Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 27/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr., 28. gr. 5. tl., 30. gr. 1. mgr. A-liður 4. tl.  

Fæðispeningar — Fæðisfrádráttur — Fæði sjómanns — Sjómaður — Bátsmaður — Lögskráning — Skattskyldar launatekjur — Hlunnindi — Matsreglur ríkisskattstjóra — Frítt fæði

Kærandi, sem er skipverji á m/s N., fékk greidda fæðispeninga frá útgerðinni á árinu 1982 að fjárhæð 10.896 kr. Þessa greiðslu færði kærandi sér til tekna í skattframtali sínu árið 1983. Jafnframt færði kærandi til frádráttar á móti greiddum fæðispeningum 9.756 kr. sem fæðisfrádrátt í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra 36 kr. pr. dag í 271 dag, sem var fjöldi lögskráningardaga.

Með bréfi, dags. 14. júlí 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að nefndur fæðisfrádráttur hefði verið felldur niður, þar sem fæðispeningar frá N. hf. væru skattskyldar tekjur. Þessari breytingu var mótmælt af hálfu kæranda með kæru, dags. 25. ágúst 1983. Með úrskurði, dags. 3. nóvember 1983, hafnaði skattstjóri kærunni. Tók skattstjóri fram í úrskurðinum, að auk fæðispeninga fengi áhöfn m/s N. frítt fæði um borð í skipinu, meðan vinnuskylda varaði. Þá fjallaði skattstjóri um það, hvernig vinnutíma um borð væri hagað.

Af hálfu kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. nóvember 1983. Kærandi krefst þess með vísan til 5. tl. 28. gr. laga nr. 75/ 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að úrskurði skattstjóra verði hnekkt og tilfærður fæðisfrádráttur látinn óbreyttur standa. Kærandi tekur fram, að hann sé bátsmaður á m/s N. og lögskráður á skipið allan sólarhringinn, meðan skyldustörfum sé gegnt. Hann sé einungis afskráður, þegar hann fari í frí í einn eða fleiri daga. Kærandi telur ákvörðun skattstjóra leiða til þess, að skipverjar á m/s N. njóti ekki sömu skattalegrar meðferðar og skipverjar almennt í íslenska kaupskipaflotanum.

Með bréfi, dags. 22. desember 1983, eru svofelldar kröfur gerðar í málinu af hálfu ríkisskattstjóra:

„Að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Því er ómótmælt af hálfu kæranda að hann fái í starfi frítt fæði frá atvinnuveitanda auk þess sem hann fær greidda fæðispeninga.

Fæðispeningar kæranda eru skattskyldir skv. ótvíræðu ákvæði 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt. f málinu liggur fyrir sbr. ofanritað, að kærandi hefur ekki þurft að greiða fæðiskostnað. Mótteknir fæðispeningar hans eru því honum til hagsbóta eins og hverjar aðrar tekjur og er því ekki fyrir hendi skilyrði til að telja téða fæðispeninga til frádráttar á grundvelli 4. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. áður tilvitnaðra laga.

Kærandi byggir kröfu sína m.a. á tilvísun í 5. tl. 28. gr. áðurnefndra laga. Að áliti ríkisskattstjóra þykir nefnt lagaákvæði ekki eiga við enda verður eigi séð að skattstjóri hafi skattlagt kæranda vegna þess fæðis er hann nýtur frítt um borð. Sýnist þannig hafa verið gætt reglna téðs ákvæðis.“

Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja