Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 246/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 106. gr.  

Síðbúin framtalsskil — Álag — Vítaleysisástæður

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram á tilskildum tíma árið 1984 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Með bréfi, dags. 19. júlí 1984, tilkynnti skattstjóri kæranda, að skattstofnar hefðu verið áætlaðir að teknu tilliti til 25% álags samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr 106. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með kæru, dags. 21. ágúst 1984, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningunni og boðaði, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Með bréfi, dags. 20. september 1984, sendi umboðsmaður kæranda skattframtal hans árið 1984 til skattstjóra ásamt ársreikningi og fylgiskjölum og fór fram á, að skattframtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 án álags m.a. vegna þeirra aðstæðna, sem hefðu skapast vegna síðbúinna lagabreytinga. Skattstjóri móttók gögn þessi þann 5. nóvember 1984 samkvæmt áritun hans á þau.

Með úrskurði, dags. 22. nóvember 1984, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1984 en að viðbættu 25% álagi á skattstofna samkvæmt framtalinu samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. l.mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, vegna hinna síðbúnu framtalsskila með því að eigi hefði verið sýnt fram á að falla bæri frá álagsbeitingu.

Með kæru, dags. 20. desember 1984, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til ríkiskattanefndar og fer fram á, að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna, verði niður fellt. Rökstuðningur umboðsmannsins er þessi: „Á síðasta vetri tafðist vinna við framtöl m.a. vegna frumvarps sem lá fyrir alþingi um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestinga manna í atvinnurekstri svo og vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt. Þegar fyrir löggjafanum liggja frumvörp til laga sem kunna að hafa veruleg áhrif á skattgreiðslu gjaldenda og þegar þessi frumvörp eru lögð fram svo seint að fyrirséð er að þau verða ekki afgreidd fyrr en langt er liðið á framtalsfrest, liggur í augum uppi að ríkisvaldið getur ekki lagt viðurlög á gjaldendur vegna tafa sem verða á skilum framtala.“

Með bréfi, dags. 26. apríl 1985, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:

„Að álagsbeiting skattstjóra verði staðfest þar sem ekki hefur verið sýnt fram á atvik er leitt gætu til niðurfellingar álags skv. 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á það að skattalagabreytingar séu nægileg ástæða til niðurfellingar álags, sérstaklega í ljósi þess að skattframtal kæranda árið áður var einnig of seint á ferð en það framtal virðist vera fyrsta framtal félagsins.

Með vísan til framanritaðs er ítrekuð krafan um staðfestingu á úrskurði skattstjóra.“

Ljóst er, að eigi hafa legið fyrir þau atvik, sem um er rætt í 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þannig að skylt sé að fella hið kærða álag niður. Framtal kæranda og framtalsgögn árið 1984 bárust skattstjóra fyrst með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 20. september 1984, í framhaldi af kæru, dags. 21. ágúst 1984. Þegar þetta er virt, framtalsskil kæranda, sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra, og þær ástæður, sem fram eru bornar fyrir þeim drætti, sem varð á því, að skattframtali árið 1984 yrði skilað, þykja eigi fram komin næg efni til þess að falla frá beitingu heimildarákvæða 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, í tilviki kæranda. Er kröfu hans því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja