Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 254/1984

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981, 7. gr., 30. gr., 87. gr.   Lög nr. 32/1965, 7. gr., 8. gr.  

Umboðsmaður skattstjóra — Hreppstjóri — Skattskyldar tekjur — Endurgreiðsla útlagðs kostnaðar — Vanreifun — Frávísun — Skrifstofukostnaður

Málavextir eru þeir, að kærandi færði þóknun vegna hreppstjórastarfa að fjárhæð kr. 14.480 og þóknun vegna umboðsstarfa fyrir skattstjóra að fjárhæð kr. 9.703 eða alls kr. 24.183 í reit 30 í skattframtali sínu árið 1983. Sem frádrátt í reit 34 færði kærandi kr. 6.000. Með bréfi, dags. 21. febrúar 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að nefndar þóknanir hefðu verið færðar með tekjum í reit 21 í skattframtalinu. Þá óskaði skattstjóri eftir rökstuðningi varðandi frádráttarliðinn „hlunnindi til frádráttar“ í reit 34 að fjárhæð kr. 6.000 í skattframtalinu. Í svarbréfi sínu, dags. 24. febrúar 1983, gaf kærandi þá skýringu, að umrædd fjárhæð væri kostnaður vegna skrifstofuhúsnæðis, sem hann léti sýslumanni D.sýslu og skattstofu H í té. Með bréfi, dags. 12. júlí 1983, tilkynnti skattstjóri kæranda, að lagaheimild skorti fyrir því að veita frádrátt frá vinnulaunagreiðslu vegna hreppstjórastarfa og umboðsmannsstarfa skattstjóra og felldi því nefndan frádrátt niður.

Kærandi sætti sig ekki við ákvörðun skattstjóra og mótmælti henni í kæru, dags. 5. ágúst 1983. Kvað hann greiðslurnar ekki vera vinnulaun heldur þóknanir svo sem launaseðlar frá launadeild Fjármálaráðuneytisins bæru með sér. Greindi hann frá því, að hann hefði framvísað reikningi fyrir húsaleigu vegna embættis hreppstjóra á B. Hefði verið synjað um greiðslu reikningsins á þeirri forsendu, að „þóknun“ sú, sem hreppstjórar fengju fyrir störf sín fæli í sér greiðslu fyrir húsnæði. Gerði kærandi grein fyrir nauðsyn á skrifstofuaðstöðu í þágu hreppstjórastarfsins og áætluðum kostnaði, sem hann teldi sig hafa vegna þessa.

Með úrskurði, dags. 6. janúar 1984, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Víkur skattstjóri fyrst að skrifstofukostnaði vegna starfa kæranda sem umboðsmanns skattstjóra og segir svo um þann þátt: „Ég hef tjáð yður í síma nokkrum sinnum á sl. 4 árum að greiðslu frá launadeild væru vegna vinnuþáttar, en annar kostnaður svo sem burðargjöld, símakostnaður, umslög og húsnæðiskostnaður vegna skattstofunnar, væri greiddur af mér skv. reikningi. Það er fyrst með bréf mótt. 5/12 s.l. sem slíkur reikningur vegna skattstofunnar berst frá yður fyrir 4 s.l. ár og hefur hann verið greiddur. Til stuðnings slíkum greiðslum eru bréf ríkisskattstjóra 21/12 1962, 23/1 1964 og 6/12 1966.“ Um frádrátt vegna skrifstofukostnaðar vegna hreppstjórastarfa kæranda segir síðan í úrskurði skattstjóra: „í nýjustu lagaákvæðum um hreppstjóra segir, að auk launa skuli hreppstjórar fá greiddan útlagðan kostnað vegna hreppstjórastarfsins. Launadeildin gefur laun yðar upp í reit 02 á launamiða þ.e. sem almenn laun. Launatengd gjöld hafa verið greidd af upphæðinni.“

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 17. janúar 1984. Krefst kærandi þess, að honum verði heimilaður frádráttur frá þóknun vegna hreppstjórastarfa, þar sem hluti þóknunarinnar sé vegna rekstrarkostnaðar húsnæðis þess, sem hann láti í té í þágu starfsins. Um þetta snúist málið og fái formleg atriði engu um það breytt. Vísar kærandi til þess, að sýslumaður D.sýslu og dómsmálaráðuneytið líti svo á, að hluti þóknunar fyrir hreppstjórastarf skuli vera til reksturs embættisins. Skattstjóri sé greinilega annarrar skoðunar og hvergi komi fram, að hann hafi leitað staðfestingar hlutaðeigandi aðila á því, að rétt sé eftir haft. Þá bendir kærandi á, að sú breyting á lögum um hreppstjóra, sem skattstjóri nefni, lög nr. 13/1983, hafi ekki tekið gildi, fyrr en 1. júlí 1983, en mál kæranda varði tekjuárið 1982. Þá víkur kærandi að mismunandi túlkun fjármála- og dómsmálaráðuneytis á því hvað felist í „þóknun“ í þessum efnum, þar sem fyrrnefnda ráðuneytið telji aðeins um vinnulaun að ræða, en hið síðarnefnda, að í „þóknun“ felist reksturskostnaður að hluta auk vinnulauna. Mótmælt er þeirri fullyrðingu, að launatengd gjöld hafi verið greidd af upphæðinni.

Með bréfi, dags. 2. apríl 1984, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu:

„Að móttekin laun kæranda frá fjármálaráðuneytinu að fjárhæð kr. 24.183 verði að fullu talin skattskyld skv. ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Kærandi hefur í engu sýnt fram á að hann hafi af eigin fé lagt í kostnað vegna starfa sinna sem hreppstjóri. Sýnist þannig forsendur bresta til að ákvarða umbeðinn frádrátt.“

Fram kemur í úrskurði skattstjóra, að kærandi hafi fengið greiddan útlagðan kostnað sinn vegna starfa sem umboðsmaður skattstjóra samkvæmt reikningi, þ. á m. vegna tekjuársins 1982. Mál þetta varðar því frádráttarbærni þess kostnaðar, sem kærandi telur sig hafa orðið fyrir vegna rækslu hreppstjórastarfs síns. Fyrir það starf, fékk kærandi greidda þóknun að fjárhæð kr. 14.480 á árinu 1982, svo sem fyrr segir, sem hann færði sér til tekna. Þóknun þessi mun hafa byggst á lögum nr. 32/1965, um hreppstjóra, sbr. 7. og 8. gr. þeirra. Með lögum nr. 13/1983 var breyting gerð á fyrrnefndum lögum um hreppstjóra, þ. á m. nefndum greinum þeirra. Í 4. mgr. 2. gr. síðarnefndu laganna, en sú grein breytti 7. gr. 1. nr. 32/1965, er það nýmæli að finna, að auk launa skuli hreppstjórar fá greiddan útlagðan kostnað vegna hreppstjórastarfsins og er fjármálaráðherra heimilt að ákveða, að starfskostnaður reiknist sem ákveðið hlutfall af launum. Breytingarlög þessi á lögum um hreppstjóra tóku gildi 1. júlí 1983 og giltu því ekki það tekjuár, sem til umfjöllunar er í máli þessu. Í athugasemdum og fylgiskjali með frv. því, sem varð að lögum nr. 13/1983 kemur fram, að kostnaður vegna hreppstjóra, annar en launakostnaður, hefur verið viðurkenndur og að hreppstjórar hafi yfirleitt fengið greiddan útlagðan kostnað vegna pósts og síma og kaupa á ritföngum, allt í þágu starfsins. Þá er í athugasemdum nýmælið um launahlutfallsreglu starfskostnaðar rökstutt með því, að oft sé erfitt að meta útlagðan kostnað, svo sem símkostnað, þar sem um sjálfvirkan síma sé að ræða, skrifstofukostnað o.fl. Eins og mál þetta liggur fyrir þykir kærandi ekki hafa leitt í ljós hvort eða að hve miklu leyti útlagður kostnaður er innifalinn í greiddri þóknun fyrir starf hans. Þá þykir rökstuðningur hans fyrir hinni umdeildu frádráttarfjárhæð skrifstofukostnaðar eigi svo glöggur sem skyldi. Verður kærunni að svo vöxnu vísað frá vegna vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja