Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 24/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 99. gr., 100. gr.  

Kæruheimild — Kærandi — Aðildarskortur — Frávísun

Málavextir eru þeir, að af hálfu kæranda, sem var hlutafélag, B hf., var eigi talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1983. Skattstjóri áætlaði kæranda því skattstofna til álagningar opinberra gjalda við frumálagningu það ár að teknu tilliti til 25% álags samkvæmt heimildarákvæðum 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Var kæranda einungis áætlaður stofn til eignarskatts. Skattstjóri tilkynnti kæranda um þessa áætlun með bréfi, dags.T3. júlí 1983. Skattframtal kæranda árið 1983, sem dagsett er 21. júlí 1983, barst skattstjóra 2. ágúst 1983 samkvæmt áritun hans á skattframtalið. Í athugasemdadálki skattframtalsins var tekið fram, að enginn rekstur hefði verið á árinu. Þá var vísað til skattframtals N. hf. Samkvæmt skattframtalinu voru engar eignir og skuldir í hlutafélaginu.

Skattstjóri tók skattframtalið til úrlausnar með úrskurði, dags. 7. október 1983, og vísaði málinu frá, þar sem ekkert kæmi fram í framtalinu um eignir kæranda. Væri skattframtalið því ófullnægjandi.

Frávísunarúrskurði skattstjóra hefur af hálfu framkvæmdastjóra N. hf. verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. október 1983. Er þess farið á leit, að álögð opinber gjöld á B. hf. gjaldárið 1983 verði felld niður. Er tekið fram, að síðastnefnt hlutafélag hafi hætt öllum rekstri árið 1979, en N. hf. yfirtekið reksturinn svo og allar eignir og skuldir. Það hlutafélag hafi verið í rekstri síðan 1979 og sé það enn. Kveðst framkvæmdastjóri N. hf., sem kæruna undirritar, hafa keypt það hlutafélag ásamt öðrum á árinu 1982. Sé B. hf. þeim í raun óviðkomandi, en til þess að forðast misskilning og óþægindi sé kæran send og óskað niðurfellingar opinberra gjalda á B. hf.

Með bréfi, dags. 22. desember 1983, krefst ríkisskattstjóri þess, að málinu verði vísað frá ríkisskattanefnd, þar sem eigi verður séð, að fullnægt sé skilyrðum um lögmæta aðild að málinu. Verði ekki á þessa kröfu fallist er gerð sú varakrafa, að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur, þar sem ekki verði séð, að bætt hafi verið úr frávísunarástæðum úrskurðarins.

Kærunni þykir bera að vísa frá ríkisskattanefnd að svo stöddu með vísan til þeirra ástæðna beggja, sem greinir í kröfugerð ríkisskattstjóra og hvor um sig þykir leiða til frávísunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja