Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 26/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl., 30. gr., 31. gr. 1. tl.  

Atvinnurekstur — Atvinnurekandi — Húsasmíðameistari — Launatekjur — Launafrádráttur — Rekstrarkostnaður — Rekstrarkostnaður, frádráttarbærni — Fæðispeningar — Eigin atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Reiknað endurgjald — Starfstengdar greiðslur — Kjarasamningar

Kærandi, sem hafði með höndum sjálfstæða starfsemi, húsasmíði, krafðist þess í kæru til skattstjóra, dags. 25. ágúst 1983, að til frádráttar tekjum yrðu leyfðir ferða- og fæðispeningar að fjárhæð 8.640 kr. á þann veg aðallega, að reiknuð laun í reit 24 í skattframtali yrðu lækkuð um þessa fjárhæð, en hún færð í reit 25 í framtalinu, en til vara, að fjárhæðin yrði gjaldfærð á rekstrarreikningi og fjárhæð í reit 24 í framtalinu lækkuð til samræmis.

Með úrskurði, dags. 20. október 1983, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að hér væri ekki um rekstrarkostnað að ræða samkvæmt ákvæðum 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri tók fram, að greiðsla ferða- og fæðispeninga væri atriði í kjarasamningum atvinnurekenda og launafólks og ætti aðeins við um þá, sem tækju laun samkvæmt 1. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 16. nóvember 1983, og ítrekar hann kröfu sína um frádrátt ferða-og fæðispeninga. Tekur umboðsmaðurinn fram, að viðurkennt sé, að í launum iðnaðarmanna, sem séu launamenn, sé endurgreiddur kostnaður vegna útlagðra ferða- og fæðispeninga. Sé þar um rekstrarkostnað að ræða í bókhaldi greiðenda. Séu því ekki rök fyrir því að telja, að ferða- og fæðispeningar iðnaðarmanna, sem starfi við eigin atvinnurekstur, sé ekki rekstrarkostnaður. Væri slíkt óréttlátt og óeðlileg mismunun. Útgjöldin hljóti að vera svipuð að þessu leyti, hvort sem um sé að ræða iðnaðarmann, sem starfi sem launamaður eða sjálfstæður atvinnurekandi. Bendir umboðsmaðurinn á, að í viðmiðunarreglum til ákvörðunar reiknaðs endurgjalds sé ríkisskattstjóra gert skylt að miða við laun fyrir sambærileg störf og hafa hliðsjón af gildandi kjarasamningum.

Með bréfi, dags. 20. desember 1983, eru af hálfu ríkisskattstjóra gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Að kröfum kæranda verði hafnað.

Ekki verður séð að um raunverulegan kostnað hafi verið að ræða hjá kæranda vegna fæðis- og ferðapeninga og þegar af þeim ástæðum verða þeir ekki taldir til frádráttar.

Fráleitt verður að telja þá innifalda í launum er kærandi hefur ákvarðað sér á grundvelli 2. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.“

Starfstengdar greiðslur, slíkar sem um ræðir í máli þessu, hefur kærandi eigi móttekið, enda er kærandi sjálfstæður atvinnurekandi. Getur frádráttur sá, sem um er deilt í máli þessu, því í hans tilfelli eigi byggst á ákvæðum 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með tilliti til þess og þar sem eigi hefur verið sýnt fram á, að hér sé um frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða samkvæmt 1. mgr. 1. tl. 1. mgr. 31. gr. nefndra laga, þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja