Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 77/1984

Gjaldár 1983

Reglugerð nr. 245/1963, 15. gr.   Lög nr. 75/1981, 10. gr., 11. gr.  

Atvinnuhúsnæði — Söluhagnaður fasteignar — Söluhagnaður fyrnanlegrar fasteignar — Eignarréttur, yfirfærsla — Aðilaskipti — Útreikningur söluhagnaðar — Verðbreytingarstuðull — Söluár — Stofnverð — Eigendaskipti — Kaupsamningur — Afsal — Tekjufærsla söluhagnaðar, tímamörk — Lögskýring — Framkvæmdavenja skattyfirvalda — HRD. 10. júní 1986 — Dómsúrlausn

Málavextir eru þeir, að kærandi færði sér til tekna í skattframtali sínu árið 1983 söluhagnað af fjárhæð 255.801 kr. vegna sölu á atvinnuhúsnæði að G-götu, Reykjavík. Var gerð grein fyrir sölunni og uppgjöri söluhagnaðarins í fyrningarskýrslu, sem fylgdi skattframtalinu. Þá fylgdi skattframtalinu bréf kæranda, dags. 11. apríl 1983, til skattstjóra, þar sem þess var farið á leit, að téður söluhagnaður yrði ekki skattlagður. Kvaðst kærandi hafa selt eignina í þeirri trú, að ekki kæmi til skattlagningar og söluandvirðið hefði verið hugsað kæranda til framfærslu á næstu árum, enda hefði kærandi ekki haft aðrar tekjur en ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og húsaleigutekjur, sem nú féllu niður við sölu eignarinnar. Ekki féllst skattstjóri á þessi tilmæli og við frumálagningu var nefndur söluhagnaður skattlagður.

Í kæru, dags. 5. ágúst 1983, til skattstjóra voru tilmæli kæranda ítrekuð. Rökstuðningur barst í bréfi, dags. 12. október 1983. Þess var krafist aðallega, að söluhagnaðurinn yrði ekki skattlagður, en til vara, að kæranda yrði veitt veruleg ívilnun í sköttum sökum erfiðrar fjárhagsstöðu. Gerð var grein fyrir sölu eignarinnar og því, að miðað hefði verið við það, að kaupin tækju gildi 1. janúar 1983. Þann dag skyldi kaupandi taka við eigninni, hirða arð hennar og greiða af henni skatta og skyldur. Afsal skyldi útgefið 20. nóvember 1983. Við gerð kaupsamnings 20. október 1982 hefði verið ljóst, að fasteignamat eignarinnar myndi hækka verulega 1. janúar 1983 og hefði kaupverðið verið miðað við þá staðreynd og væri sölutap á eigninni, ef við þessa dagsetningu yrði miðað. Kæranda hefði verið tjáð við undirritun kaupsamnings, að salan yrði ekki skattlögð, fyrr en á árinu 1983. Þá var bent á ákvæði 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem segði svo: „Söluágóði er skattskyldur það ár, sem afsal er gefið út fyrir hinni seldu eign.“

Með úrskurði, dags. 28. nóvember 1983, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda, bæði aðalkröfu og varakröfu. Forsendur skattstjóra fyrir höfnun aðalkröfu voru þær, að við gerð kaupsamnings 20. október 1982, hefði kaupandi öðlast eignarrétt að hinni seldu eign. Hefði sala eignarinnar þá farið fram og hefði kærandi hagað framtalsgerð sinni réttilega í samræmi við þetta. Þá taldi skattstjóri, að tilvitnað reglugerðarákvæði fengi ekki samrýmst ákvæðum núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki taldi skattstjóri efni til ívilnunar.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. desember 1983, og er aðalkröfu kæranda haldið áfram til ríkisskattanefndar með skírskotun til kröfugerðar kæranda á skattstjórastigi. Kærunni fylgdi m.a. ljósrit af kaupsamningi þeim, er fyrr greinir, og yfirlýsing kæranda, dags. 24. ágúst 1983, um skilning hans varðandi skattlagningu vegna sölunnar. Í bréfi, ódags., sem barst ríkisskattanefnd 19. desember 1983, er að finna svofelldan rökstuðning kæranda:

Málsatvik: Með kaupsamningi 20. okt. 1982 skuldbatt kærandi sig til að selja hluta fasteignarinnar við G-götu hér í borg. Seljendur skyldu afhenda kaupanda eignina 1. janúar 1983 og njóta alls arðs af henni til þess tíma og greiða af henni skatta alla og skyldur. Samkvæmt samningum skyldi kaupandi þá hafa greitt 700.000 kr. af kaupverðinu eða 37,84%. Afsal skyldi gefið út 20. nóvember 1983, enda kaupverðið greitt að fullu þann dag.

Lagaákvæði: Samkvæmt 20. gr. laga nr. 75/1981 telst söluhagnaður til skattskyldra tekna á söluári. Í lögum er ekki að finna skilgreiningu á því hvað skuli teljast söluár. Í reglugerð nr. 245/1963 segir í 15. gr. „Söluágóði er skattskyldur það ár, sem afsal er gefið út fyrir hinni seldu eign.“ Ekki verður annað séð en ákvæði þetta, þótt tvítugt sé, gildi enn. Meginreglu þeirri, sem í því felst hefur aldrei verið breytt.

Deilumál: í máli þessu er um það deilt hvort árið 1982 eða árið 1983 sé söluár. Kærandi lítur svo á, að þar sem afsal verður gefið út á árinu 1983 sé það ár söluár og því skuli söluhagnaður, ef einhver sé, skattlagður á árinu 1984. Þar við bætist, að kærandi hafi haft umráð eignarinnar til 1. janúar 1983 og notið tekna af henni svo og greitt af henni öll gjöld. Nytjar kaupanda komu ekki til fyrr en á árinu 1983.

Það er algjör misskilningur hjá skattstjóranum í Reykjavík að eignarréttur að fasteigninni hafa færst til kaupanda við undirskrift kaupsamningsins 20. okt. 1982. Kaupsamningur eins og sá, sem hér er um fjallað, er aðeins skuldbinding um að selja og kaupa eignina, ekki eignayfirfærsla. Á þessu tvennu er munur, sem einmitt skiptir máli að skattarétti. Eignarrétturinn yfirfærist ekki fyrr en við afsal, sem gefa átti 20. nóvember 1983.

Með vísan til alls þessa krefst kærandi þess, að úrskurður skattstjórans í Reykjavík frá 28. október 1983 verði úr gildi felldur og úrskurðað að kröfur kæranda skuli til greina teknar, þannig að söluhagnaður af umræddri fasteignasölu komi ekki til álagningar á árinu 1983 og hækkun álagningar af þeim sökum verði felld niður.“

Með bréfi, dags. 26. janúar 1984, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Í íslenskum skattalögum gildir sú meginregla að söluhagnaður telst til skattskyldra tekna á söluári.

Söluár merkir í þessu sambandi það ár er salan fer fram. Í tilviki kæranda fór salan fram er kaupsamningur var gerður enda verður að telja að við það tímamark hafi farið fram hlutbundin eignarréttaryfirfærsla.

Umboðsmaður kæranda hefur stutt kröfu sína til ákvæðis 15. gr. reglugerðar nr. 245/ 1963. Ríkisskattstjóri vísar þeim rökstuðningi á bug enda verður eigi talið að tilvitnað reglugerðarákvæði gangi framar settum lagaákvæðum.

Á það er bent að sjónarmið ríkisskattstjóra er í samræmi við framkvæmd skattyfirvalda er staðfest hefur verið í fjölmörgum málum hjá ríkisskattanefnd.“

Með vísan til 11. gr. laga nr. 75/1981 ber að staðfesta úrskurð skattstjóra. Ríkisskattanefnd fjallar lögum samkvæmt ekki um ívilnanir á tekjuskatti og útsvari. Ber að snúa sér til ríkisskattstjóra og viðkomandi sveitarstjórnar um þær. (Sjá Hæstaréttardóm uppkveðinn 10. júní 1986, mál nr. 37/1985).

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja