útreiknings á opinberum gjöldum sé sanngjarnt, þar sem um er að ræða fasta prósentu sem leggst á tekjur án tillits til hjúskarparstéttar eða barnafjölda, sem þýðir því væntanlega jafnt álag á alla framteljendur á svæðinu sem skila framtölum of seint.

Við teljum hins vegar að sú aðferð að nota álag á útsvarsstofn til útreiknings á skerðingu barnabótaauka sé ósanngjörn þar sem hún leiðir til einskonar umframrefsingar á barnafólki, sem þyngist eftir því sem börn eru fleiri á framfæri þar sem skerðing er reiknuð á hvert barn. Við bendum á lög nr. 43. 30. maí 1984. 19 til 22 grein um barnabótaauka sem verður varla túlkuð öðru vísi en sem vilji ríkisins til að létta framfærslu lágtekjufólks, við teljum því að ofangreindur útreikningur á barnabótaauka brjóti í bága við markmið og anda laganna.

Við undirrituð viljum því hér með óska þess að eftirgreindar meginkröfur okkar verði teknar til úrskurðar í ríkisskattanefnd.

  1. Að stofn til útreiknings á skerðingu barnabótaauka sé útsvarsstofn samkvæmt framtali án álags.
  2. Að skerðing barnabótaauka til okkar verði leiðrétt þ.e. skerðing lækki úr 5.553, kr. í 2.533, kr. per. barn.“

Með bréfi, dags. 11. apríl 1985, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu: „Krafist er staðfestingar á útreikningi skattstjóra á barnabótaauka þar eð hann er í samræmi við 20. og 21. gr. laga nr. 43/1984.“

Deilt er um það í máli þessu, hvort með útsvarsstofni í skilningi skerðingarákvæða 20. gr. laga nr. 43/1984 varðandi ákvörðun barnabótaauka skuli telja með umrætt álag vegna síðbúinna framtalsskila. Með því að eigi þykir vera fyrir hendi ótvíræð lagaheimild fyrir hinni umdeildu aðferð skattstjóra við framkvæmd nefndra skerðingarákvæða 20. gr. laga nr. 43/ 1984 er krafa kærenda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja