Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 470/1985

Gjaldár 1984

Reglugerð nr. 145/1982, 12. gr. 2. tl.   Lög nr. 75/1981, 96. gr., 106. gr.   Lög nr. 14/1965, 1. gr., 2. gr. 3. mgr., 7. gr.  

Launaskattsskylda — Fiskverkun — Launaskattsstig — Launaskattsundanþága — Sjómenn — Landmenn, hlutaráðnir — Beitningarmenn — Útgerð fiskiskipa — Fiskveiðar — Launaframtal — Málsmeðferð áfátt — Álag — Síðbúin framtalsskil — Vítaleysisástæður

1. Álag. Af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1984 og sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum við frumálagningu opinberra gjalda það ár. Sú álagning var kærð af hálfu umboðsmanns kæranda með kæru, dags. 21. ágúst 1984, og boðað, að rökstuðningur yrði sendur síðar. Skattframtal kæranda árið 1984 barst síðan skattstjóra ásamt ársreikningi og fylgigögnum og er ársreikningurinn dagsettur þann 28. september 1984. Ekki kemur fram í málinu, hvenær gögn þessi bárust skattstjóra. Með úrskurði, dags. 25. janúar 1985, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1984 að gerðri breytingu á fyrningum, sem ekki er ágreiningur um, og að viðbættu 25% álagi á skattstofna vegna hinna síðbúnu framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Í kæru til ríkisskattanefndar krefst umboðsmaður kæranda þess, að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna, verði fellt niður. Í rökstuðningi sínum fyrir kröfunni í bréfi, dags. 11. apríl 1985, færir umboðsmaðurinn einkum þau rök fram, að síðbúnar lagabreytingar vorið 1984 hefðu valdið því, að framtalsskil hefðu dregist. Vísar hann og til bréfs fjármálaráðuneytisins, dags. 22. júní 1984, til Félags löggiltra endurskoðenda varðandi tilmæli til skattstjóra, að álagi yrði ekki beitt á þau framtöl, sem bærust þeim fyrir miðnætti þann 30. júní 1984. Þá er á það bent, að álagsbeiting byggist nú á heimildarákvæðum.

2. Launaskattur. Skattstjóri gerði þá breytingu á launaframtali, að hann lækkaði tilfærða launafjárhæð undanþegna launaskatti úr 913.622 kr. í 433.767 kr. eða um 479.855 kr. á þeim forsendum, að launagreiðslur vegna beitingarvinnu væru launaskattsskyldar. Færði skattstjóri laun þessi í 3,5% gjaldstig.

Umboðsmaður kæranda krefst þess, að launaskattur af launafjárhæð þessari verði felldur niður. Samkvæmt 2. tl. 12. gr. laga (sic) nr. 145/1982 séu tekjur sjómanna á íslenskum fiskiskipum, þar með taldar tekjur hlutaráðinna landmanna, sem aflað sé í tengslum við úthald skipanna til fiskveiða, undanþegnar launaskatti.

Með bréfi, dags. 19. júlí 1985, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Álag.

Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á að skattalagabreyting sé nægileg ástæða til niðurfellingar álags, sérstaklega í ljósi þess að skattframtal kæranda 1982 barst eftir lok framtalsfrests og skattframtal 1983 barst einnig eftir lok framtalsfrests, sbr. ríkisskattanefndarúrskurð 149/1984.

Launaskattur.

Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að beitingarvinna sem launaskattur var lagður á sé undanþegin launaskatti.“

Um 1. tl.

Með því að það var fyrst í hinum kærða úrskurði, að kæranda var gerð grein fyrir því sérstaklega, að álagi væri beitt, þykir bera að fella það niður. Af þeim ástæðum er krafa kæranda tekin til greina varðandi þetta kæruatriði. M athugasemd þykir bera að gera, að eigi kemur fram hvorki í hinum kærða úrskurði né málsgögnum, hvenær skattframtalið barst skattstjóra.

Um 2. tl.

Kæranda var kunngerð álagning launaskatts gjaldárið 1984 með tilkynningu, dags. 31. júlí 1984, er byggðist á launaframtali hans árið 1984, dags. 23. janúar 1984. Þar voru laun samtals að fjárhæð 913.622 kr. talin undanþegin launaskatti og á því byggt við álagninguna. Samkvæmt reikningsskilum kæranda var hér um að ræða aflahluti og tryggingu vegna útgerðar m/b X að fjárhæð 433.767 kr. svo og vegna beitningar 479.854 kr. Álagður launaskattur við fyrrnefnda álagningu nam 166.173 kr. en við bættust svo dráttarvextir. Launaskatturinn var lagður á launagreiðslur við fiskverkun kæranda og var í 2,5% gjaldstigi. Síðan gerðist það, að viðbót við áður sent launaframtal barst skattstjóra frá kæranda. Eigi er viðbótarframtalið dagsett og kemur eigi fram, hvenær skattstjóri móttók það. Viðbótarfjárhæð til launaskattsstofns nam 144.051 kr. færð í gjaldstig 3,5%. Með hinum kærða úrskurði, dags. 25. janúar 1985, lagði skattstjóri launaskatt á nefnda viðbótarfjárhæð í tilgreindu gjaldstigi jafnframt því að fella launagreiðslur að fjárhæð 479.854 kr. vegna beitingarvinnu undir launaskatt í 3,5% gjaldstigi. Er það kæruefnið varðandi launaskattsálagninguna. Með vísan til 7. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 5/1982, um breyting á þeim lögum, og ákvæða 96. gr. laga nr 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fær málsmeðferð skattstjóra stjóra eigi staðist. Með vísan til þessa og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, sbr. 4. gr. laga nr. 5/1982, svo og 2. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 145/1982, um launaskatt, er krafa kæranda tekin til greina, enda óvefengt af hálfu skattstjóra og ríkisskattstjóra, að umræddar greiðslur vegna beitninga hafi verið til hlutaráðinna land­manna. Af hendi kæranda er sú viðbótarfjárhæð til launaskatts, sem um getur í viðbótarlaunaframtali, að fjárhæð 144.051 kr. færð í gjaldstig 3,5%. Af gögnum málsins verður eigi annað ráðið en að þær launagreiðslur hafi verið vegna fiskverkunar kæranda og launaskattur eigi því að nema 2,5% af launagreiðslum þessum eins og öðrum launagreiðslum í fiskverkun kæranda, sbr. launaframtöl dags. 23. janúar 1984 og 1. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 5/1982. Þykir bera að leiðrétta þetta.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja