Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 141/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. C-liður 4. tl. — 9. gr. — 30. gr. 1. mgr. B-liður 2. tl. — 63. gr. 1. mgr. 2. tl. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr. 1. mgr.  

Hlutabréf — Arður — Arður af hlutabréfum — Arðsfrádráttur — Arðsfrádráttur manna frá tekjum utan atvinnurekstrar á fengnum arði af hlutabréfum — Eignatekjur — Hjón — Sköttun hjóna — Kæranleg skattákvörðun — Kæranleiki — Kæruheimild — Kæruúrskurður — Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Leiðbeiningarskylda skattyfirvalda — Fyrirspurn skattaðila ranglega tekin sem kæra — Málsmeðferð áfátt

I.

Kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1990 ásamt eiginmanni sínum, A. Var framtalið lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1990. Kærandi hafði launatekjur og ökutækjastyrk samtals 1.981.149 kr. og var það fjárhæð tekjuskatts- og útsvarsstofns samkvæmt tekjuframtali hennar. Samkvæmt skattframtalinu nam arður af hlutabréfum í X umfram það hámark, sem greinir í 2. tl. B-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, 100.800 kr. Færsla þessarar fjárhæðar var í framtalinu talin með í tekju- og útsvarsstofni eiginmanns, þótt ekki væri hún gerð á réttan hátt. Við álagningu reiknaðist kæranda fjárhæð þessi til tekna þannig að tekjuskatts- og útsvarsstofn varð 2.081.949 kr. Var það vegna ákvæða 2. tl. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er mælir svo fyrir, að tekjur skv. C-lið 7. gr. laganna skuli leggja saman og telja til tekna hjá því hjóna sem hærri hefur hreinar tekjur skv. 1. tl. 1. mgr. lagagreinar þessarar svo sem þær eru þar skilgreindar.

Hinn 12. september 1990 reit kærandi skattstjóranum í Reykjavík svohljóðandi bréf:

„VARÐANDI: MISMUN Á STOFNI TIL ÚTREIKNINGS TEKJUSKATTS OG ÚTSVARS OG LAUNAFJÁRHÆÐ SAMKV. LAUNAGREIÐSLUMIÐA 1989.

Með vísan til ofanritaðs þá leyfi ég mér allra vinsamlegast að fara þess á leit við embætti Skattstjórans í Reykjavík að hjálögð fylgiskjöl verði athuguð.

Mér er ekki ljóst af hverju það er mismunur á uppgefinni launafjárhæð sbr. launagreiðslumiða 1989 og þeim stofni sem gengið er út frá til útreiknings tekjuskatts og útsvars.

Framtal okkar hjóna er sameiginlegt og er eiginmaður skráður fyrir því. Nafn hans er A.

Með fyrirfram þökk fyrir aðstoðina.“

Bréfi þessu fylgdu ljósrit gjaldheimtu- og álagningarseðils 1990 og launamiða kæranda 1990.

Næst gerðist það í málinu, að skattstjóri tók bréf þetta sem kæru og kvað upp kæruúrskurð hinn 4. október 1990, þar sem hann vísaði kærunni frá sem of seint framkominni, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með því að kærufrestur hefði runnið út 29. ágúst 1990, en bréfið, er dagsett væri 12. september 1990, væri móttekið 17. s.m.

II.

Vegna fyrrgreinds frávísunarúrskurðar skattstjóra hefur kærandi snúið sér til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 12. október 1990, varðandi fyrrgreint málefni. Kemur fram af kæranda hálfu, að bréfið til skattstjóra hafi einungis verið fyrirspurn um tilgreint atriði en ekki kæra.

III.

Með bréfi, dags. 17. september 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Telji ríkisskattanefnd hins vegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar er þess krafist að álagning skattstjóra standi óbreytt.“

IV.

Fyrir liggur í máli þessu úrskurður skattstjóra, dags. 4. október 1990, sem kæranlegur er til ríkisskattanefndar, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Rétt er að líta svo á, að með bréfi sínu, dags. 12. október 1990, hafi kærandi skotið úrskurði þessum til ríkisskattanefndar. Svo sem fram hefur komið varðar úrskurður skattstjóra frávísun bréfs kæranda, dags. 12. september 1990, sem kæru, er borist hefði að liðnum kærufresti. Bréf þetta ber með sér og er það staðfest af kæranda, að með því hafi einungis verið leitað skýringa á tilteknu atriði álagningar, sem reifað er hér að framan, en það ekki falið í sér kæru. Var því ekki rétt af skattstjóra að taka bréf þetta sem kæru, er hann vísaði síðan frá sem síðbúinni, og láta við þessa afgreiðslu á erindi kæranda sitja, sbr. þá leiðbeiningarskyldu, er telja verður að hvíli á skattyfirvöldum að vissu marki. Að svo vöxnu þykir rétt að ómerkja nefndan frávísunarúrskurð. Engar gjaldabreytingar leiða af úrskurði þessum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja