Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 133/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 7. gr. B-liður, 10. gr., 15. gr., 20. gr.  

Atvinnurekstur — Bifreiðaviðskipti — Bifvélavirki — Stofnverð — Söluhagnaður — Ákvörðun söluhagnaðar — Skattfrelsi — Sönnun — Skattskyldur söluhagnaður — Gróðaskyn

Kærandi stundaði sjálfstæða starfsemi sem bifvélavirki. Fylgdi skattframtali hans árið 1983 ársreikningur vegna þeirrar starfsemi. Þá gat kærandi þess í greinargerð um eignabreytingar í skattframtalinu, að hann hefði selt tvær bifreiðar og keypt eina. Í skattframtali kæranda árið 1982 kom fram, að hann hefði keypt á árinu 1981 þær bifreiðar, sem hann seldi árið 1982 af Samvinnutryggingum g.t. Skattstjóri færði kæranda til tekna kr. 56.423 sem söluhagnað af hinum seldu bifreiðum. Var sú fjárhæð mismunur söluverðs bifreiðanna og framreiknaðs kaupverðs þeirra og gat skattstjóri þess, að byggt væri á þessari fjárhæð, þar sem engin greinargerð hefði að öðru leyti fylgt vegna sölu bifreiðanna.

Úrskurði skattstjóra, dags. 3. nóvember 1983, varðandi fyrrnefndan söluhagnað hefur verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 30. nóvember 1983. Kærandi telur, að hér hafi verið um einkabifreiðar hans að ræða og eigi skattmeðferð að ráðast af því. Gerir kærandi lauslega grein fyrir viðgerðum hans á bifreiðunum. Aðalkrafan er því sú, að ekki verði um neina skattlagningu að ræða vegna sölu bifreiðanna. Til vara krefst kærandi þess, að söluhagnaðurinn verði látinn mæta rekstrartapi samkvæmt rekstrarreikningi fyrir bifreiðaverkstæði kæranda með þeim rökum, að úr því að skattstjóri álíti, að bifreiðaviðskiptin séu sjálfstæð starfsemi hljóti söluhagnaðurinn að koma á móti rekstrartapi af öðrum atvinnurekstri hans.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags. 9. febrúar 1984, gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Að sú ákvörðun skattstjóra að færa söluhagnað meðal skattskyldra tekna kæranda verði staðfest.

Kærandi er bifvélavirki og rekur bifreiðaverkstæði. Með hliðsjón af því og breytingum er kærandi gerði á bifreiðum þeim er hann keypti og seldi á árinu 1982, má ljóst vera að megintilgangur kæranda hafi verið að hagnast á viðskiptunum.

Söluhagnaður er myndast í nefndum viðskiptum er því ótvírætt skattskyldur.

Fallist er á varakröfu kæranda um að lækka yfirfæranlegt rekstrartap um fjárhæð er nemur söluhagnaðinum.“

Mál þetta er að ýmsu leyti vanupplýst. Eigi kemur fram, hversu ríkur og viðvarandi þáttur bifreiðaviðskipti af því tagi, sem í málinu greinir, hafa verið hjá kæranda. Kærandi rekur bifreiðaverkstæði sem einkafyrirtæki undir heitinu R. eftir því sem gögn málsins bera með sér. Kærandi krefst þess aðallega, að eigi komi til neinnar skattlagningar vegna þeirra bifreiðaviðskipta, sem um getur í málinu, þar sem hér hafi verið um einkabifreiðar hans að tefla, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þegar atvik þessa máls eru virt, þykir kærandi eigi geta notið þessa ákvæðis. Er aðalkröfu kæranda því hafnað. Varakrafa kæranda sýnist lúta að því að á umrædd bifreiðaviðskipti verði litið sem atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og þau færð í reikningsskil hans vegna bifreiðaverkstæðis eða gerð upp sérstaklega sem sjálfstæð starfsemi. Í niðurlagi kröfugerðar sinnar virðist ríkisskattstjóri fallast á þetta. Eftir atvikum þykir mega á þetta fallast. Fellur því niður söluhagnaður, sem skattstjóri færði kæranda til tekna í reit 76 í skattframtali. Kærandi hefur eigi gert nægilega grein fyrir þeim kostnaði, sem hann telur sig hafa lagt í viðgerðir á umræddum bifreiðum. Að svo vöxnu þykir eigi unnt að taka tillit til þessa hugsanlega kostnaðar. Verða hreinar tekjur kæranda af atvinnurekstri, sem færast í reit 62 í skattframtali hans kr. 7.948 en áður var um rekstrartap að ræða að fjárhæð kr. 48.475. Bætast þessar hreinu tekjur við tekjuskattsstofn samkvæmt skattframtali kæranda. Þá leiðir af þessum breytingum að aðstöðugjaldsstofn hækkar um kr. 16.577 frá því, sem skattstjóri byggði á við álagningu. Í þessum tölum er eigi tekið tillit til 25% viðurlaga, sem skattstjóri beitti vegna síðbúinna framtalsskila. Þeirri ákvörðun skattstjóra hefur eigi verið mótmælt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja