Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 547/1985

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. D-liður 1. tl., 31. gr. 1. tl., 38. gr.  

Lífeyrissjóðsiðgjald— Rekstrarkostnaður — Frádráttarheimild — Eigin atvinnurekstur — Köfunarþjónusta — Fyrning lausafjár — Skip — Bátur — Fyrningarhlutfall — Lögskýring — Leiðrétting ríkisskattanefndar

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 31. janúar 1985, krafði skattstjóri kæranda um sundurliðun á seldu efni, vinnu og köfun. Jafnframt hvað af gjaldfærðu lífeyrissjóðsgjaldi væri vegna kæranda sjálfs og maka hans. Ennfremur skyldi sundurliða áhaldakaup. Þá væru gjaldfærðar fyrningar of háar. Svar skyldi berast fyrir 11. febrúar 1985. Svar barst ekki og með bréfi, dags. 13. mars 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda, að tekjur af atvinnurekstri væru áætlaðar 100.000 kr., sem fært væri í reit 62 í skattframtalinu. Var áður álögðum opinberum gjöldum gjaldárið 1984 breytt í samræmi við þetta, sbr. bréf skattstjóra og skattbreytingaseðil, dags. 29. mars 1985.

Í kæru til skattstjóra, dags. 22. apríl 1985, var þess krafist, að opinber gjöld kæranda gjaldárið 1984 yrðu færð til samræmis við frumálagningu. Varðandi sundurliðun á seldu efni, vinnu og köfun var vísað til samtals kæranda við skattstjóra. Engin lífeyrissjóðsgjöld væru gjaldfærð á rekstrarreikningi vegna launa eiginkonu kæranda, en 6.415 kr. vegna 6% framlags kæranda sjálfs. Mótmælt var lækkun fyrningar báts í 10%, þar sem um væri að ræða bát til notkunar við köfun, en ekki til fiskveiða, enda báturinn ekki samþykktur sem fiskibátur. Þá var gefin sundurliðun á gjaldfærslu áhalda að fjárhæð 33.879 kr.

Með úrskurði, dags. 26. ágúst 1985, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda, þar sem ekki hefði borist sundurliðun á seldu efni, vinnu og köfun.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 26. september 1985, og þess krafist, að tekjuviðbót skattstjóra verði felld niður. Kærunni fylgdi sundurliðun yfir selt efni, vinnu og köfun.

Með bréfi, dags. 18. október 1985, fellst ríkisskattstjóri á kröfur kæranda.

Með því að af hálfu kæranda hefur loks verið gerð viðhlítandi grein fyrir umspurðum atriðum er hinn kærði tekjuauki felldur niður. Hins vegar þykir bera að lækka gjaldfært framlag í lífeyrissjóð um 6.415 kr. og færa til frádráttar í reit 55 í skattframtali með því að umrædda greiðslu hefur kærandi innt vegna sjálfs sín. Þá þykir bera að lækka gjaldfærðar almennar fyrningar áhalda og tækja um 7.934 kr., þar sem kærandi hefur notað of hátt fyrningarhlutfall, sbr. 3. tl. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og b)-lið 7. gr. laga nr. 8/1984 svo og fyrningarskýrslur, en í skýrslunni árið 1982 kemur fram hvaða eignir er um að ræða. Eigi verður séð, að af hálfu kæranda sé þessu út af fyrir sig mótmælt. Hins vegar hefur kærandi mótmælt lækkun fyrningarhlutfalls báts, sem hann reiknaði 20%, en skattstjóri telur í bréfi sínu, dags. 31. janúar 1985, að eigi að vera 10%. Telur kærandi, að notkun bátsins eigi hér að skera úr. Með vísan til 1. tl. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og a-lið 7. gr. laga nr. 8/1984, verður eigi á kröfu hans fallist. Lækka almennar fyrningar báts því um 17.167 kr. Samtals lækkar gjaldahlið rekstrarreikning um 31.516 kr. í stað yfirfæranlegs taps 27.260 kr. færast 16.992 kr. sem hreinar tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtalinu. Hrein eign skv. efnahagsreikningi í reit 01 verður 1.712.472 kr. og er þá m.a. tekið tillit til þess, að skattstjóri hefur fellt fasteignamatsverð eignarlóðar, að Þ-götu, ranglega úr stofni, sbr. og samræmingarblað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja